Rut Einarsdóttur, ritari stjórnar Landssambands ungmennafélaga (LUF), tók nýlega þátt í pallborðsumræðum um framtíð sjálfbærra borga á Evrópuráðstefnunni Mannheim 2020. Í innleggi sínu lagði hún áherslu á mikilvægi þáttöku ungs fólks í ákvörðunartöku og kallaði eftir aukinni áherslu á vellíðan og andlega heilsu. Rut tók þátt fyrir hönd LUF og fyrrverandi ungmennafulltrúa Sveitarstjórnarþings Evrópuráðs. 

Rut var ungmennafulltrúi Sveitarstjórnarþings Evrópuráðs árið 2016-2017. Á tíma sínum þar talaði hún m.a. fyrir auknu gagnsæi, réttindum kvenna og aukinni þátttöku ungmenna í ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstigi. Síðan þá hefur hún m.a. setið í ráðgjafaráði Evrópuráðs um málefni ungs fólks (e. Advisory Council on Youth to the Council of Europe) fyrir hönd LUF og sinnt öðrum verkefnum fyrir Evrópuráð er varða málefni ungs fólks.

Ráðstefnan sem haldin var í 9. skiptið fór fram yfir þrjá daga, í fyrsta skipti á netinu sökum aðstæðna. Í röðum þátttakenda voru fulltrúar frá Evrópskum yfirvöldum, borgaryfirvöldum frá allri Evrópu, atvinnulífinu og frjálsum félagasamtökum. Umræður voru því mjög víðtækar en lögð voru fram skýr skref fram á við, þar sem borgarstjórar Evrópu lofuðu að standa við þær skuldbindingar sem settar voru fram á ráðstefnunni. 

Á ráðstefnunni voru spiluð myndbönd frá ungu fólki um alla Evrópu, sem öll töluðu fyrir fleiri grænum svæðum í borgum, bæði til þess að auka loftgæði og til þess að íbúar hefðu svæði til þess að kúpla sig út frá daglegu amstri og sinna andlegri heilsu.

Ungt fólk í ákvarðanatöku

Rut tók þátt í umræðum um framtíð sjálfbærni borga með Thomas Kastrup-Larsen, borgarstjóra Álaborgar í Danmörku, Juan Espadas Cejas borgarstjóra Seville á Spáni, Dr. Peter Kurz, borgarstjóra Mannheim í Þýskalandi, sem einnig stóð fyrir ráðstefnunni, Dr. Hakan Lucius frá fjárfestingabanka Evrópu og Wolfgang Teubner svæðisstjóra ICLEI.

Í innleggi sínu krafðist Rut þátttöku ungs fólks í ákvarðanatöku á öllum sviðum ef raunverulegt markmið sé sjálfbærni. Þar sem aðgengi ungs fólks að stefnumótun og ákvarðanatöku samfélagsins sé nauðsynleg ef lýðræði á að þrífast. Þetta er í takt við stefnu LUF um þáttöku ungs fólks, þar segir m.a.: „LUF viðurkennir að ungmennafélög spila lykilhlutverk í að stuðla að samfélagsþátttöku ungs fólks, lýðræðislegri borgaravitund og sjálfbærri þróun.“ Í stefnu LUF um sjálfbæra þróun er jafnframt lögð rík áhersla á þáttöku ungs fólk: „Mest er í húfi fyrir yngstu kynslóðirnar og því krefst sjálfbær þróun virkrar og raunverulegrar þátttöku ungs fólks. LUF kallar á aðgerðir og innleiðingar í nánu samráði við ungt fólk.“

Rut benti einnig á mikilvægi þess að huga að andlegri heilsu íbúa sem helst oft í hendur við sjálfbærni. Það helst í hendur við stefnu LUF um heilsu og vellíðan; „LUF telur að bregðast þurfi við því að hátt hlutfall ungs fólks stríðir við geðsjúkdóma á við kvíða og depurð. Er það grafalvarlegt að um þriðjungur háskólanema glímir við andleg veikindi, sérstaklega kvíða- og þunglyndi. LUF kallar því eftir fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferðum sem stuðla að geðheilbrigði og vellíðan ungmenna. Einnig þarf að efla forvarnir og meðferðir vegna fíknivanda, m.a. misnotkunar fíkniefna og áfengis. Þá er LUF fylgjandi afglæpavæðingu fíkniefna. Samræma þarf heilbrigðiskerfið þannig að það nái utan um bæði líkamleg og andleg veikindi. Óháð búsetu og efnahag þarf að tryggja aðgengi ungs fólks að heilbrigðisþjónustu og viðeigandi meðferðarúrræðum á þann hátt að kerfið sé fyrirbyggjandi og verndi ungt fólk gegn langvarandi veikindum sem geta fylgt fólki alla ævi. Sömuleiðis þarf að vinna gegn einelti og félagslegri einangrun sem hefur skaðleg áhrif á líðan ungs fólks.“