Miðvikudaginn 27. september fór fram fyrsti fundur Alþjóðaráðs LUF og markaði hann því tímamót í sögu félagsins. Fundurinn fór fram í nýjum húsakynnum LUF, í Mannréttindahúsi ÖBÍ að Sigtúni 42 og var hann settur af Jessý Jónsdóttur, alþjóðafulltrúa LUF og oddvita ráðsins. Fundurinn bar yfirskriftina “Heimsdagskrá ungs fólks” sem vísar í heimsdagskrá Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir fyrir ungt fólk (e. United Nations World Programme of Action for Youth).

Sérstakur gestur fundarins var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, sem gagnrýndi tilhneigingu stofnana og stjórnvalda til að koma fram við ungt fólk sem skraut, hvatti hún ungt fólk til að taka meira pláss í alþjóðlegu samstarfi og óskaði eftir tillögum ráðsins um betrumbætur.

Á fundinum fór Tinna Isebarn yfir umgjörð alþjóðastarfs LUF, þar sem hún undirstrikaði nauðsynlega þátttöku ungs fólks í alþjóðlegri stefnumótun og ákvarðanatöku og mikilvægi þess fyrir hagsmuna- og réttindabaráttu yngri kynslóða á heimsvísu. Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna, fjallaði um stefnur og aðgerðir Sameinuðu þjóðanna er við koma ungu fólki. Rebekka Karlsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði sjálfbærrar þróunnar kynnti vinnu sína við gerð landsrýnisskýrslu Íslands um innleiðingu heimsmarkmiðanna. 

Jessý Jónsdóttir, alþjóðafulltrúi LUF, kynnti alþjóðastarf í Evrópu á vettvöngum Evrópska ungmennavettvangins, Evrópuráðsins og Evrópusambandsins, sem og öll þau tækifæri þeim tengdum sem bjóðast aðildarfélögum LUF. Þá fjallaði Viktor Lorange, verkefnastjóri LUF og formaður Ung norræn um norrænt samstarf þar sem hann m.a. bar saman aðstöðum á milli LUF og systurfélaga félagsins á Norðurlöndunum, kynnti starfsemi Norræna félagsins og kynnti vettvanga Norrænu ráðherranefndarinnar, Norðurlandaráðs og Norðurlandaráðs ungs fólks. Við tók málstofa og umræður um hvernig megi efla alþjóðastarf ungs fólks á Íslandi.

Vakin var sértök athygli alþjóðaráðs á stefnuleysi íslenskra stjórnvalda í málaflokki ungs fólks. Ísland er eitt af fáum ríkjum í heiminum sem ekki hefur sett sér sérstaka landsstefnu í málefnum ungs fólks (e. National Youth Policy) þrátt fyrir ályktun Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1996 sem beitti þau aðildarríki þrýsting sem enn höfðu ekki sett sér slíka stefnu.

Niðurstaða fundarins var sú að unnin yrði stefnuályktun um nauðsyn raunverulegs samráðs og fordæmingu allssýndarsamráðs stjórnvalda við ungt fólk. Verður ályktunin borin undir Leiðtogaráð LUF á fundi þess í nóvember. 

Í alþjóðaráði eiga sæti alþjóðafulltrúar eða ábyrgðarfólk alþjóðastarfs allra 41 aðildarfélaga LUF. Var ráðið stofnað með það að marki að efla alþjóðlega þátttöku og samvinnu á meðal aðildarfélaga LUF sem og að stuðla að betri nýtingu allra þeirra alþjóðlegra tækifæri sem bjóðast ungu fólki á Íslandi.