Birta og Unnur kjörnar ungmennafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviðum kynjajafnréttis og loftslagsmála
Þær Birta B. Kjerúlf, fulltrúi Q-félagsins og Unnur Þórdís Kristinsdóttir, fulltrúi Ungra athafnakvenna (UAK) voru lýðræðislega kjörnar ungmennafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) á sviðum kynjajafnréttis og loftslagsmála á leiðtogaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga (LUF). Fundurinn fór fram á Grand hóteli, miðvikudaginn, 26. apríl og var um leið samráðsfundur samstarfsverkefni LUF og mennta- og barnamálaráðuneytisins um rafrænan samráðsvettvang barna og ungmenna.
Ungmennafulltrúi á sviði kynjajafnréttis
Voru 5 í framboði til ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis, en Birta hlaut mestan stuðning leiðtogaráðs LUF, sem skipað er af oddvitum og fulltrúum allra 41 aðildarfélaga LUF. Er Birta kjörin til tveggja ára og mun koma til með að sitja í stýrihóp forsætisráðuneytisins um kynslóð jafnréttis og fyrirhugað er að hún sæki The Commission on the Status of Women (CSW).
„Kynjajafnrétti snertir okkur öll og ég tel mikilvægt að ungt fólki fái að koma að borðinu þegar málefnið er til umræðu. Mikilvægt er að taka tillit til ólíkra þarfa jaðarsettra hópa og gæta að hagsmunum allra kynja. Í ljósi bakslagsins í réttindabaráttu hinsegin fólks um allan heim þarf sérstaklega að gæta að þörfum trans og kynsegin fólks. Ísland hefur náð stórum áföngum í baráttunni en það má alltaf gera betur”, sagði Birta í ræðu sinni.
Ungmennafulltrúi á sviði loftslagsmála
Þá voru 4 í framboði til ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála, en Unnur varð hlutskörpust. Er Unnur sömuleiðis kjörin til tveggja ára og mun m.a. sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) í Dubai í desember.
Unnur lagði m.a. áherslu á samvinnu þvert á geira gegn loftslagsbreytingum, einkum þátt einkageirans: “Stjórnvöld hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að loftslagsvánni, en í krafti stöðu sinnar hafa fyrirtækjaleiðtogar bæði drif og svigrúm til að breyta hlutunum til hins betra. Því er einkar mikilvægt að einkageirinn taki virkan þátt í að móta framtíð okkar sem og næstu kynslóða”, sagði Unnur í ræðu sinni.
Sendinefnd og Alþjóðaráð LUF
Kjörnir ungmennafulltrúar Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda skipa sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ. Hún starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við. Þá sitja ungmennafulltrúar einnig í alþjóðaráði LUF sem er samráðsvettvangur aðildarfélaga er varðar alþjóðlegt starf.
Sendinefndin er nú skipuð af 12 einstaklingum, tveir á hverju sviði; mannréttinda, loftslagsmála, sjálfbærar þróunar, barna og ungmenna, sviði kynjajafnréttis og á sviði mennta, vísinda og menningar.
Stjórn LUF óskar Birtu og Unni til hamingju með kjörið og hlakkar til samstarfs með þeim fyrir framgangi mannréttinda og ungs fólks í heiminum á komandi misserum.

Ungmennafulltrúi á sviði loftslagsmála
Geir Finnsson, forseti LUF veitir Birtu B. Kjerúlf friðarlilju til tákns um kjör hennar sem ungmennafultrúi Íslands hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis.

Ungmennafulltrúi á sviði loftslagsmála
Geir Finnsson, forseti LUF veitir Unni Þórdísi Kristinsdóttur friðarlilju til tákns um kjör hennar sem ungmennafultrúi Íslands hjá SÞ á sviði loftslagsmála.