í Apríl sótti Emma Ósk Ragnarsdóttir, Ungmennafulltrúi á sviði Barna og ungmenna ungmennavettvang efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (e. The Economic and Social Council (ECOSOC) Youth Forum) í New York. Á viðburðinum áttu sér stað samræður meðal fulltrúa aðildarríkja um mismunandi aðstæður ungs fólks og tillögur að lausnum við þeim áskorunum sem hafa áhrif á velferð þeirra, þar sem innleiðing 2030 stefnuyfirlýsingarinnar um heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun og útrýming fátæktar á tímum margvíslegra áskoranna voru höfð að leiðarljósi. Í því skyni voru leiðir til þess að flýta fyrir innleiðingu 2030 stefnuyfirlýsingarinnar rædd, og sérstök áhersla lögð á þau heimsmarkmið sem verða tekin fyrir á ráðherrafundi SÞ (e. HLPF) í ár, þ.e. heimsmarkmið 1, 2, 13, 16 og 17, sem og komandi Framtíðarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (e. Summit of the Future).
Það sem stendur upp úr hjá Emmu er þátttaka hennar á hliðarviðburðinum Towards peaceful and inclusive societies: human rights education for, with and by youth sem var skipulagður af OHCHR, Amnesty International og Soka Gakkai International. Á viðburðinum var kynnt samstarfsverkefnið Changemakers: Stories of Young Human Rights Educators, sem veitti innsýn í sögur sjö einstaklinga sem hafa verið virk á sviði mannréttinda og reynslu þeirra af slíkum störfum. Tveir aðilar af þessum sjö voru með ávarp fyrir þátttakendur og það var einstaklega lærdómsríkt og dýrmætt að fá að heyra nánar um reynslu þeirra og verkefnin sem þau hafa sett á laggirnar í þágu mannréttindafræðslu. Emma hefur mestmegnis starfað innan menntakerfisins og efling lýðræðislegrar borgaravitundar ungs fólks er henni því afar kær. Segir Emma að það hafi verið sannur heiður að fá að vera með inngrip á viðburðinum til þess að ræða valdeflingu ungs fólks, lýðræðislega borgaravitund þeirra og aðferðir til þess að innleiða mannréttindafræðslu í frekari mæli í menntakerfið á Íslandi.
Emma segir að aðkoma ungs fólks að viðburðum sem þessum er í raun algjörlega nauðsynleg. “Það er fráleitt að ætla sér að tala um framtíðina og þær áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir án þess að ræða við þær kynslóðir sem munu taka við keflinu. Ungt fólk verður að fá tækifæri til þess að sækja viðburði sem þessa til þess að komast í kynni við alþjóðlegar stofnanir og skuldbindingar, fá upplýsingar um áætlanir stjórnvalda og koma sínum röddum á framfæri. Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir eru margslungnar og ómögulegt verður að takast á við þær án aðkomu þeirra sem munu bera þungann af þeim ákvörðunum sem eru teknar í dag”.