Síðastliðinn laugardag,  25. febrúar, fór fram sambandsþing Landssambands æskulýðsfélaga (LÆF) þar sem fulltrúar þingsins samþykktu breytingu á nafni félagsins í Landssamband ungmennafélaga (LUF). Þingið fór fram á Háskólatorgi Háskóla Íslands og var það hið fjölmennasta í sögu félagsins. Inga Auðbjörg Straumland, formaður félagsins 2015-2016, var kjörin þingforseti og stýrði þinginu.

Sigurður Helgi Birgisson, fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands og fráfarandi alþjóðafulltrúi var kjörinn formaður félagsins. Tók hann við af Sigurði Sigurðssyni, fulltrúa JCI. Í ræðu sinni lagði Sigurður Helgi áherslu á aukið samstarf ungmennafélaga á Íslandi og styrkingu innra starfs sambandsins. Þá benti hann enn fremur á þau tækifæri til breytinga sem felast í þverpólitískri samstöðu ungmennafélaga og samstarfi þeirra.

Þá var Sara Sigurðardóttir, fulltrúi Sambands íslenskra námsmanna erlendis kjörin varaformaður LUF, Marinó Örn Ólafsson, fulltrúi Ungra jafnaðarmanna gjaldkeri, Una Hildardóttir fulltrúi Ungmennadeild Norræna félagsins ritari og Laufey María Jóhannsdóttir fulltrúi Ungra athafnakvenna alþjóðafulltrúi. Kosnir voru tveir meðstjórnendur, þau Guðbjört Angela Mánadóttir fulltrúi Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Ólafur Hrafn Halldórsson fulltrúi Ungra Pírata.

Tvö félög sóttu um fulla aðild að sambandinu í ár; Samfés og Ungliðahreyfing Viðreisnar. Hlutu þau fulla aðild með einróma lófataki allra þingfulltrúa. Eiga nú samtals 32 félög aðild að LUF. Í ljósi fjölgunar aðildarfélaga og hversu fjölmennt sambandsþingið var er ljóst að tilgangur LUF er mikilvægur og forsenda þess að ungt fólk hafi sameiginlegan málsvara. Þessi mikla aðsókn á þingið er vísbending um að rödd ungs fólks komi til með að styrkjast. Því tekur LUF fagnandi og skuldbindur sig til þess að mæta aukinni eftirspurn eftir samráði ungs fólks við að taka þátt í að móta samfélagið.

Á fjórða fulltrúaráðsfundi LÆF, þann 24. nóvember samþykkti ráðið tillögu stjórnar um að skipað yrði í þrjár nefndir fyrir sambandsþingið. Ákveðið var að hvert félag hefði heimild til að skipa einn fulltrúa í hverja nefnd til að tryggja fjölbreytni.

Skipað var í stefnumótunarnefnd sem endurskoðaði stefnu LÆF sem samþykkt var á sambandsþingi 2016. Jóhanna Gísladóttir (UP) sem gegndi formennsku nefndarinnar og með henni sátu Árni Birgir Guðmundsson (AIESEC), Páll Marís Pálsson (SUF) og Aðalbjörn Jóhansson (UVG). Jóhanna kynnti störf nefndar fyrir þingfulltrúum og var stefnan samþykkt með einróma lófataki. Stefnan skiptist í þrjár megináherslur: Samfélagsþátttöku ungs fólks, valdeflingu ungs fólks og sjálfstæð ungmennafélög.

Skipað var í siðanefnd sem fór yfir siðareglurnar sem samþykktar höfðu verið af fulltrúaráði og giltu einungis fyrir stjórn og starfsfólk LUF. Þar sem fulltrúaráð ályktaði að ráðlagt væri að aðlaga siðareglurnar þannig að þær taki til allra aðildarfélaga og lagðar fyrir sambandsþing til samþykktar. Aron Leví Beck (UJ) formaður siðanefndar kynnti störf nefndar og reglurnar fyrir nefndinni. En í henni sátu jafnframt Ármann Örn Friðriksson (SUF), Huginn Þór Jóhannsson (UP) og Ásta Lovísa Arnórsdóttir (FUJ). Siðareglurnar voru samþykktar einróma.

Í lagabreytinganefnd sátu þau Sigurður Helgi Birgisson (SHÍ), Tanja Rún Kristmannsdóttir (SUF) og Viktor Orri Valgarðsson (UP). Stjórn félagsins 2015-2016 fól fráfarandi stjórn að koma með tillögu að nýju nafni sem lýsir félaginu og tilgangi þess betur. Auk þeirrar breytingar voru gerðar ýmsar aðrar breytingar og lagfæringar á lögunum. Bætt var við einni lagagrein sem gefur stjórn og fulltrúaráði LUF heimild til þess að víkja stjórnarmanni eða fulltrúa í fulltrúaráði, verði hann uppvís að misferli.

Viktor Orri Valgarðsson, varaþingmaður Pírata, var viðstaddur á þinginu og tók til máls undir dagskrárliðnum önnur mál. Þar vísaði hann til sérstakra umræðna sem hann tók þátt í á Alþingi daginn áður og lýsti þeirri upplifun sinni að í dag væri einstakt tækifæri til að gera miklar og löngu tímabærar umbætur í málaflokki ungs fólks, til að styðja miklu betur við félags- og hagsmunastarf ungmenna en hingað til hefði verið gert á Íslandi.

Fulltrúar fráfarandi og nýrrar stjórna LUF vilja þakka öllum þeim sem mættu á þingið og sömuleiðis öllum aðildarfélögum LUF fyrir gott samstarf á liðnu kjörtímabili. Við lítum björtum augum á komandi tíma og hlökkum til áframhaldandi starfa.

Stjórn LUF

Frekari upplýsingar um þingið gefur Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri LUF í gegnum tinna.isebarn@youth.is.