Um leið og við hjá Landssambandi ungmennafélaga eða LUF, þökkum Félagi Sameinuðu þjóðanna, utanríkis- og forsætisráðuneyti og öðrum sem standa að þessum viðburði fyrir að setja málefni framtíðarkynslóða á oddinn hér í dag og ekki síður fyrir að bjóða okkur sem eru í forsvari fyrir ungt fólk á Íslandi. Það segir í raun allt sem segja þarf að ég hefji þetta erindi á að þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ykkur í dag og fyrir að við hjá LUF fáum að vera þátttakendur í þessu samtali. Við upplifum það enn ekki sjálfsagt – því miður er það ennþá raunin – þrátt fyrir að vera einu lýðræðislegu heildarsamtök ungmenna á Íslandi þar sem einungis ungt fólk fer með alla ákvarðanatöku. Við teljum 43 aðildarfélög og komum fram fyrir hönd yfir 60 þúsund félagsmanna. Verandi heildarsamtök innan velferðarsamfélags sem skipar sér í fremstu röð á heimsmælikvarða þegar kemur að gæði lýðræðis, sjálfbærri orku, réttindum barna, kvenfrelsis og verandi besta land í heimi fyrir hinsegin fólk. 

Fyrir þá sem ekki vita þá er LUF partur af alþjóðlegri skipuheild. LUF á til að mynda aðild að áhrifamestu ungmennasamtökum heims, Evrópska ungmennavettvangnum eða “European Youth Forum” – sem er lögmætur viðurkenndur fulltrúi ungs fólks gagnvart alþjóðastofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar. Sem “National Youth Council of Iceland” kemur LUF þar fram f.h. íslenskra ungmenna ásamt öllum öðrum “National Youth Councils” í Evrópu. Þar tekur LUF virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi fyrir hönd Íslands og hefur þar áhrif á stefnumótun innan Evrópu. Það er meðal annars þess vegna sem ég legg áherslu á nauðsyn þess að LUF sé virkur þátttakandi í að fylgja aðgerðum sáttmálans eftir, einkum í ljósi þess að sáttmálanum er ætlað að tryggja gæfuríkari framtíð. Sáttmálinn ætti þar af leiðandi að hafa mest áhrif á ungt fólk, sem er væntanlega veigamesti hagsmunahópurinn og ætti ungt fólk þar af leiðandi að gegna lykilhlutverki.

LUF fagnar sáttmála framtíðarinnar og bindur vonir um að íslensk stjórnvöld taki aðgerðunum föstum tökum hér á landi í náinni samvinnu og samráði við ungt fólk. Kafli fjögur tekur utan um framtíðar kynslóðir og er í raun aðgerðaráætlun sem ætlað er að tryggja farsælli framtíð en blasir við ungu fólki núna. Þessar aðgerðir eru ekki nýmæli fyrir okkur sem höfum tekið virkan þátt í hagsmunabaráttu ungs fólks hérlendis og erlendis á undanförunum árum. Heldur fremur eru þessar aðgerðir í fullkomnum takti við Stefnu LUF sem samþykkt var fyrst árið 2018 og stenst hún ennþá tímans tönn. Aðgerðir sáttmálans styðja enn fremur við ítrekað ákall LUF eftir heilstæðri stefnu í málefnum ungs fólks eða það sem kallast “national youth policy”. Enn stendur Ísland sem eitt fárra ríkja heims sem ekki hefur sett sér slíka stefnu og þrátt fyrir ályktun Sameinuðu þjóðanna, sem árið 1996 beitti þau ríki þrýstingi sem þá höfðu ekki formfest slíka stefnu. 

Aðgerð 32 fjallar um fjárfestingu í ungu fólki og þá á öllum sviðum, þar með talin eru mennta-, atvinnu- og heilbrigðismál, jafnframt þegar kemur að sjálfbærri þróun og félagslegum úrræðum. Þessi aðgerð endurspeglast í stefnu LUF og höfum við m.a. ítrekað bent stjórnvöldum á að Alþjóðabankinn hefur fært fyrir því efnahagsleg rök að leggja áherslu á ungt fólk. Rannsóknir hafa sýnt að ríki sem fjárfesta í yngri kynslóðum uppskera ávinning með aukinni hagsæld og velferð. Mikilvægi ungmennastarfs og sú samfélagslega verðmætasköpun sem ungmennastarf leiðir af sér er ótvírætt. Þess vegna hafa flest ríki heims sett sér stefnu um málefni ungs fólks.

Aðgerð 33 fjallar um inngildingu og jöfn tækifæri, þá sérstaklega meðal jaðarsettra hópa. Þessi aðgerð er jafnframt eitt af áherslumálunum í stefnu LUF. En þar segir orðrétt: “Ungt fólk stendur frammi fyrir mismunun þegar kemur að aðgengi að borgaralegum-, pólitískum-, efnahagslegum- og félagslegum réttindum. Horfast þarf í augu við að ungt fólk er jaðarsett vegna aldurs og er oft berskjaldaðasti hópur samfélagsins. Líta þarf til þess að ungmenni yfir 18 ára aldri njóta ekki sérstakrar lagalegrar verndar Barnasáttmálans og þurfa því sérstaka athygli. Auk þess er samfélagshópurinn „ungt fólk“ fjölbreyttur og innan hans eru jaðar- og minnihlutahópar sem standa frammi fyrir margþættri mismunun”. 

Í aðgerðum 34 og 35 er því lýst yfir að styrkja eigi raunverulega þátttöku ungs fólks, bæði innan aðildarríkjanna sem og alþjóðlega. Hér eru Sameinuðu þjóðirnar enn og aftur að undirstrika nauðsyn þátttöku ungs fólks á öllum sviðum samfélagsins. Það er réttur ungs fólks að taka þátt í samfélaginu. Í stefnu LUF kemur fram að “Félagsleg útilokun, ójafnrétti og aldursfordómar hindra ungu fólki að njóta virkrar og raunverulegrar þátttöku. Ungt fólk er gagnrýnið á stjórnkerfið, tekur síður þátt í hefðbundnum stjórnmálum og er ólíklegast til að kjósa. Ungt fólk kýs fremur nútímalegri aðferðir til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Aðgengi ungs fólks að stefnumótun og ákvarðanatöku samfélagsins er nauðsynlegt ef lýðræði á að þrífast.

Ungmennafélög spila lykilhlutverk í að stuðla að samfélagsþátttöku ungs fólks, lýðræðislegri borgaravitund og sjálfbærri þróun. Þetta hefur LUF sýnt með mælanlegum árangri lýðræðisverkefnisins #ÉgKýs, með starfrækslu Leiðtogaskóla Íslands sem hefur það að aðalmarkmiði að stuðla að mannréttindafræðslu og lýðræðisvitund. Einnig með utanumhaldi á Sendinefnd LUF eða “United Nations Youth Delegation Programme” í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna og sendandi ráðuneyti. Nú nýlegast með yfirstandandi herferð okkar undir slagorðinu “Völd óskast” sem hefur það að markmiði að leiðrétta kynslóðarbundinn lýðræðishalla. Við finnum að það er meðbyr með okkar starfi.

Ég setti aðgerðirnar um kaflann sem snýr að ungu fólki viljandi í samhengi við stefnu LUF því þarna eru í raun um algjöra speglun að ræða. Þetta er merki um að Sameinuðu þjóðirnar eru að hlusta á ungt fólk og nú er það undir aðildarríkjunum komið að fylgja aðgerðunum eftir. Því spyr ég að lokum, hvernig ætlum við, aðilar borgarasamfélagsins að leggja okkar að mörkum? Og hvernig ætla íslensk stjórnvöld að fylgja þessu eftir? 

LUF hlakkar til að leggja hönd á plóg fyrir farsæla framtíð ungs fólks um heim allan.