Áframhaldandi samstarf LUF og félagsmálaráðuneytisins

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Tinna Isebarn, framkvæmdarstjóri Landssambands ungmennafélaga (LUF), rituðu nýverið undir samstarfssamning LUF við ráðuneytið. Samningurinn felur í sér aukna áherslu á aðkomu ungs fólks að ákvörðunartöku í þeim málefnum er þau varða. Unnið verður að markmiðum með reglulegum fundum og verður LUF ráðherra til ráðgjafar með t.a.m. rýni í lagafrumvörp, þingsályktunartillögur og faglegu áliti annarra mál er varða börn og ungt fólk. 

Geir Finnsson, varaforseti LUF sótti einnig samningafundinn. Áttu fulltrúar LUF gott samtal við ráðherra um stöðu ungs fólks á tímum sem þessum. Var LUF hrósað fyrir viðbrögð við heimsfaraldrinum Covid-19 og það fjölbreytta og öfluga starf sem félaginu hefur þó tekist að halda uppi, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Geir lagði áherslu á mikilvægi ungmennastarfs, sérstaklega núna, einkum að hlúa að ungu fólki og tryggja að það fái þann stuðning sem til þarf.

Samningurinn felur einnig í sér stuðning við þátttöku lýðræðislega kjörsins ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) á ECOSOC Youth Forum árið 2020. En Jökull Ingi Þorvaldsson var kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði barna og ungmenna og hélt nýverið erindi á stafrænni ungmennaráðstefnu félags- og efnahagsdeildar SÞ.

Samstarf LUF og félagsmálaráðuneytisins hófst formlega með með samstarfssamning í lok árs 2019. Stjórn LUF fagnar áframhaldandi samráðsvettvangi við félagsmálaráðuneytið en nýi samningurinn felur auk þess í sér eftirfylgni á tillögum LUF um verklag á samstarfi stjórnvalda við ungt fólk. 

Samstarfið LUF við ráðuneytið hófst formlega í lok árs 2019.

Una Hildardóttir, formaður LUF, segir stjórn LUF fagna þessum samstarfsvilja: „ Við höfum lengi barist fyrir aukinni aðkomu ungs fólks að stefnumótun stjórnvalda með virku og raunverulegu samráði. Áframhaldandi samstarf er aukinn viðurkenning fyrir ungt fólk á Íslandi og grunnur fyrir reglulegt og raunverulegt samstarf stjórnvalda við ungt fólk. Samningurinn tryggir aukið vægi ungmennafélaga á Íslandi og liggur því beinast við að nýta þann mikla kraft sem býr í félaginu og félagsmönnum þess. Stjórn LUF hlakkar mikið til samstarfsins og höfum við væntingar til þess að það skili sér í miklum umbótum fyrir samfélagið í heild.“

Stjórn LUF bindur vonir um að samstarfið muni aukast og að samningurinn sé upphaf að nánu samstarfi í stefnumótun um málefni ungs fólks og réttindi ungmenna. 

Stjórn LUF