Í umsögn Landssambands ungmennafélaga (LUF) um frumvarp Alþingis til fjárlaga er gerð grein fyrir markmiðaleysi í málefnum ungs fólks og gagnrýnt þarfir barna og ungs fólks séu settar undir sama hatt. LUF kallar eftir því að mótaður verði skýr lagarammi sem endurspegli þarfir ungs fólks annars vegar og barna hins vegar.

Afleiðingarnar þessa markmiðaleysis hafa þegar sýnt sig en útbreiðsla COVID-19 hefur haft gríðarleg áhrif á þátttöku og réttindi ungs fólks. Um helmingur atvinnulausra er ungt fólk og vaxandi áhyggjur eru af auknu brottfalli úr framhaldsskólum. Á sama tíma og þessi þróun á sér stað styðja stjórnvöld takmarkað við hagsmuna- og réttindabaráttu ungs fólks í starfi ungmennafélaga, en æskulýðslög ríkisins gera ekki ráð fyrir slíku starfi. 

LUF kallar eftir því að þörfum ungs fólks sé mætt á öllum sviðum. Í stefnu LUF, undir kaflanum sjálfstæði ungs fólks, kemur fram: „Ef þörfum ungs fólks er ekki mætt er hætta á að trú ungs fólks á lýðræði bresti. LUF kallar á aðgerðir í heilbrigðis-, atvinnu-, mennta- og húsnæðismálum þar sem tekið er sérstakt tillit til ungs fólks og telur að brýn þörf sé á heildstæðri stefnu hins opinbera í málaflokknum.“

LUF hefur skilað til Alþingis umsögn um fjárlög 2021 og fjármálaætlun 2021-2025. Í umsögn sinni gerir LUF eftirfarandi athugasemd við markmiðaleysið og leggur fram tillögu að úrbótum:

Engin markmið í „æskulýðsmálum“ 

Sé litið til þeirra markmiða og verkefna sem fram koma undir hverjum og einum lið innan málefnasviðs 18 er þar ýmislegt áhugavert að finna. Til að mynda hækka bæði framlög til liðar 18.1 Safnamál og 18.2 Menningarstofnanir um alls 26,8% frá efnahagsreikningi ársins 2019 og byggist sú hækkun á sömu markmiðum innan beggja þessara liða, þ.e. 1) að bæta aðgengi að miðlun á menningu og listum og 2) að vernda menningararf þjóðarinnar. Þó svo að markmiðin séu vissulega góð og þeim beri að fagna má greina nokkurt metnaðarleysi í áætlanagerð með þessu fyrirkomulagi, á sama tíma og helstu markmið innan liðar 18.4 Íþrótta- og æskulýðsmál snúast nánast alfarið um umgjörð íþróttastarfs og stuðning við afreksíþróttafólk. Þar er látið gott heita að minnast á stefnumótun æskulýðsráðs í æskulýðsmálum, sem hefur einnig verið á áætlun undanfarin ár og ætti með réttu að vera lokið nú þegar. Þessum markmiðum á jafnframt að ná þrátt fyrir að framlög til málaflokksins dragist töluvert saman. Á sama tíma er rekstur félaga og samtaka innan ungmennageirans sífellt þyngri sem kemur með afgerandi hætti niður á starfsemi í þágu barna og ungs fólks. Er það engin furða þegar málefni 18.4 Íþrótta- og æskulýðsmál er einungis ætlað um tæp 7% af fjármagni sem rennur til málefnasviðs 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.

Tillaga LUF til úrbóta

Jafna fjárúthlutanir innan málefnasviðs 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál og auka áherslu á málefni 18.4 Íþrótta- og æskulýðsmál í takt við ítrekuð áköll þeirra aðila sem starfa innan málaflokksins og lagalegar skuldbindingar stjórnvalda.

Þarfir barna og ungs fólks undir sama hatti

Landssamband ungmennafélaga (LUF) hefur lengi gagnrýnt skilgreiningu ríkisins á ungmennastarfi og kallað eftir endurskoðun á æskulýðslögum nr. 70/2007. Árið 2012 gaf LUF út „Samantekt á fjárútlátum ríkisins til æskulýðsmála og staðan í málaflokknum“. Þar gagnrýnir LUF lögin fyrir að setja börn og ungmenni á aldrinum 6-25 ára undir sama hatt. Þá telur LUF að „aðskilja verði umræðu með börnum annars vegar og ungmennum hins vegar – til þess að lög, reglugerðir og fjármögnun í málaflokki ungmennastarfs endurspegli betur raunveruleika barna og ungmenna út frá þörfum hvers hóps fyrir sig.“ 

Nú, 8 árum síðar er það enn markmið í framkvæmdaáætlun stjórnar LUF að fylgja eftir endurskoðun á Æskulýðslögum. Þar kemur fram að Æskulýðslög samræmast LUF og aðildarfélögum þess illa. Lögin hafa gert LUF erfitt fyrir að starfa í málaflokknum. Þar segir jafnframt að LUF telji „mikilvægt að gerður sé greinarmunur á þörfum 6 og 25 ára ungmenna. Einnig að það virðist sem svo að lögin geri ekki ráð fyrir hagsmunastarfi og því mikilvæga ungmennastarfi sem felst í að vernda og efla eigin réttindi og stuðla að aðkomu að ákvarðanatöku.“ LUF hefur einnig kallað eftir því að í Æskulýðsráði verði ungmenni í meirihluta, í ljósi þess að hlutverk ráðsins sé að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum og gera tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum.

Í ljósi þeirrar gagnrýni sem íslenska ríkið hefur fengið á sig fyrir ófullnægjandi lögbundna skilgreiningu á ungmennastarfi leggur LUF til að gengið verði út frá almennum alþjóðlegum skilningi eða skilgreiningu Evrópska ungmennavettvangsins (European Youth Forum  – YFJ). Ungmennastarf er skv. YFJ: Aðgerðir, starfsemi, ferlar og verkefni unnin af, með eða fyrir ungt fólk á aldrinum 16-35 ára með að það markmiði að búa til pláss fyrir ungt fólk, fyrir persónulega þróun þeirra og þarfir. Ungmennastarf miðar að því að bæta félagslega, pólitíska, efnahagslega og vistfræðilega stöðu ungs fólks, efla þátttöku, auka aðkomu að ákvarðanatöku eða byggja upp getu þeirra til slíkra aðgerða. Ungmennastarf sameinar þ.a.l. fræðslu og þátttöku. Ungmennastarf er liður í uppbyggingu borgarasamfélagsins; því ætti að líta á ungmennastarf sem almannaheill (e. public good) og á að vera meðhöndlað sem slíkt af yfirvöldum í viðkomandi landi. Mikilvægi ungmennafélaga og sú samfélagslega verðmætasköpun sem ungmennastarf leiðir af sér er ótvírætt. 

Frá upphafi hefur eitt helsta baráttumál LUF snúist um að skýr lagarammi verði mótaður um ungmennastarf sem leiðir til aukinnar verðmætasköpunar. Stjórn LUF hefur margítrekað nauðsyn þess að endurskoða lögin, í samstarfi sínu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, í skýrslu um lýðræðisátakið #ÉgKýs, skýrslu um valdeflingu ungra innflytjenda og innan Æskulýðsráðs.

Tillaga LUF til úrbóta

Fyrst og fremst að samræma ungmennastarf á Íslandi við alþjóðlegar skilgreiningar. Bæta við markmiði í lið 18.4 Íþrótta- og æskulýðsmál um endurskoðun æskulýðslaga nr. 70/2007, samhliða stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytisins á grundvelli laganna, og tryggja því markmiði fjármagn.

Sækja umsögn á PDF formi