Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis sótti nýverið fund á vegum efnahags- og félagsmálaskrifstofu SÞ (UN DESA) sem hluta af 75. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Fundurinn samanstóð af óformlegu samtali á milli þriðju nefndar SÞ og ungmennafulltrúa hjá SÞ. Markmið fundarins var að greina frá mikilvægi vinnu og framlags ungmennafulltrúa innan SÞ, og innan vinnu þriðju nefndarinnar sérstaklega.

Eva Dröfn greinir frá þátttöku sinni:

Forseti nefndarinnar, Katalin Annamária Bogyay ávarpaði fundinn, og skýrði frá hlutverki Þriðju nefndarinnar ásamt niðurstöðum vinnu þeirra, gagnvirkra viðræðna og þátttöku. Bogyay talaði um þau fjölbreyttu mál sem falla undir starfsemi þriðju nefndarinnar, þ.e. félagsleg, mannúðar og mannréttindamál sem snerta fólk um heim allan. Síðar kynntu ungmennafulltrúar hjá SÞ frá Hollandi og Sameinuðu arabísku furstadæmanna reynslu sína af hlutverkinu og þann lærdóm sem þau höfðu öðlast. Loks tóku við opnar samræður milli allra ungmennafulltrúa sem sóttu fundinn. 

Eftir fundinn voru þrjú atriði sem sitja eftir:

Öll málefni koma ungu fólki við

Í fyrsta lagi, þá koma öll málefni þriðju nefndar ungu fólki við. Nefndin kljáist við málefni sem snerta á kveneflingu, verndun barna, frumbyggja, meðferð flóttafólks, eflingu á grundvallarfrelsi og mannréttindum með útrýmingu á kynþáttafordómum og mismunun, og sjálfsákvörðunarréttinum.

Nefndin einblínir líka á málefni ungs fólks en nauðsynlegt er að líta til þess að allir fyrrnefndir málaflokkar hafa bein áhrif á réttindi og lífsskilyrði ungs fólk. Því er í raun ekki hægt að aðskilja málefni ungs fólks frá hinum málaflokkunum.

Unga kynslóðin í dag er sú fjölmennasta í sögunni.  Ungt fólk, undir 26 ára aldri, er meira en helmingur jarðarbúa og þar af búa 80 prósent í þróunarlöndum.  Því er það eðlileg krafa að ungt fólk hafi sæti við borðið, þar sem málefni þeirra eru margþætt og fjölbreytileg, líkt og málefni nefndarinnar.

Beint inntak frá ungu fólki landa

Annað atriðið sem stóð upp úr er nauðsyn þess að fá beint inntak frá ungu fólki  aðildarríkja SÞ, til að upplýsa og leiðbeina starfsemi ungmennafulltrúanna. Sem ungmennafulltrúi er mikilvægt að vera tengdur upplifunum, þörfum og skoðunum þeirra sem veita okkur umboð. Þá hafa sumir ungmennafulltrúar ferðast um allt heimaland sitt, til að kynna starfsemi SÞ og hvernig hún snertir ungt fólk, ekki síst til að safna saman áherslum sem brenna á ungu fólki landsins. Þaðan er hægt að ígrunda stöðu ungmennafulltrúa í samræmi við mikilvægi þess að sjónarhorn ungs fólks frá ólíkum löndum sé komið á framfæri innan SÞ. 

Áskoranir á tímum COVID-19

Þriðja atriðið, og eflaust með því mikilvægasta í dag, voru þær miklu áskoranir sem lágu fyrir við að ná til ungs fólks á tímum COVID-19. Stafræna formið dregur ekki að sér jafn mikla athygli né þátttöku ungs fólks. Á sama tíma og við venjumst því að helstu daglegu samskiptin eiga sér stað yfir skjá, skýrast enn frekar hinar ýmsu myndir ójöfnuðar, á samfélags- og alþjóðasviði. Hvernig er hægt að ná til ungmenna sem hafa ekki aðgang að Interneti? Sem hafa ekki afnot af snjallsíma? Sem hafa ekki aðgang að tölvu nema í skólum sem nú eru lokaðir.

Að þessu sögðu vil ég benda á að þegar tekist er á við afleiðingar COVID-19 er brýnt að ungt fólk komi að borðinu, með fulltrúum með lögmætt umboð, fjölbreytt sjónarhorn, bakgrunni og úr ólíkum samfélagsstéttum til að miða sinni reynslu og þekkingu. Það sama á við um þátttöku og framlag ungs fólks, sérstaklega á krísutímum.

Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir

Eva Dröfn, ungmennafulltrúi LUF hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis.