Í síðustu viku fór Birta B. Kjerúlf, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis, til New York og sótti árlegan Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna (CSW68). Er það í annað sinn sem Ísland sendir ungmennafulltrúa í persónu á fundinn og því ber að fagna.

Meginþema fundarins í ár var að flýta fyrir jafnrétti kynjanna og valdeflingu allra kvenna og stúlkna með því að takast á við fátækt, efla stofnanir og auka fjármögnun með hliðsjón af kynjasjónarmiðum. Fundinum lýkur opinberlega ní dag, 22. mars 2024, en í vikunni stóðu yfir samningaviðræður um lokaútgáfu stefnuskjals ráðstefnunnar, sem leggur línurnar fyrir stjórnvöld víða um heim í aðgerðum þeirra í þágu kynjajafnréttis.

Vakti Birta athygli á stöðu málefna ungs fólks á Íslandi, sat og tók þátt í ýmsum opinberum viðburðum auk hliðarviðburða. Í ræðu sinni á viðburðinum “Interactive dialogue with youth representatives ” lagði hún áherslu á aukið samráð við ungmenni á öllum stigum ákvarðanatöku, bakslag í réttindum hinsegin fólks og kvenna og mikilvægi þess að auka og bæta skilyrði til menntunar.

Útkoma vikunnar var, meðal annars, bætt tengslanet við aðra ungmennafulltrúa en slíkt mun nýtast vel á næstu misserum, sérstaklega þegar litið er til komandi Framtíðarráðstefnu SÞ (Summit of the Future) sem fer fram í september á þessu ári. Framtíðin var mikið rætt á CSW68 en til viðbótar hófst undirbúningur fyrir næsta ár. Næsti kvennafundur (CSW69), sem haldin verður í mars 2025,  mun marka þrjátíu ára afmæli Pekingsáttmálans, sem hafði það að markmiði að flýta fyrir framgangi kynjajafnréttis um allan heim. Það er því margt í kortunum fyrir næsta ár og mikil vinna framundan í þágu jafnréttis, mannréttinda, ungs fólks og framtíðarinnar.

Birta sýndi frá veru sinni á fyrri viku fundarins en það efni er aðgengilegt í highlights á instagramsíðu ungmennafulltrúa.