Annar fundur Leiðtogaráðs LUF fór fram í Ingjaldsstofu á Háskólatorgi Háskóla Íslands, fimmtudaginn 29. september sl.

Fundurinn var tíðindamikill en þar var annars vegar kosið í stöðu ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði loftslagsmála og hins vegar í stöðu meðstjórnanda í stjórn LUF. Fundurinn hófst þó á kynningum nýrra aðildarfélaga, sem bæst höfðu í hóp aðildarfélaga frá seinasta fundi Leiðtogaráðs. Þá gerði Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri LUF grein fyrir stöðu helstu verkefna framkvæmdaáætlunar stjórnar LUF og Jessý Jónsdóttir, alþjóðafulltrúi LUF, kynnti alþjóðastarf LUF og nýstofnað Alþjóðaráð LUF.

Valgerður Eyja Eyþórsdóttir, fulltrúi UngSAFT, ásamt Geir Finnssyni, forseta LUF, og Viktori Inga Lorange, varaforseta LUF.

Hugo Hoffmeister, fulltrúi Sk8roots, ásamt Geir Finnssyni, forseta LUF, og Viktori Inga Lorange, varaforseta LUF.

UngSAFT og Sk8roots boðin velkomin

Stjórn LUF hafði samþykkt umsóknir UngSAFT og Sk8roots um áheyrnaraðild að LUF á fundi sínum þann 27. september sl. Fulltrúum

 félaganna var því boðið að kynna félögin á fundi Leiðtogaráðs og taka við aðildarviðurkenningum.

Félögunum var afar vel tekið og ríkti mikil ánægja með góða viðbót í fjölbreytta flóru 40 aðildarfélaga.

Finnur endurkjörinn ungmennafulltrúi hjá SÞ á sviði loftslagsmála

Kjör ungmennafulltrúa hjá SÞ á sviði loftslagsmála fór einnig fram á fundinum. Var þar kjörinn fulltrúi til að sækja loftslagsráðstefnu SÞ í umboði ungs fólks á Íslandi. Verkefnið er samstarfsverkefni LUF, félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytið.

Egill Ö. Hermannsson, fulltrúi UU, tók við viðurkenningu í fjarveru Finns Ricarts sem var endurkjörinn ungmennafulltrúi hjá SÞ á sviði loftslagsmála.

Finnur Ricart  Andrason, fulltrúi Ungra umhverfissinna (UU), bauð fram krafta sína áfram í stöðu ungmennafulltrúa hjá SÞ á sviði loftslagsmála, en hann hlaut fyrst kjör á Leiðtorgaráðsfundi LUF 29. september 2021 og sótti 26. loftslagsráðstefnu SÞ í Glasgow (COP26).

Finnur var endurkjörinn og kemur til með að sækja 27. loftslagsráðstefnu SÞ (COP27) sem mun fara fram dagana 6. – 18. nóvember nk. í Sharm El-Sheikh, Egyptalandi. 

Í framboði sínu lagði Finnur áherslu á metnaðarfulla hagsmunabaráttu fyrir loftslagið:  „Á þessu ári sem ég hef gengt þessu hlutverki hef ég varið miklum tíma í hagsmunagæslu og barist mikið fyrir auknum metnaði stjórnvalda í loftslagsmálum og aukinni þátttöku ungs fólks í ákvarðanatöku á þessu sviði. Þetta gerði ég til dæmis með því að eiga samráð við annað ungt fólk í aðdraganda COP26 til að geta betur komið þeirra sjónarmiðum á framfæri. Einnig skrifaði ég skoðanagreinar, kom fram í viðtölum, veitti sendinefndum Íslands aðhald á COP26 og SB56, safnaði og miðlaði upplýsingum um gang mála á ráðstefnum, skrifaði sérstaka skýrslu um hvernig bæta mætti fyrirkomulagið á þátttöku ungs fólks, o.fl.“

Stjórn LUF óskar Finni hjartanlega til hamingju með kjörið og fagnar því að ungt fólk á Íslandi fái áfram notið reynslu hans og þekkingu á málefnum loftslagsins.

 

Nýr meðstjórnandi LUF kjörinn

Stjórn LUF hafði einnig auglýst eftir framboðum meðstjórnanda í stjórn LUF fyrir fundinn.

Egill Ö. Hermannsson, fulltrúi UU, var kjörinn meðstjórnandi LUF.

Egill Örnuson Hermannsson, fulltrúi Ungra umhverfissinna (UU), bauð fram krafta sína og hlaut kjör meðstjórnanda LUF. Egill hefur tekið virkan þátt í stjórn og starfsemi Ungra umhverfissinna um nokkurra ára skeið og býr því yfir reynslu og þekkingu sem mun nýtast vel í starfi LUF.