Landssamband Ungmennafélaga (LUF) hefur ráðið Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur í starf verkefnastjóra félagsins. Hún var ráðin verkefnastjóri tímabundið hjá félaginu í byrjun árs til að stýra norrænni ráðstefnu og hefur samningur við hana verið framlengdur.

Heiða Vigdís er með BA gráðu í hagfræði með sagnfræði sem aukafag frá Háskóla Íslands (2017)  og er að hefja meistaranám í ritlist við sama skóla. Hún býr yfir víðtækri reynslu af starfi félagasamtaka, en Heiða gegndi embætti gjaldkera LUF árið 2015-2016, gjaldkera Alþjóðlegra ungmennaskipta (AUS), árið 2014-2015 og formans AUS, árið 2015-2016. Auk þess hefur hún tekið þátt í starfi ýmissa félagasamtaka á alþjóðavísu. 

Heiða Vigdís hefur fjölbreytta starfsreynslu, hún hefur meðal annars starfað við kennslu, bókhald, ýmis störf fyrir fjölmiðla og rannsóknir. Heiða hefur einnig sinnt starfað í dægradvöl fyrir heimilislausa drengi og stundað nám í spænsku við UNAM, Sjálfstjórnarskólann í Mexíkóborg. 

„Sterkur liðsauki fyrir LUF”

Heiða kemur til með að hafa umsjón með helstu verkefnum LUF, einkum utanumhald Leiðtogaskóla Íslands og rannsókn á rekstrarstöðu ungmennafélaga. Þá mun Heiða aðstoða framkvæmdastjóra í almennri hagsmunagæslu ungs fólks, alþjóðamálum, fjármögnun sem og við ýmsa viðburði og útgáfu.

„Heiða hefur sýnt og sannað að hún brennur fyrir málaflokknum. Hún þekkir innra starf LUF vel, enda hefur hún starfað í stjórn félagsins og er sú reynsla hennar afar verðmæt fyrir félagið. Heiða verður félaginu því sterkur liðsauki á komandi misserum þar sem mörg brýn verkefni bíða framkvæmdar á borði skrifstofunnar,” segir Tinna Isebarn framkvæmdastjóri LUF um ráðningu Heiðu. 

Stjórn Landssambands ungmennafélaga