Inga Huld Ármann, fulltrúi SHÍ, var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) á sviði barna og ungmenna á fyrsta fundi Leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF). Fundurinn fór fram í Hinu húsinu í gær, 6. apríl. Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir, fulltrúi UJ, hlaut næst flest atkvæði og mun hún því starfa sem varafulltrúi.

Inga Huld Ármann, ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði barna og ungmenna

„Við erum einnig nútíðin“

Inga Huld býr yfir reynslu af réttindabaráttu barna, en hún hefur m.a. setið í ráðgjafahóp umboðsmanns barna þar sem hún kynnist vel helstu áherslum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðlaðist þekkingu á málaflokknum í baráttu sinni fyrir bættum réttindum og aukinni þátttöku barna. Inga stóð meðal annars að gerð námskeiða í þátttöku barna og gerð handbókar um samráð við börn í samstarfi við ungmennaráð UNICEF og Barnaheilla.

Í framboðsræðu lagði Inga áherslu á að valdhafar og ráðamenn verði að hlusta á raddir barna og ungmenna. „Oft er talað um að börn og ungmenni séu framtíðin, en virðist oft gleymast að við erum einnig nútíðin. Mikilvægt er að við höfum jafnan rétt á þátttöku í samfélaginu, ákvarðanatöku og skoðunum okkar bæði í dag sem og í framtíðinni. […] Börn og ungmenni hafa rödd og þarf að tryggja að þær raddir fái að heyrast. Ég vil berjast fyrir þessari rödd og áheyrn, og valdefla annað ungt fólk. Sem Ungmennafulltrúi myndi ég halda þeirri baráttu áfram og taka hana á hærra plan.“

ECOSOC Youth Forum

Inga kemur til með að sækja fund ungmennavettvangi efnahags- og félagsmálaráðs SÞ ( e. The Economic and Social Council (ECOSOC) Youth Forum), í umboði ungs fólks á Íslandi. 

Skipun ungmennafulltrúans og þátttaka hans er samstarf Landssambands ungmennafélaga, félags SÞ á Íslandi og mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Sendinefnd LUF

Kjör ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði barna og ungmenna skipar sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ. Hún starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við.

Sendinefndin skipar nú fimm fulltrúa; á sviði mannréttinda, loftslagsmála, sjálfbærar þróunar, á sviði barna og ungmenna og á sviði kynjajafnréttis.

Stjórn LUF óskar Ingu til hamingju með kjörið og hlakkar til að vinna með henni á komandi misserum.

Alþjóðaráð LUF

Á fundi Leiðtogaráðs var einnig samþykkt tillaga stjórnar LUF þess efnis að breyta alþjóðanefnd LUF í Alþjóðaráð LUF. Með breytingunni verður fulltrúum hópsins fjölgað talsvert en gert er ráð fyrir að öll aðildarfélög hafi færi á að tilnefna alþjóðafulltrúa sína, eða þá stjórnarmenn sem bera ábyrgð á alþjóðamálum félagsins. Alþjóðafulltrúi LUF mun fara fyrir ráðinu og munu ungmennafulltrúar hjá SÞ einnig eiga þar sæti.

Vonir standa til þess að með breytingunum muni LUF auka við hlutverk sitt sem samstarfs- og samráðsvettvangur ungs fólks. Stór hluti starfsemi félagsins felst í alþjóðastarfi og taka flest aðildarfélögin einnig þátt í umfangsmiklu alþjóðastarfi. Með öflugu samstarfi og góðu upplýsingaflæði milli alþjóðafulltrúa telur LUF að tækifæri ungs fólks á Íslandi til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi muni aukast.