Fyrsti leiðtogaráðsfundur LUF, starfsárið 2023-2024 var haldinn 26. apríl á Grand hóteli. Er það fyrsti leiðtogaráðsfundur sem haldinn er eftir breytingar á samþykktum félagins. En í nýsamþykktum breytingum voru fundum fækkað úr fjórum í tvo sem leið til að auka gæði og mikilvægi fundanna sem og að búa til rými fyrir fleiri óformlegar samkomur leiðtogaráðs. Þá var leiðtogaráð einnig stækkað, þar sem aðildarfélög hafa nú einnig rétt á að senda varafulltrúa á fundi ráðsins auks oddvita og þá eiga einnig meðlimir alþjóðaráðs LUF ásamt sendinefnd LUF hjá SÞ seturétt á fundum ráðsins.
Bar fyrsti leiðtogaráðsfundurinn yfirskriftina „Frá samráði til sóknar” og var um leið samráðsfundur um samstarfsverkefni LUF og mennta- og barnamálaráðuneytisins um gerð rafræns samsráðsvettvangs stjórnvalda og ungs fólks. Af því tilefni voru hinum ýmsu félögum, sem standa utan regnhlífar LUF boðið á fundinn til samráðs ásamt ungmennaráðum hvaðanæfa af landinu. Fóru fram frjóvar borðaumræður um mögulega kosti, galla, tækifæri og áskoranir við gerð rafræns samráðsvettvangs sem nýttar verða við vinnu LUF við þarfagreiningu verkefnisins.
Þá var einnig framtíðarsýn LUF kynnt og samþykkt af fundinum sem er liður af sóknaráætlun félagsins til langs tíma sem heildarsamtök ungs fólks á Íslandi, sem unnin hefur verið undanfarin ár með styrk frá Erasmus+ og gefin verður út og kynnt á komandi misserum.
Leiðtogaráð samþykkti einnig tillögu stjórnar um stofnun inngildingarráðs LUF (e. Social Inclusion Committee). Hlutverk ráðsins er að vera til ráðgjafar í málefnum jaðarsettra ungmenna. Markmiðið með stofnun ráðsins er að skapa vettvang fyrir sérfræðiþekkingu um málefnasviðið og að veita ungu fólki, sem er berskjaldað fyrir margþættri mismunun sterkari rödd innan starfsemi LUF. Tilgangur ráðsins er m.a. liður í því verkefni sem stjórnvöld hafa falið LUF sem snýr að þarfagreiningu í tengslum við stofnun rafræns samráðsvettvangs sem er markmið í aðgerðaráætlun um Barnvænt Ísland. Þar er gerð sú krafa að sérstök áhersla verði lögð á að ná til „viðkvæmra hópa og stuðla að þátttöku þeirra“. Tilgangurinn er einnig framlag stjórnar að vinna markvissara að áherslu um félagslega samlögun í stefnu félagsins. Mun stjórn auglýsa eftir meðlimum í ráðið á næstu misserum.
Á fundinum kynnti að auki Rebekka Karlsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði sjálfbærrar þróunar, Landsrýni ungs fólks um stöðu innleiðingar heimsmarkmiða SÞ á Íslandi sem hún mun kynna á ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna (HLPF) í júlí.
Einnig voru þær Birta B. Kjerúlf, fulltrúi Q-félagsins og Unnur Þórdís Kristinsdóttir, fulltrúi Ungra athafnakvenna (UAK) lýðræðislega kjörnar ungmennafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviðum kynjajafnréttis og loftslagsmála. Voru þær kjörnar til tveggja ára, ólíkt því sem áður hefur verið sem liður í innleiðingu á svokölluðu „junior/senior” kerfi að fyrirfmynd nágrannaríkja okkar.
Þakkar stjórn LUF öllum þeim fjölda mörgu sem tóku þátt og lögðu leið sína á fundinn kærlega fyrir.