Rebekka Karlsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar mun sækja ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF) New York í júlí 2023 fyrir hönd ungmenna á Íslandi. 

Um ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna (HLPF)

Fundurinn fer fram árlega, en á nokkurra ára fresti kynna aðildarríki Sameinuðu þjóðanna svokallaðar landrýnisskýrslur (e. Voluntary National Review), þar sem farið er yfir stöðuna á innleiðingu heimsmarkmiðana um sjálfbæra þróun í hverju landi fyrir sig. Þessar skýrslur eru hluti af alþjóðlegri eftirfylgni með framgangi heimsmarkmiðanna og er mælst til þess að ríki skili að minnsta kosti þrisvar sinnum inn slíkum skýrslum á gildistíma heimsmarkmiðanna. Ísland skilaði seinast inn landrýnisskýrslu árið 2019 og mun gera það aftur nú í ár. 

Landrýniskýrsla Íslands

Vinna við gerð skýrslunnar hefur staðið yfir hjá stjórnvöldum undanfarna mánuði og var í þetta skiptir lagt upp með að hafa skýrsluna aðgengilega og skýra, og var horft til skýrslu Finnlands frá árinu 2020 sem viðmið í framsetningu skýrslunnar. Ein opna í skýrslunni verður tileinkuð börnum og ungmennum. Ungmennaráð heimsmarkmiðanna mun skrifa eina blaðsíðu í skýrslunni þar sem áherslur barna koma fram og svo á sömu opnu verður blaðsíða fyrir áherslur ungmenna á Íslandi. 

Ungmennafulltrúa Íslands á sviði sjálfbærrar þróunar var falið að taka saman þennan texta fyrir hönd ungs fólks á Íslandi ásamt því að hún mun ávarpa þingið þegar Ísland kynnir skýrsluna til að koma rödd og áherslum ungmenna enn frekar á framfæri. 

Öllu ungu fólki á Íslandi boðið að taka þátt

Til þess að tryggja að þessi samantekt endurspegli raunverulega áherslur ungs fólks á Íslandi hefur Rebekka útbúið könnun þar sem öllum á aldrinum 15 – 35 ára gefst kostur á að koma sínum áherslum á framfæri. Svörin verða notuð í samantektina og nýtast þau þannig til þess að þrýsta á íslensk stjórnvöld til að gera betur í málefnum ungs fólks á Íslandi í tengslum við innleiðingu heimsmarkmiðanna. 

Það tekur örfáar mínútur að svara könnuninni og verður hún opin til 21. apríl nk. LUF hvetur öll til þess að taka þátt og tryggja þannig sterka aðkomu ungs fólks að vinnu landrýnisskýrslunnar og innleiðingu stjórnvalda á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.