Geir Finnsson, varaforseti LUF, og Tanja Teresa Leifsdóttir, réttindafulltrúi LUF, tóku þátt í stafrænni ungmennaráðstefnu Evrópusambandsins (ESB) sem fór fram á  dögunum, 2.-5. október sl. Ráðstefnan var vettvangur fyrir unga leiðtoga Evrópu til að leita leiða til að efla lýðræðis- og samfélagsþátttöku ungs fólks á svæðinu, en ráðstefnan bar yfirskriftina ,,Europe for YOUth – YOUth for Europe: Space for Democracy and Participation.“ 

Ráðstefnan var haldin í tilefni af formennsku Þýskalands í ESB og sem framlag til ungs fólks innan sambandsins. Þátttakendur komu úr röðum landssambanda ungmennafélaga (e. National Youth Council´s) í Evrópu og voru fulltrúar LUF tilnefndir af mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að sækja ráðstefnuna fyrir hönd Íslands.

Ungt fólk og lýðræði

Ráðstefnan er hluti af ferli (e. EU Youth Dialouge Process.) sem snýr að auknu samráði ráðamanna og ungs fólks innan ESB og aðildarríkja þeirra. Ferlið tryggir reglubundið samráð við ungt fólk og stuðlar að jöfnum tækifærum til þátttöku í hvers konar ákvörðunartöku og stefnumótun stjórnvalda. 

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hélt opnunarræðu fyrir 150 unga leiðtoga ráðstefnunnar þar sem hún talaði um þátttöku ungs fólks sem mikilvæga stoð fyrir öflugt og heilbrigt lýðræði. Hún hvatti ungt fólk til þátttöku í stefnumótunarferli ESB um ungt fólk sem og öðrum ungmennaráðstefnum og viðburðum sem styrkt eru af styrktaráætlun sambandsins: Erasmus +. Vakin er athygli á því að ungt fólk getur skipulagt sjálfstæða viðburði sem falla undir átakið með því að sækja um styrk í gegnum landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi.  

Silja Markkula, forsetaefni Norðurlanda- og Eystrasaltsríkjabandalagsins innan Evrópska ungmennavettvangsins (European Youth Forum – YFJ) ásamt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Í kjölfarið tóku til máls, Ursula von der LeyenUrsula von der Leyen, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins og Franziska Giffey, fjölskyldu- og ungmennráðherra Þýskalands.

Á ráðstefnunni fóru fram fjölmargar vinnustofur þar sem þátttakendur leituðu lausna til að efla lýðræðisþátttöku ungs fólks. Þátttakendur kröfðust m.a. að stjórnvöld aðildarríkjanna hefðu reglubundið og raunverulegt samráð við ungt fólk í allri ákvörðunartöku og að kosningaraldur yrði lækkaður í 16 ár, eins og sjá má á Twitter síðu ráðstefnunnar:

Lækkun kosningaaldurs í 16 ár, sem leið til þess að efla lýðræðisþátttöku ungs fólks hefur lengi verið stefna LUF, þar segir m.a.:  “LUF tekur afstöðu með lækkun kosningaaldurs í 16 ára í kosningum til forseta, Alþingis og sveitarstjórna. Við 16 ára aldur eru einstaklingar sakhæfir og þeir bera refsiábyrgð, skólaskyldu lýkur, við tekur val um framhaldsnám og fyrstu skref á vinnumarkaði eru tekin – með tilheyrandi tekjuskatti og stórauknu framlagi til samfélagsins.“