Stór hluti af starfsemi LUF er alþjóðleg þátttaka þar sem við tryggjum að rödd íslenskra ungmenna fái að heyrast á hinu alþjóðlega sviði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Felur það í sér þátttöku í samvinnuverkefnum og vettvöngum á Norðurlöndum, í Evrópu og hjá Sameinuðu þjóðunum. Alþjóðafulltrúi leiðir alþjóðastarf félagsins í samvinnu við stjórn og stýrir alþjóðaráði LUF þar sem alþjóðafulltrúar aðildarfélaga okkar eiga sæti ásamt ungmennafulltrúum Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Sendinefnd LUF hjá Sameinuðu Þjóðunum


 

Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna.

Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.

Sendinefndin skipar nú sex fulltrúa, en á næstu misserum verða skipaðir fulltrúar á fleiri sviðum sem falla undir Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Unnur Lárusdóttir
Unnur LárusdóttirSvið mannréttinda
Andrea Gunnarsdóttir
Andrea GunnarsdóttirSvið kynjajafnréttis
Finnur Ricard Andrason
Finnur Ricard AndrasonSvið loftslagsmála
Inga Huld Ármann
Inga Huld ÁrmannSvið barna og ungmenna
Rebekka Karlsdóttir
Rebekka KarlsdóttirSvið sjálfbærrar þróunar
Isabel Alejandra Díaz
Isabel Alejandra DíazSvið mennta, vísinda og menningar

Hlutverk

Nefndin er enn í mótun en markmið hennar er að vinna sem starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ. Nefndin virkar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúarnir munu gegna embættinu í tvö ár, þar til nýr tekur við. 

Saga

Þátttaka ungs fólks í ákvarðanatöku og stefnumótun er ein af megináherslum Sameinuðu þjóðanna og þess vegna hafa aðildarríki um árabil verið hvött til að skipa ungmennafulltrúa sem veita sérfræðiþekkingu, innsýn og nauðsynlega ráðgjöf þegar kemur að sjálfbærri þróun. 

Flest ríki Evrópu hafa lengi skipað ungmennafulltrúa, sum frá árinu 1970 og önnur skipa yfir 20 fulltrúa sem sækja flesta viðburði Sameinuðu þjóðanna. LUF hefur lengi barist fyrir slíku fyrirkomulagi hérlendis og skipaði loks sinn fyrsta fulltrúa í ágúst árið 2019. Sendinefndin er á góðri leið með að mótast með nánu samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og með stuðningi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og forsætisráðuneytisins.

Samstarfsaðilar

Sendinefnd LUF hjá Sameinuðu þjóðunum er samstarfsverkefni Félags sameinuðu þjóðanna, utanríkisráðuneytisins og annara ráðuneyta sem eiga aðild að viðburðum SÞ; forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og menningar- og viðskiptaráðuneytið.

Í febrúar, árið 2020, hófst formlegt samstarf milli LUF og utanríkisráðuneytisins með samstarfssamning til næstu þriggja ára, 2020-2022. Markmið samningsins er að m.a. að auka þátttöku íslenskra ungmenna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og efla kynningu og fræðslu á heimsmarkmiðunum og málefnum SÞ.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis – og þróunarsamvinnuráðherra, og Una Hildardóttir, forseti Landssambands Ungmennafélaga (LUF), undirrituðu samstarfssamning ráðuneytisins og LUF fyrir árin 2020 – 2022.

Skipun fulltrúa

Öll aðildarfélög LUF (með fulla aðild og áheyrnaraðild) geta boðið fram einn fulltrúa í hvert embætti. Áhugasamir félagsmenn aðildarfélaga LUF þurfa því að óska eftir umboði frá stjórn viðkomandi félags fyrir settan framboðsfrest. Stjórnin tilkynnir framboð með því að fylla út skráningarform sem öll aðildarfélög fá í fundarboði. Skipun nýrra fulltrúa er iðulega auglýst á vefsíðu og Facebook-síðu LUF og kosningar fara fam ýmist á leiðtogaráðsfundum eða sambandsþingi LUF.

Með umboði staðfestir stjórn að frambjóðandinn uppfylli eftirfarandi hæfnikröfur:

Hæfnikröfur:

  1. Umboð frá aðildarfélagi LUF.
  2. Vera á aldrinum 18 (þegar viðburður hefst) – 25 ára.
  3. Hafa þekkingu á málefnasviðinu.
  4. Hafa reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga.
  5. Búa yfir leiðtogahæfni og frumkvæði.
  6. Hafa vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.
  7. Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur.

Embættið er sjálfboðastarf, að dagpeningum erlendis undanskildum.

Ungmennafélög þurfa að falla undir regnhlíf LUF til að geta tilnefnt fulltrúa. Önnur félög sem falla undir kröfur LUF, eru lýðræðisleg, frjáls félagasamtök stýrð af ungi fólki, geta kynnt sér aðgangskröfur LUF og sótt um aðild hér. Meðferð umsókna fer fram á sambandsþingi LUF í upphafi hvers árs.

Kosningaferli

Frambjóðendur þurfa meirihluta atkvæða til að hljóta kjör. Á kosningafundinum, hvort sem á leiðtogaráðsfundi eða sambandsþingi LUF, fá fulltrúar tækifæri til að kynna stefnumál sín í framboðsræðu. Í kjölfarið er kosið í einni eða tveimur umferðum þar til hreinn meirihluti liggur fyrir. Aðildarfélög skrá þingfulltrúa fyrir fundi og hver fulltrúi ber eitt atkvæði á leiðtogaráðsfundum en atkvæði eru vigtuð eftir stærð félaga á sambandsþingjum.

Evrópski ungmennavettvangurinn

LUF er aðili að Evrópska ungmennavettvangnum (YFJ), valdamestu alþjóðlegu regnhlífasamtökum ungs fólks í heiminum. YFJ er viðurkenndur lögmætur fulltrúi Evrópskra ungmennafélaga gagnvart alþjóðastofnunum á borð við Evrópuráðið, Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar. Þar er LUF virkur þátttakandi sem hagsmunaaðili ungra Íslendinga á alþjóðavettvangi. Á ensku heitir LUF „The National Youth Council of Iceland“ og innan þessarra alþjóðlegu heildarsamtaka koma saman öll „National Youth Councils“ (NYCs) í Evrópu, auk annarra evrópskra ungmennasamtaka. Þar hefur LUF áhrif á stefnumótun innan Evrópu og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi fyrir hönd Íslands. Uppbygging LUF er eins og annarra NYCs innan Evrópulandanna til að standast alþjóðlegar kröfur: Lýðræðisleg regnhlífarsamtök frjálsra félagasamtaka þar sem einungis ungt fólk fer með allt ákvarðanavald. Í YFJ vinnur LUF með almenn réttindi ungs fólks og þátttökurétt þeirra. Þetta felur meðal annars í sér lækkunar kosningaaldurs og þátttöku ungs fólks í ákvörðunarferli ESB og Evrópuráðsins.

Evrópusambandið (ESB) er mikilvægur aðili þegar kemur að stefnumörkun ungs fólks. Það er vegna þess að sambandið stendur fyrir aðgerðum og stefnum sem miðast að ungu fólki í Evrópu. Þar sem Ísland er ekki beinn þátttakandi í þeirri stefnumörkun sem ESB-aðildarríki eða í gegnum EES-samninginn erum við háð öflugri þátttöku í YFJ til að hafa áhrif á stefnur sem hafa áhrif á íslensk ungmenni og hagsmuni þeirra. Dæmi um aðgerðir ESB sem hafa áhrif á ungt fólk eru m.a. stuðningskerfi í gegnum ERASMUS+.

Það sama má segja um Evrópuráðið, þar sem Ísland er aðili og virkur þátttakandi, m.a. annars í stefnumótun er kemur að ungu fólki. YFJ skipar í Ráðgjafaráð ungmenna hjá Evrópuráðinu (e. Advisory Council on Youth) sem er ráðgefandi varðandi ákvarðanatöku og stefnumótun er viðkemur ungu fólki. Þar hefur LUF átt fulltrúa.

LUF vinnur náið með systurfélögum okkar á Norðurlöndunum og Eystrasalti sem sameinast um tilnefningar og kjör til stjórnar European Youth Forum (YFJ) og stjórnarmenn LUF taka þátt í aðal- og félagsfundum YFJ.

Norrænt samstarf

LUF á í miklu og nánu samstarfi við systurfélög okkar á Norðurlöndunum og tekur þátt í hinum ýmsu samstarfsverkefnum. Núverandi samstarfsverkefni okkar við systurfélög okkar er NORÐ verkefnið. Þá er einnig náið samstarf milli landssambanda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem hittast tvisvar á ári og deila með sér reynslu og þekkingu auk þess að skipuleggja sameiginlega aðkomu sína að öðrum vettvöngum.

NORÐ
Markmið NORÐ er að skapa öflugt samstarf ungs fólks á Norðurlöndunum. Samfélög, norræn samheldni, tungumál og menning eru rauður þráður í starfsemi NORÐ. NORÐ samanstendur af einu stóru árlegu verkefni sem kallast Ungmennaþingið og nokkrum smærri viðburðum, öll starfsemin verður haldin frá 2022-2024.

Starfsemi NORÐ er fjölbreytt, en ungt fólk getur til dæmis tekið þátt í gerð norrænna listaverka, lært að móta og setja upp verkefni með öðrum ungmennum og fræðast meira um Norðurlöndin.

Starfsemin er fyrir ungt fólk á aldrinum 18-30 ára frá ungmennafélögum á öllum Norðurlöndunum, þ.e. Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum. Danska ungmennaráðið (DUF) leiðir verkefnið í samvinnu við systurfélög sín frá Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi.

NORÐ er fjármagnað af A.P. Møller og Chastine Mc-Kinney Møller sjóðnum.

Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð ungmenna

LUF á fulltrúa í NORDBUK, Norrænu barna- og ungmennanefndinni sem styrkir við verkefni tengd börnum og ungmennum á Norðurlöndunum í gegnum Norden 0-30 og Volt sjóðina. Þá er nefndin einnig Norrænu ráðherranefndinni til ráðgjafar í öllum málum er tengjast málefnum barna og ungmenna.

LUF er einnig áheyrnaraðili að Norðurlandaráði ungmenna (UNR) sem er ráð ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka á Norðurlöndum. UNR byggir á Norðurlandaráði og fjallar um mikilvæg málefni sem eiga við norrænt ungt fólk, svo sem auðveldara aðgengi að menntun og störfum á Norðurlöndunum. Þá beitir ráðið sér einnig fyrir öflugra norrænu samstarfi og málefnum er varðar umhverfis- og loftslagsmál, jafnrétti o.fl. Tillögur sem UNR samþykkir eru sendar til Norðurlandaráðs og eru teknar til meðferðar þar innan. Eigum við í öflugu samstarfi við systurfélög okkar í kringum þing ráðsins þar sem unnar eru sameiginlegar tillögur auk þess sem einn fulltrúi okkar er áheyrnarfulltrúi innan stjórnar ráðsins.