Eva Dröfn, ungmennafulltrúi LUF hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis.

Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir, fulltrúi UAK, var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) á sviði kynjajafnréttis á 3. leiðtogaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga (LUF), sem fram fór í gær 4. nóvember. Fundurinn fór fram rafrænt  og var fyrsti fjarfundur leiðtogaráðs frá upphafi. 

Alls voru fimm full­trú­ar aðild­ar­fé­laga LUF í fram­boði á fund­in­um og kosið var í tveimur umferðum. Andrea Gunnarsdóttir, fulltrúi Hugrúnar, hlaut næst flest atkvæði og er því varafulltrúi.

Skipun ungmennafulltrúans á sviði kynjajafnréttis og þátttaka hans er samstarfsverkefni LUF, Félags SÞ á Íslandi og forsætisráðuneytisins.

Kynjajafnrétti þvert á menningu og þjóðerni

Í framboðsræðu sinni varpaði Eva Dröfn ljósi á mikilvægi þess að unnið sé að kynjajafnrétti með því að taka mið af ólíkum sjónarhornum kvenna, þvert á ríki og þjóðerni:

Kvennasamstaða og kvenefling þvert á þjóðerni og menningu eru þau helstu málefni sem ég brenn fyrir, en ég hef fengið að finna styrkinn sem í þeim felst sjálf. Sem ung kona, bæði á Íslandi og erlendis, hef ég þurft að takast á við ýmsar áskoranir sem ég hef tekið sem skemmtilegum verkefnum, unnið úr og gefið áfram reynslu mína og styrk í dag. Það er einmitt minn metnaður og þekking á sviði kynjajafnréttis sem hefur gefið mér vilja til að láta rödd mína heyrast, til að styðja áfram við aðrar konur þvert á ríki og þjóðerni.“ 

Eva Dröfn býr yfir mikilli reynslu af leiðtogastörfum bæði á Íslandi og erlendis. Hún lauk þverfaglegu grunnnámi í Politics, Psychology, Law and Economics við University of Amsterdam en samhliða náminu tók hún aukafag í kynjafræði. Nú stundar hún meistaranám í alþjóðalögfræði með áherslu á mannréttindi og alþjóðastofnanir. 

„Ég trúi því að jafnrétti kynjanna sé undirstaða alþjóðasamfélags sem stefnir að sjálfbærri þróun. Samkvæmt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna kemur hverslags mismunun og ofbeldi gegn konum í veg fyrir viðhald friðar, þróunar og samvinnu á alþjóðasviði. Ég trúi því einnig að það þurfi að aðlaga alþjóðlegar stefnur að þörfum, upplifunum og framtíð ungs fólks. Það væri mér mikill heiður að vera fulltrúi ungra Íslendinga á þessu sviði,“ sagði Eva Dröfn

Kynslóð jafnréttis

Skipun ungmennafulltrúa hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis er liður í forystuhlutverki Íslands í aðgerðarbandalagi um kynbundið ofbeldi í verkefni UN Women, Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum).  Áhersla er lögð á þátttöku ungmenna og samtal á milli kynslóða um framtíðaráherslur í jafnréttismálum. Kjörinn ungmennafulltrúi kemur til með að sækja viðburði tengda Kynslóð jafnréttis. Auk þess að skipa sæti áheyrnarfulltrúa í stýrihóp forsætis- og utanríkisráðuneytisins um verkefnið.

Sendinefnd LUF 

Kjör ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis skipar sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ. Hún starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við. Sendinefndin skipar nú fimm fulltrúa; á sviði mannréttinda, loftslagsmála, sjálfbærar þróunar, barna og ungmenna og kynjajafnréttis.

Stjórn LUF óskar Evu Dröfn til hamingju með kjörið og hlakkar til að vinna með henni á næstu misserum.