Finnur Ricart Andrason, fulltrúi Ungra umhverfissinna (UU) var í gær kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála. Kjörið fór fram á fulltrúaráðsfundi LUF í Hinu húsinu.

Finnur Ricart kemur til með að sækja Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow (COP26). Ráðstefnan fer fram dagana 31. október – 12. nóvember nk. og mun Finnur taka þátt í störfum hennar í umboði íslenskra ungmenna. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast hér.

Finnur stundar nám í hnattrænum sjálfbærnivísindum við Háskólann í Utrecht. Þá gegnir hann stöðu loftslagsfulltrúa í stjórn Ungra umhverfissinna og formennsku í loftslagsnefnd félagsins. Einnig situr Finnur í Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Finnur Ricart flutti framboðsræðu sína frá ungmennaloftslagsráðstefnu SÞ í Mílanó.

„Loftslagsbreytingar eru ekki síst jafnréttismál”

Í framboðsræðu sinni fjallaði Finnur Ricart um óréttlætið sem kristallast í loftslagsmálum og mikilvægi þess að nálgast málaflokkinn út frá jafnréttissjónarmiðum:

Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, náttúruverndarfulltrúi UU, tók við viðurkenningu frá LUF í fjarveru Finns.

„Loftslagsbreytingar eru ekki síst jafnréttismál en fær allt of litla umræðu sem slíkt. Loftslagsbreytingar snerta alla hluta samfélagsins og munu bitna mest á minnihlutahópum og löndum sem hafa gert minnst til að skapa þetta ástand. Þetta eru þær grunn staðreindir sem ég byggi mína hagsmunagæslu í þágu loftslagsins á. Ég hef bjartsýni og valdeflingu að leiðarljósi þar sem ég trúi því að þetta tvennt sé það sem muni leiða okkur að þeim breytingum sem við þurfum að ná fram.”

Finnur er um þessar mundir staddur á ungmennaloftslagsráðstefnu SÞ (Youth4Climate) í Mílanó sem fulltrúi íslenskra ungmenna og gat því ekki verið viðstaddur þegar kjörið fór fram.

Er þetta í annað sinn sem Ísland skipar ungmennafulltrúa á sviði loftslagsmála, en Aðalbjörg Egilsdóttir er fráfarandi ungmennafulltrúi og sótti hún m.a. 25. loftslagsráðstefnu SÞ (COP25)  fyrir hönd íslenskra ungmenna. Verkefnið er unnið í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og utanríkisráðuneytið.

Stjórn LUF óskar Finni Ricart hjartanlega til hamingju með kjörið.