Esther Hallsdóttir var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda á 2. fulltrúaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga (LUF) 2019-2020, sem fram fór á Háskólatorgi Háskóla Íslands miðvikudaginn 14. ágúst sl.

Alls voru 10 fulltrúar aðildarfélaga LUF í framboði á fundinum. Kosið var í tveimur umferðum og fengu þær Esther Hallsdóttir fulltrúi Ungra Evrópusinna og Tinna Hallgrímsdóttir fulltrúi Ungra umhverfissinna flest atkvæði í fyrstu umferð. Esther sigraði með einu atkvæði í seinni umferð og mun Tinna gegna hlutverki varafulltrúa. 

Esther er verkefnastjóri UNICEF á Íslandi og menntaður mannfræðingur. Þá hefur hún starfað sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Íslands og auk þess að hafa verið í hagsmunabaráttu stúdenta hjá Stúdentaráði Háskóla Íslands.

Í framboðsræðu sinni talað Esther fyrir mikilvægi þess að vinna eftir þeirri stefnu sem ungmenni hafa sameiginlega mótað á vettvangi LUF einkum þegar kemur að því að tryggja þátttökurétt.

„Við erum loksins að fá tækifæri til að koma hagsmunamálum íslenskra ungmenna á framfæri á þessum vettvangi. Að hafa í fyrsta sinn fulltrúa á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna er mikill sigur fyrir ungmenni á Íslandi. Ég er þakklát fyrir traustið sem mér er sýnt og hlakka til að vinna með LUF að því að setja þátttöku ungmenna og önnur brýn mál í forgrunn.”

Esther kemur til með að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í september og taka þátt í störfum þess í umboði íslenskra ungmenna. Þátttaka ungs fólks í ákvarðanatöku og stefnumótun er ein af megináherslum Sameinuðu þjóðanna og þess vegna hafa aðildarríki um árabil verið hvött til að skipa ungmennafulltrúa sem veita sérfræðiþekkingu, innsýn og nauðsynlega ráðgjöf þegar kemur að sjálfbærri þróun. Er þetta í fyrsta sinn sem Ísland skipar slíkan fulltrúa.

Skipun ungmennafulltrúans og þátttaka hans á aðalþinginu er samstarf Landssambands ungmennafélaga, félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Utanríkisráðuneytisins, sem kostar verkefnið.

Breytingar á stjórn félagsins

Samþykkt var tillaga stjórnar um að Laufey María Jóhannsdóttir, fulltrúi UAK, tæki sæti ritara í stjórn vegna afsagnar Inger Erlu Thomsen, fulltrúa UJ sem var kjörin ritari stjórnará sambandsþingi félagsins í febrúar sl. Færist Laufey því úr embætti varamanns í embætti ritara samkvæmt ákvörðun fundarins.

Þá var Steinunn Ása Sigurðardóttir, fulltrúi AFS, kjörin meðstjórnandi og tekur hún stjórnarsæti í stað Enars Korneliusar Leferink fulltrúa UU sem sagði sig frá embætti meðstjórnanda á fundinum.

Vegna breytinga á stjórnarskipan voru tvö sæti varamanna í stjórn LUF 2019-2020 laus. Hlutu þá þau Ásta Guðrún Helgadóttir, fulltrúi UP, og Hreiðar Már Árnason, fulltrúi Samfés, einróma kjör. Geir Finnsson, formaður fulltrúaráðs, vakti athygli á þeim heiðri fyrir LUF að fá þessar fyrirmyndir til liðs við félagið: „þar sem þau búa yfir verðmætri reynslu og geta því verið stjórninni til halds og trausts með ráðgjöf og stuðningi.“

Alþjóðanefnd LUF og stjórn Leiðtogaskóla Íslands skipuð

Á dagskrá fundarins var einnig kjör Alþjóðanefndar LUF 2019-2020, en hún er skipuð fjórum fulltrúum úr fulltrúaráði LUF ásamt alþjóðafulltrúa stjórnar LUF sem fer fyrir nefndinni. Anna Pálsdóttir, fullrúi JCI, Ingi Hrafn Pálsson, fulltrúi URKÍ, Iris Dager, fulltrúi UNF og Pétur Halldórsson, fulltrúi UU voru kjörin í nefndina. 

Þá var einnig Sheni Nicole Buot Navarro, fulltrúi AIESEC, kjörin fulltrúi fulltrúaráðs LUF í stjórn Leiðtogaskóla Íslands (LSÍ). Stjórn LSÍ er þá fullskipuð og tekur þegar til starfa við skipulag og undirbúning námskeiða Leiðtogaskólans Íslands 2019.