Landssamband ungmennafélaga (LUF) hefur skilað umsögn um frumvarp til fjárlaga ársins 2024.
Þann 25. október sl. sendi LUF umsögn um frumvarp til fjárlaga ársins 2024 til fjárlaganefndar Alþingis. Í umsögninni heldur LUF á lofti gagnrýni sinni á útdeilingu fjármagns til æskulýðsmála.
Umsögnin inniheldur aðeins þau atriði sem félagið taldi brýnast að koma áleiðis til nefndarmanna að svo stöddu. En athugasemdir lúta m.a. að viðvarandi ógagnsæi við útdeilingu fjármuna – þvert á meginmarkmið breytinga á lögum um opinber fjármál, að stjórnvöld fylgi ekki eftir sinni eigin stefnu í málaflokknum þegar kemur að samningum og úthlutun opinbers fés en helsta uppgötvun félagsins við úrvinnslu fjárlaga þetta árið er fundið fé – en af safnlið fjárlaga fyrir samninga og styrki á sviði æskulýðsmála má finna 94,4 milljónir kr. sem ekki er ráðstafað í samninga og styrki á sviði æskulýðsmála samkvæmt opinberum gögnum.
Ljóst er að ekkert hefur breyst við fjármögnun málaflokksins undanfarin ár, en LUF vann ítarlega greinargerð um fjármögnun málaflokksins og gaf út árið 2021.