Auglýst eftir þjálfurum fyrir Leiðtogaskóla Íslands 2020

/, Fréttir, Leiðtogaskólinn/Auglýst eftir þjálfurum fyrir Leiðtogaskóla Íslands 2020

Landssamband ungmennafélaga (LUF) kallar eftir umsóknum um stöður þjálfara til þess að leiða námskeið í Leiðtogaskóla Íslands 2020.

LUF vinnur nú að áframhaldandi uppbyggingu Þjálfarateymis LUF (e. Pool of Trainers – PoT) – sem er aðferð sem notuð er víða í Evrópu til þess að byggja upp getu ungmennafélaga í að miðla óformlegu námi. Þjálfaralið LUF samanstanda af þjálfurum sem hafa reynslu, getu og þekkingu til að miðla fræðslu og þjálfa færni ungs fólks í margvíslegu ungmennastarfi. LUF sækir innblástur aðferðarinnar til Evrópuráðsins og Evrópska ungmennavettvangsins þar sem um er að ræða afurð af „þjálfun þjálfara“ (e. Train the Trainers). 

Þjálfarateymi LUF er hluti af framþróun Leiðtogaskóla Íslands (LSÍ) sem var þróaður af aðildarfélögum LUF árið 2015 og stofnaður 2016. Hann var fjármagnaður af mennta- og menningarmálaráðuneytinu árið 2016 og af Evrópuráðinu árið 2017. Þá hefur Evrópuráðið viðurkennt LSÍ sem gott fordæmi (e. best practice) í Evrópu í að stuðla að mannréttindafræðslu og lýðræðislegri borgaravitund með óformlegu námi.

Gagnagrunnur þjálfara

Þjálfarateymið er gagnagrunnur af hæfum þjálfurum á heimasíðu LUF. Aðildarfélög LUF geta óskað eftir námskeiðum allan ársins hring og valið þjálfara við hæfi af heimasíðu LUF. Þeir sem útskrifast úr LSÍ og aðrir sem uppfylla hæfnisskilyrðin geta sóst eftir að verða hluti af teyminu. Með þessu móti byggir LUF upp meiri getu með hverju árinu og getur boðið upp á margvísleg námskeið fyrir aðildarfélög LUF í framtíðinni. Þetta er gert til að mæta eftirspurn eftir óformlegu námi ungmennafélaga þannig að auðvelt verður fyrir ungmennafélög að finna þjálfara við hæfi. Hver og einn þjálfari sérhæfir sig í mismunandi greinum (svo sem í: hópefli, mannréttindafræðslu, stjórnarsetu, verkefnastjórnun, ræðumennsku, stefnumótun, fjármögnun o.s.frv.).

Markmiðið með Þjálfarateymi LUF er að:

  1. Efla leiðtogahæfni og valdefla ungt fólk í félagasamtökum;
  2. Styrkja innviði LUF, aðildarfélaganna og ungmennastarf í heild;
  3. Byggja upp getu ungmennafélaga og forystufólks með hæfni til að miðla þekkingu og reynslu;
  4. Innleiða hæfnislíkan (e. Competence mode for trainers) Evrópusambandsins sem þróað var samhliða Evrópsku þjálfarastefnunni (e. European training strategy) til að gæta að gæðastjórnun. 

Þjálfarar þurfa að uppfylla eftirfarandi hæfniskröfur:

  1. Vera á aldrinum 16-35 ára. Því LUF leggur áherslu á jafningjafræðslu og miðar við aldurstakmarkið sem sett er félagsmönnum aðildarfélaganna í 23. gr. samþykkta LUF um kjörgengi til stjórnar.
  2. Vera félagsmaður aðildarfélags LUF.
  3. Hafa reynslu af ungmenna-, hagmuna- og/eða félagsstörfum innan aðildarfélags LUF.
  4. Hafa reynslu af því að leiða vinnustofur og/eða námskeið.
  5. Hafa getu til að flytja fyrirlestur og/eða halda vinnustofu á einhverju sviði sem nýtist félagsmönnum aðildarfélaga LUF. 
  6. Að hafa áður komið að námskeiðshaldi í LSÍ eða að hafa útskrifast úr LSÍ verður metið sem kostur.

Stjórn leiðtogaskólans velur síðan meðlimir þjálfarateymisins sem mun frá greitt fyrir að leiða námskeiðshald. Áætlað er að námskeiðin fari fram 10. – 11. október og 24. – 25. október. Frekari upplýsingar veitir Heiða Vigdís Sigfúsdóttir verkefnastjóri LUF í gegnum heida.vigdis@youth.is.

Núverandi meðlimir þjálfarateymis athugið! Lýsa þarf yfir áhuga á að leiða námskeið í skólanum í ár með því að að sækja um hér að neðan.

Sækja um

Umsóknarfrestur er til og með miðvikudags 12. ágúst 2020.

2020-07-28T14:01:17+00:00