Á stjórnarfundi LUF, miðvikudaginn 21. september sl., afgreiddi stjórn umsóknir félaganna UngSAFT og Sk8roots um áheyrnaraðild að LUF. Stjórn samþykkti umsóknir beggja félaga um áheyrnaraðild að félaginu einróma. Eru aðildarfélög LUF því alls orðin 40 talsins.
UngSAFT
UngSAFT er ungmennaráð SAFT sem er miðstöð netöryggisfræðslu barna og ungmenna á Íslandi. Ráðið samanstendur af ungmennum á aldrinum 13-18 ára sem koma allstaðar af á landinu.
UngSAFT er með tvo staðfundi á ári í Reykjavík en þess á milli eru fundir ráðsins rafrænir. Meðlimir UngSAFT geta fengið tækifæri á að vera fulltrúar á innlendum og erlendum ráðstefnum og vinnuhópum.
Ungmennaráð SAFT (UngSAFT) hefur á liðnum árum tekið þátt í fjölmörgum verkefnum, bæði hér innanlands og erlendis. Meðlimir UngSAFT hafa verið fulltrúar Íslands í margskonar alþjóðlegum starfshópum og á ráðstefnum. Dæmi um afrakstur slíks samstarfs er verkefnabókin Allir um borð til Netbæjar (e. All aboard for Digitown) sem verður gefin von bráðar út á íslensku. Jafnframt hefur ungmennaráðið sent frá sér áskoranir til fjölmiðla og stjórnvalda um málefni sem þau telja að þurfi að bæta úr.
Nánari upplýsingar um UngSAFT má nálgast hér: https://www.saft.is/ungsaft
Þar má einnig finna skráningarform í ráðið, en það er opið öllum áhugasömum einstaklingum á aldrinum 13-18 ára.
Sk8roots
Sk8roots er félag hjólabrettaáhugamanna sem stendur fyrir uppbyggingu á aðstöðu til hjólabrettaiðkunar, hjólabretta námskeiðum og fræðslu fyrir börn og ungmenni ásamt fjölbreyttum samfélagsverkefnum. Eitt helsta markmið félagsins er að ná til og virkja ungmenni sem finna sig ekki í örðum íþróttum eða áhugamálum og hvetja þau til aukinnar þátttöku.
Félagið hóf starfsemi sína hér á landi með uppbyggingu á aðstöðu til hjólabrettaiðkunar í Fjörheimum, félagsmiðstöð í Reykjanesbæ, og stóð þar fyrir fjölbreyttum námskeiðum fyrir börn og ungt fólk. Fyrr á þessu ári stóð félagið fyrir uppbyggingu á aðstöðu fyrir hjólabrettaiðkun á Hellissandi í Snæfellsbæ. Þar hefur verkefnið vakið verðskuldaða athygli og m.a. staðið fyrir hjólabretta námskeiðum fyrir börn og ungt fólk með fötlun.
Fylgjast má með starfi sk8roots á instagram: sk8rootsproject og heimasíðu félagsins: https://www.sk8roots.com/
Regnhlíf LUF stækkar
Stjórn LUF fagnar því að fleiri öflug og fjölbreytt félög ungs fólks hafi bæst undir regnhlíf félagsins. Félögin koma til með að bæta enn frekar fjölbreytta flóru aðildarfélaga sem vinna að bættum lífsgæðum og skilyrðum ungs fólks á Íslandi.
LUF er regnhlífasamtök frjálsra félagasamtaka ungs fólks á Íslandi og þeim tilheyra 40 aðildarfélög. LUF er þverpólitískur samstarfs- og samráðsvettvangur, málsvari ungs fólks gagnvart íslenskum stjórnvöldum og talar fyrir hagsmunum ungra Íslendinga á alþjóðavettvangi.
Nánari upplýsingar um aðildarskilyrði og umsóknir um aðild má nálgast hér: https://luf.is/um-luf/adildarumsokn/