Félagið er hluti af evrópskri heild laganema sem vinna að því að læra og miðla lögfræðiþekkingu með það að markmiðið að byggja upp réttlátara samfélag – þar sem mannréttindi eru höfð að leiðarljósi.
Á stjórnarfundi 8. október 2020 samþykkti stjórn LUF umsókn ELSA Iceland að sambandinu. Félagið hlýtur hér með áheyrnaraðild, umsókn um fulla aðild fer fyrir sambandsþing LUF 2021.
ELSA Iceland er hluti af ELSA International: „European Law Student Association“ sem er samráðsvettvangur evrópskra laganema og nýútskrifaða lögfræðinga á svæðinu. Tilgangur félagsins er að efla lögfræðimenntun, stuðla að gagnkvæmum skilningi og efla félagslega ábyrgð laganema og ungra lögfræðinga. ELSA Iceland vinnur að markmiðum sínum með funda- og ráðstefnuhaldi, eflir alþjóðlegt starfsnám og styður við akademískar athafnir innan fræðigreinarinnar.
Stuðla að réttindum ungs fólks
Tilgangur og markmið ELSA Iceland samræmast markmiðum LUF, sem skv. samþykktum er „að tala fyrir hagsmunum ungs fólks á Íslandi“ og „vernda og efla réttindi ungs fólks og bregðast við þegar þau eru virt að vettugi.“ Þá samræmist tilgangur ELSA Iceland jafnframt stefnu LUF um réttindi ungs fólks, en þar segir :„Ungt fólk stendur frammi fyrir mismunun þegar kemur að aðgengi að borgaralegum-,pólitískum-, efnahagslegum- og félagslegum réttindum. Horfast þarf í augu við að ungt fólk er jaðarsett vegna aldurs og er oft berskjaldaðasti hópur samfélagsins. Líta þarf til þess að ungmenni yfir 18 ára aldri njóta ekki sérstakrar lagalegrar verndar Barnasáttmálans og þarf því sérstaka athygli. Auk þess er samfélagshópurinn „ungt fólk“ er fjölbreyttur og innan hans eru jaðar- og minnihlutahópar sem standa frammi fyrir margþættri mismunun.“
Una Hildardóttir, forseti LUF, segir aðild ELSA Iceland styrkja sambandið verulega, sér í lagi með lagalegri þekkingu sinni. „Við fögnum aðild ELSA Iceland að regnhlíf LUF. Innan ELSA starfar ungt fólk sem býr yfir sérþekkingu sem er nauðsynleg í hvers konar réttinda- og hagsmunabaráttu ungs fólks,“ segir Una.

Kristinn Snær Guðmundsson formaður ELSA Iceland.
Kristinn Snær Guðmundsson, formaður ELSA Iceland er spenntur fyrir samstarfinu. „Í sífellt alþjóðavæddum heimi er mikilvægt að stuðla að gagnkvæmum skilningi, samstarfi og virðingu fyrir mannréttindum fyrir betri og réttlátari heimi. Við í ELSA trúum því að með aðild okkar að LUF bjóðist okkur tækifæri til að leggja okkar af mörkum í samstarfi við og í þágu ungs fólks. Þannig getum við betur uppfyllt kröfur nútímasamfélagsins og undirbúið unga laganema og lögfræðinga fyrir alþjóðaumhverfið,“ útskýrir Kristinn.
Með samþykki stjórnar öðlast ELSA Iceland áheyrnaraðild.
Stjórn LUF býður ELSA Iceland velkomna undir regnhlífina og hlakkar til samstarfsins.