Á stjórnarfundi 14. maí 2018 samþykkti stjórn LUF umsókn Hugrúnar – geðfræðslufélags um aðild að sambandinu. En tilgangur Hugrúnar er að sinna jafningjafræðslu um geðheilsu og geðraskanir fyrir ungmenni. Stjórn LUF telur tilgang og markmið Hugrúnar samræmast stefnu LUF um heilsu og vellíðan. Þar segir: LUF telur að bregðast þurfi við því að hátt hlutfall ungs fólks stríðir við geðsjúkdóma á við kvíða og depurð. Er það grafalvarlegt að um þriðjungur háskólanema glímir við andleg veikindi, sérstaklega kvíða- og þunglyndi. LUF kallar því eftir fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferðum sem stuðla að geðheilbrigði og vellíðan ungmenna. Einnig þarf að efla forvarnir og meðferðir vegna fíknivanda, m.a. misnotkunar fíkniefna og áfengis. Þá er LUF fylgjandi afglæpavæðingu fíkniefna. Samræma þarf heilbrigðiskerfið þannig að það nái utan um bæði líkamleg og andleg veikindi. Óháð búsetu og efnahag þarf að tryggja aðgengi ungs fólks að heilbrigðisþjónustu og viðeigandi meðferðarúrræðum á þann hátt að kerfið sé fyrirbyggjandi og verndi ungt fólk gegn langvarandi veikindum sem geta fylgt fólki alla ævi. Sömuleiðis þarf að vinna gegn einelti og félagslegri einangrun sem hefur skaðleg áhrif á líðan ungs fólks.

Aðild Hugrúnar að LUF eykur fjölbreytni innan sambandsins og er því mikill styrkur þar sem Hugrún býr yfir sérfræðiþekkingu í málaflokknum, en ekkert annað aðildarfélag LUF leggur megináherslu á geðheilbrigðismál. „Hugrún Geðfræðslufélag fagnar því að vera orðið hluti af Landssambandi Ungmennafélaga. Meðlimir félagsins eru spenntir fyrir því að fá að starfa með og kynnast betur öðrum félögum sem brenna fyrir hagsmunum ungs fólks. Það er mikilvægt að hugað sé að geðheilsu, geðsjúkdómum og úrræðum í réttindabaráttu ungmenna og því frábært að Hugrún geðfræðslufélag hafi aðild að LUF.“ – segir Kristín Hulda Gísladóttir formaður Hugrúnar. Með samþykki stjórnar öðlaðist Hugrún áheyrnaraðild. Að mati stjórnar LUF uppfyllir Hugrún skilyrði fyrir fullri aðild sem verður lagt fyrir sambandsþing í lok febrúar 2019.

Stjórn LUF býður Hugrúnu hjartanlega velkomna undir regnhlífina.