Loading...
Forsíða2023-01-13T12:51:24+00:00

Hvað er að frétta?

Fréttir af störfum LUF, greinar um ungt fólk og pistlar eftir félagsfólk

Regnhlífasamtök ungmennafélaga á Íslandi

Ungt fólk í þágu ungs fólks

LANDSSAMBAND UNGMENNAFÉLAGA

Landssamband ungmennafélaga (LUF) er regnhlífarsamtök fyrir félög ungs fólks á Íslandi og því tilheyra 40 aðildarfélög. LUF er sameign aðildarfélaganna, veitir þeim ekki samkeppni í starfi, heldur vinnur samkvæmt þeim. Aðildarfélög LUF eiga það sameiginlegt að vera lýðræðisleg, frjáls félagasamtök, sem starfa á landsvísu, leidd af ungu fólki og starfa með hagsmuni ungs fólks að leiðarljósi. LUF er þverpólitískur samstarfs- og samráðsvettvangur, málsvari ungs fólks gagnvart íslenskum stjórnvöldum, talar fyrir hagsmunum ungra Íslendinga á alþjóðavettvangi og hefur upplýsingaskyldu að gegna gangvart aðildarfélögunum sínum auk þess að þjónusta þau á margvíslegan hátt. 

LYKILVERKEFNI FÉLAGSINS

LUF hefur það að markmiði að vernda og efla réttindi ungs fólks, valdefla ungt fólk, hvetja til virkrar samfélagsþátttöku og stuðla að umræðu og þekkingarsköpun um málefni ungs fólks.

  • Málsvari – LUF talar fyrir hagsmunum ungs fólks á Íslandi

  • Samráðsvettvangur – LUF eflir samstarf ungmennafélaga

  • Leiðtogaþjálfun – LUF starfrækir Leiðtogaskóla Íslands

  • Alþjóðastarf – LUF er aðili að Evrópska ungmennavettvangnum

  • ÞjónustuvettvangurLUF þjónustar aðildarfélög sín og meðlimi þeirra

LUF er með samning við Mennta- og barnamálaráðuneytið sem tryggir rekstur skrifstofu.

STEFNA LUF

Ungt fólk stendur frammi fyrir mismunun þegar kemur að aðgengi að borgaralegum-, pólitískum-, efnahagslegum- og félagslegum réttindum. Horfast þarf í augu við að ungt fólk er jaðarsett vegna aldurs og er oft berskjaldaðasti hópur samfélagsins. Líta þarf til þess að ungmenni yfir 18 ára aldri njóta ekki sérstakrar lagalegrar verndar Barnasáttmálans og þarf því sérstaka athygli. Auk þess er samfélagshópurinn „ungt fólk“ er fjölbreyttur og innan hans eru jaðar- og minnihlutahópar sem standa frammi fyrir margþættri mismunun.

1.1. Félagsleg samlögun

LUF aðhyllist fjölmenningarhyggju, beitir sér í félagslegri samlögun og vinnur að því að vernda réttindi og efla þátttöku jaðar- og minnihlutahópa. LUF fordæmir hatursorðræðu og hvers konar mismunun fólks byggða á kynferði, kynhneigð, kyntjáningu, trúarbörgðum, skoðunum, tungumáls, þjóðernisuppruna, fötlunar, örorku, aldurs, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti. LUF setur það sem skilyrði að allir hópar sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu hafi rödd innan alls starfs sem tengist þeirra málaflokki. Ekkert skal framkvæma eða ákveða án þeirra samráðs.

1.2. Kynjajafnrétti

LUF byggir starfsemi sína á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiðum. LUF talar gegn kynbundnu launamisrétti og vinnur markvisst að því að uppræta kynbundið áreiti og ofbeldi. Bæði með viðbragðsáætlun í siðareglum félagsins (sem taka einnig til aðildarfélaganna) og með því að tala gegn hverskonar ofbeldi opinberlega. Fullu kynjajafnrétti hefur ekki verið náð og viðurkennir LUF að ávallt er hætta á bakslagi, sem ber að gæta sérstaklega. LUF telur þörf á skýringum á hvers vegna ungir karlar eru síðri til að kjósa og líklegri til að fremja sjálfsmorð. LUF er fylgjandi því að gera kyn- og margbreytileikafræði að skyldufagi í aðalnámsskrá framhaldsskóla og telur að efla þurfi kynfræðslu í grunnskólum.

Það er réttur ungs fólks að taka að taka þátt í samfélaginu. Félagsleg útilokun, ójafnrétti og aldursfordómar hindra ungu fólki að njóta virkrar og raunverulegrar þátttöku. Ungt fólk er gagnrýnið á stjórnkerfið, tekur síður þátt í hefðbundnum stjórnmálum og er ólíklegast til að kjósa. Ungt fólk kýs fremur nútímalegri aðferðir til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Aðgengi ungs fólks að stefnumótun og ákvarðanatöku samfélagsins er nauðsynlegt ef lýðræði á að þrífast. LUF viðurkennir að ungmennafélög spila lykilhlutverk í að stuðla að samfélagsþátttöku ungs fólks, lýðræðislegri borgaravitund og sjálfbærri þróun.

2.1. Lýðræðisþátttaka

LUF berst fyrir lýðræðisumbótum, styður við lýðræðisþróun, hvetur til þátttöku ungs fólks í kosningum og stjórnmálum og stuðlar að aðgengilegum upplýsingum. LUF tekur afstöðu með lækkun kosningaaldurs í 16 ára í kosningum til forseta, Alþingis og sveitarstjórna. Við 16 ára aldur eru einstaklingar sakhæfir og þeir bera refsiábyrgð, skólaskyldu lýkur, við tekur val um framhaldsnám og fyrstu skref á vinnumarkaði eru tekin – með tilheyrandi tekjuskatti og stórauknu framlagi til samfélagsins. Að þessu sögðu þykir LUF alvarlegt að útiloka þennan aldurshóp frá ákvarðanatöku í samfélagi sem þau gefa af sér til og bera ábyrgð gagnvart, einkum og sér í lagi ákvarðanir sem hafa mest og langvarandi áhrif á þau fremur en aðra aldurshópa.

2.2. Valdefling og fræðsla

Samfélagsþátttaka er lærð hegðun og ungt fólk þarfnast valdeflingar til að þekkja, æfa og verja réttindi sín – til að hafa getu til að taka þátt og og njóta til fulls lýðræðislegrar borgaravitundar. LUF skal því vera leiðandi í mannréttinda- og lýðræðisfræðslu í gegnum sjálfboðastarf, námskeið, vinnustofur og annað óformlegt nám. LUF leggur áherslu á jafningjafræðslu og stuðlar að eflingu leiðtogahæfni ungs fólks.

2.3. Sjálfbær þróun

Afleiðingar ákvarðana sem teknar eru í dag skipta sköpum fyrir velferð ungs fólks í framtíðinni. Umhverfisleg-, efnahagsleg- og félagsleg sjálfbærni er nauðsyn fyrir hag komandi kynslóða. Nýting auðlinda skal ekki hafa skaðleg áhrif á jörðina. LUF talar fyrir sjálfbærni og endurnýtingu svo komandi kynslóðir geti notið þeirra auðlinda sem jörðin hefur uppá að bjóða. Með tilkomu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030, Parísarsamkomulagsins og ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2250 um ungt fólk, frið og öryggi eru gerðar kröfur um skuldbindingar ríkisstjórna og stofnanna til að stuðla að sjálfbærni. Mest er í húfi fyrir yngstu kynslóðirnar og því krefst sjálfbær þróun virkrar og raunverulegrar þátttöku ungs fólks. LUF kallar á aðgerðir og innleiðingar í nánu samráði við ungt fólk.

Engin algild og alþjóðleg skilgreining er til um ungt fólk, en stofnanir, ríki og fræðimenn sammælast að átt er við ferli frá forræði til sjálfræðis. Kynslóðirnar sem nú vaxa úr grasi ná fullu sjálfstæði seinna en fyrri kynslóðir sem veldur það því að  fólk í dag á það til að festast í þessu millibilsástandi og það þarf að viðurkenna. Geta ungs fólks til að taka fulla ábyrgð á eigin lífi eftir 18 ára aldur, lýðræðisleg borgaravitund og aðgengi að félags- og efnahagslegum réttindum helst í hendur. Ef þörfum ungs fólks er ekki mætt er hætta á að trú ungs fólks á lýðræði bresti. LUF kallar á aðgerðir í heilbrigðis-, atvinnu-, mennta- og húsnæðismálum þar sem tekið er sérstakt tillit til ungs fólks og telur að brýn þörf sé á heildstæðri stefnu hins opinbera í málaflokknum.

3.1. Heilsa og vellíðan

LUF telur að bregðast þurfi við því að hátt hlutfall ungs fólks stríðir við geðsjúkdóma á við kvíða og depurð. Er það grafalvarlegt að um þriðjungur háskólanema glímir við andleg veikindi, sérstaklega kvíða- og þunglyndi. LUF kallar því eftir fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferðum sem stuðla að geðheilbrigði og vellíðan ungmenna. Einnig þarf að efla forvarnir og meðferðir vegna fíknivanda, m.a. misnotkunar fíkniefna og áfengis. Þá er LUF fylgjandi afglæpavæðingu fíkniefna. Samræma þarf heilbrigðiskerfið þannig að það nái utan um bæði líkamleg og andleg veikindi. Óháð búsetu og efnahag þarf að tryggja aðgengi ungs fólks að heilbrigðisþjónustu og viðeigandi meðferðarúrræðum á þann hátt að kerfið sé fyrirbyggjandi og verndi ungt fólk gegn langvarandi veikindum sem geta fylgt fólki alla ævi. Sömuleiðis þarf að vinna gegn einelti og félagslegri einangrun sem hefur skaðleg áhrif á líðan ungs fólks.

3.2. Atvinnu- og menntamál

Tryggja þarf samkeppnishæfni íslenskra ungmenna og aðgengi þeirra að fjölbreyttu námi hérlendis sem og erlendis. Draga þarf úr ofuráherslu á bóknám og hvetja jafnframt til iðn- og verknáms. LUF hefur áhyggjur af því að ungt fólk sem útskrifast með háskólagráður fái ekki störf við hæfi þar sem hlutfall háskólamenntaðra í öllum störfum hefur vaxið mjög á undanförnum árum auk þess sem hlutfallslegur munur á kjörum háskólamenntaðra og annarra fer dvínandi. Því þarf að aðlaga menntakerfið að nútímaþörfum atvinnulífsins og styrkja þarf samstarf menntakerfisins við einkageirann. LUF leggur til að tækifæri til skiptináms verði efld og telur að fjölga þurfi tækifærum á gæða starfsnámi. LUF tekur sterka afstöðu gegn ólaunuðu starfsnámi en leggur til að ríkið og fyrirtæki styðji við launað starfsnám eða að boðið verði upp á einingar á framhalds- og háskólastigi. Með slíku fyrirkomulagi skapast tækifæri til að þróa mat á óformlegu námi og þannig geta félagasamtök einnig lagt af mörkum.

Ungt fólk öðlast ekki að fullu fjárhagslegt sjálfstæði og öryggi fyrr en á vinnumarkaðinn er komið og ekki er tryggt að fólk gangi beint í viðeigandi vinnu eftir námslok. Fjárhagslegt öryggi kemur því ekki á undan starfsöryggi. Fyrstu skref á vinnumarkaði eru viðkvæmust og þvi þarf að tryggja aðgengi ungs fólks að upplýsingum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. LUF leggur sérstaka áherslu á mikilvægi þess að taka tillit til þess að með tilkomu millibilsástandsins, sem kom til m.a. vegna þess að ungt fólk er lengur í námi og kemur seinna inn á vinnumarkaðinn, hefur ungt fólk setið verulega eftir í vaxandi hagsæld síðustu áratuga. Það birtist t.d. í því að kaupmáttur ráðstöfunartekna 16-29 ára jókst um 2% frá aldamótum til 2016 en á sama tíma um 21% hjá 30-64 ára og 45% hjá 65 ára og eldri.

3.3. Húsnæðismál

Hluti af ferli ungs fólks í átt að fullu sjálfstæði er að flytja að heiman og að hafa getu til að sjá fyrir, viðhalda heimili og stofna fjölskyldu. Ungt fólk býr lengur í foreldrahúsum en áður og jafnvel fram yfir fyrstu skrefin á vinnumarkaði. Skortur á litlum íbúðum og hátt leigu- og íbúðaverð valda þessu. Þetta ástand kemur í veg fyrir sjálfstæði ungs fólks til að sjá fyrir sér og taka ábyrgð á eigin lífi. Með tilliti til þarfa ungs fólks og þess að ungt fólk hefur minni ráðstöfunartekjur en aðrir aldurshópar er þörf á sérstökum úrræðum. LUF kallar á aðgerðir sem miða að því að fjölga búsetuúrræðum á viðráðanlegu verði með tilliti til samgangna og nærþjónustu.

Það er réttur ungs fólks að njóta félagafrelsis. Skortur á skuldbindingu og pólitískum vilja til þess að styðja við, vinna með og nýta borgarasamfélag ungmenna: félags- og hagsmunastarf ungmennafélaga og þau verðmæti sem þau skapa er sóun á mannauði og hamlar samfélagsþátttöku ungs fólks. LUF undirstrikar brýna þörf ungmennafélaga á stöðugum og viðunandi tekjum, skort á lagaheimildum og pólitískri viðurkenningu. Með aukinni samvinnu ungmennageirans sem og stuðningi ríkisins við ungmennafélög verður hlutverk þeirra áhrifameira og þar með skapa þau meiri samfélagslegan ávinning. Þátttaka í félagsstarfi ungmennafélaga eflir leiðtogahæfni og borgarvitund ungs fólks, vinnur gegn félagslegri einangrun og er vettvangur fyrir ungt fólk til þess að þroska samskiptahæfni og skoðanaskipti. LUF telur því nauðsynlegt að ríkið styðji við hagsmuna- og félagsstörf ungs fólks lagalega, fjárhagslega og félagslega.

4.1. Jafnræði fjárúthlutana

LUF telur að ójöfn fjárframlög ríkisins til frjálsra félagasamtaka ungs fólks sé óviðunandi og er því eitt helsta áherslumál félagins að berjast fyrir fjárútlátum á jafningjagrundvelli. Hingað til hefur fjárúthlutunum til málaflokksins verið stjórnað af geðþóttaákvörðun og áhugasviðum mennta- og menningarmálaráðherra sem verður til þess að ungt fólk hefur ekki getað þróað með sér getu og þekkingu til þess að byggja upp sterka málsvara. LUF vill taka upp hlutlaust kerfi að norrænni fyrirmynd þar sem öll ungmennafélög, að uppfylltum ákveðnum kröfum, fái fjármagn í hlutfalli við félagafjölda og eiga kost á að byggja upp starf sitt á framsýnni hugsun. Þar er einnig tekið tillit til jafnréttissjónarmiða og hlutfalls ungs fólks í stjórn. Þetta fyrirkomulag styrkir einnig stofnun og starfsemi nýrra félaga. Að auki styður LUF samkeppnissjóði til verkefna, en vart ert samkeppni um slíka sjóði (t.d. Æskulýðssjóð) ef jafnræði í fjárúthlutunum ríkisins er ekki tryggt. Það veldur því að félögin með sterkustu innviðina (vegna ríkisfjárveitinga) hirða mest fé, á meðan þau félög sem byggja einvörðungu á sjálfboðastarfi ungs fólks standa á brauðfótum.

4.2. Ungmennastjórnir

LUF styður við stjórnir ungmennafélaga eða ungmennafélög þar sem ungt fólk fer með ákvarðanavaldið og lýðræðisleg ungmennaráð innan skipulagsheilda sem hafa völd. Án ungmennastjórna verður ungmennasamþætting aldrei að veruleika. Ríkisskattstjóri neitar þó almennum félögum um breytingar á skráningarskyldum sínum á þeim forsendum að ólögráða einstaklingar eigi sæti í stjórn ungmennafélags, þvert á mannréttindaákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um ákvæði um félagafrelsi og jafnræði. Einnig gegn réttindum barna til tjáningar og þátttöku í samfélaginu sem eru sérstaklega tryggð í 12. til 17. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Eiga börn því sjálfstæðan rétt til þess að stofna og taka þátt í félögum. LUF tekur skýra afstöðu gegn slíkum mannréttindabrotum og mismununar á grundvelli aldurs, sem andstæð er jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. LUF skorar á frjáls félagasamtök að hleypa ungu fólki að í auknum mæli í stjórnir og aðrar áhrifastöður. Ungt fólk styrkir þriðja geirann með endurnýjun innan samtaka, nútíma- og tæknivæðingu og nýsköpun.

4.3. Samstarf hagsmunaaðila

Með meginhlutverki sínu sem samstarfs- og samráðsvettvangur frjálsra ungmennafélaga stuðlar LUF að auknu samstarfi allra hagsmunaaðila, innan ungmennageirans sem utan – innanlands og erlendis. Skilvirkni og ávinningur hámarkast með samstarfi hagsmunaaðila í átt að sameiginlegum markmiðum og þekking og reynsla eykst. LUF stefnir að fjölgun aðildarfélaga, sameinaðri ungmennageira, eflingu samstarfs við stofnanir og aukinni alþjóðasamvinnu. LUF er aðgengileg og opin regnhlífasamtök og er brú á milli félagasamtaka, geira, kynslóða og landa. LUF leggur áherslu á samstarf við lýðræðislegar skipulagsheildir sem tryggja aðkomu ungs fólks að ákvarðanatöku og samræmast markmiðum og stefnu LUF.

LEIÐTOGASKÓLI

AÐILDARFÉLÖG

0
Aðildarfélög
0
Meðlimir
0
Útskrifaðir leiðtogar
0
Starfsmenn
Go to Top