Uppskeruhátíð og tengslaviðburðuinn „Félagi ársins” fór fram í gær, fimmtudaginn 27. febrúar, á Loft hostel í Reykjavík. „Félagi ársins“ er viðurkenning fyrir sjálfboðastarf innan aðildarfélaga LUF og er heiðraður fyrir að hafa tekið óeigingjarna forystu og sýnt alúð í starfi í þágu ungs fólks á árinu. Hvert aðildarfélag gat tilnefnt einn framúrskarandi félagsmann til Félaga ársins 2019.

Framúrskarandi árið 2019

Þeir sem tilnefndir voru:

  • Gunnar Ásgrímsson, tilnefndur af Ungum framsóknarmönnum, 
  • Svava Arnardóttir, tilnefnd af JCI á Íslandi, 
  • Jóna Björg Hlöðversdóttir, tilnefnd af Samtökum ungra bænda 
  • Aðalbjörg Egilsdóttir, tilnefnd af Stúdentaráði Háskóla Íslands.

Í dómnefnd sátu þau Una Hildardóttir, formaður LUF, Tinna Isebarn framkvæmdarstjóri í orlofi og Ebba Sigurðardóttir fyrrverandi stjórnarmaður LUF. Dómarar litu einungis á þær tilnefningar sem sendar voru inn og skoðuðu ekkert utan þeirra. Sérstaklega var skoðað þá ávinning sem einstaklingarnir sem voru tilnefndir höfðu náð á árinu 2019. 

Ebba Sig, Aðalbjörg, Jóna og Gunnar. Á myndina vantar Svövu Arnardóttur.

 Erfitt val dómnefndar

Ebba veitti öllum tilnefndum félögum viðurkenningu frá LUF, blóm og gjafabréf á Kattakaffihúsið. „Það var ekki auðvelt verkefni að velja úr þessum flotta hóp ungmenna,” sagði Ebba þegar hún tilkynnti úrslitin og jafnframt: „en var það þó einróma niðurstaða dómara að veita Aðalbjörgu Egilsdóttur viðurkenninguna, Félagi ársins 2019. Stúdentaráð Háskóla Íslands tilnefnir Aðalbjörgu en í rökstuðningi sínum segir SHÍ m.a að Aðalbjörg hafi unnið mjög óeigingjarnt starf í þágu stúdenta og loftlagsmála á árinu sem leið.”

Aðalbjörg var virkilega ánægð með sigurinn og ekki síður stærðarinnar bikarinn sem hún hreppti í verðlaun. 

Aðstandendur voru einstaklega ánægðir með mætingu á viðburðinn þrátt fyrir séríslenskar veðurviðvaranir og snjóbyl. Tilgangurinn með viðburðinum er að félagsmenn kynnist, stuðla að samvinnu aðildarfélaga, umbuna fyrir vel unnin störf og hita upp fyrir sambandsþing sem fer fram á morgun, laugardaginn 29. febrúar.