2. leiðtogaráðsfundur LUF, starfsárið 2023-2024 fór fram 24. nóvember á Center Hotels Plaza. Var yfirskrift fundarins Farsældarþing ungs fólks, en samhliða leiðtogaráðsfundi frumsýndi LUF Farsældarhraðalinn, sem er leið LUF til að stíga skref í átt að mótun heildstæðrar stefnu á málefnum ungs fólks á Íslandi.

Á fundinum var staða félagsins reifuð með kynningu á stöðumati framkvæmdaáætlunar auk fjárhagsstöðu félagsins. Þá var einnig umsögn LUF um frumvarp til fjárlaga kynnt fyrir aðildarfélögum. Einnig ákvað fundurinn, að frumkvæði Ungheilla – ungmennaráðs Barnaheilla, að vísa því til stjórnar að samin skuli sameiginleg ályktun aðildarfélaga og LUF sem kallar eftir því að stjórnvöld tryggi fullt aðgengi alls ungs fólks að þátttöku í félagsstarfi, skal ályktunin vera borin upp á Sambandsþingi LUF til samþykktar.

Kjör tveggja nýrra ungmennafulltrúa fór fram á fundinum. Var Sara Júlía Baldvinsdóttir, fulltrúi SÍNE kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar og Emma Ósk Ragnarsdóttir, fulltrúi Uppreisnar, kjörin á sviði barna og ungmenna. Eru þær kjörnar til tveggja ára í samræmi við innleiðingu nýs „junior/senior” kerfis sendinefndar LUF.

Þakkar stjórn LUF öllum þeim sem tóku þátt og lögðu leið sína á fundinn kærlega fyrir.