Stjórn landssambands ungmennafélaga (LUF) auglýsir eftir umsóknum í Inngildingarráð LUF (e. Social Inclusion Committee). Hlutverk ráðsins er að vera til ráðgjafar í málefnum jaðarsettra ungmenna. Markmiðið með stofnun ráðsins er að skapa vettvang fyrir sérfræðiþekkingu um málefnasviðið og að veita ungu fólki, sem er berskjaldað fyrir margþættri mismunun sterkari rödd innan starfsemi LUF.

Tilgangur ráðsins er m.a. liður í því verkefni sem stjórnvöld hafa falið LUF sem snýr að þarfagreiningu í tengslum við stofnun rafræns samráðsvettvangs sem er markmið í aðgerðaráætlun um Barnvænt Ísland. Þar er gerð sú krafa að sérstök áhersla verði lögð á að ná til „viðkvæmra hópa og stuðla að þátttöku þeirra“. Tilgangurinn er einnig framlag stjórnar að vinna markvissara að áherslu um félagslega samlögun í stefnu félagsins:

Ungt fólk stendur frammi fyrir mismunun þegar kemur að aðgengi að borgaralegum-, pólitískum-, efnahagslegum- og félagslegum réttindum. Horfast þarf í augu við að ungt fólk er jaðarsett vegna aldurs og er oft berskjaldaðasti hópur samfélagsins. Líta þarf til þess að ungmenni yfir 18 ára aldri njóta ekki sérstakrar lagalegrar verndar Barnasáttmálans og þurfa því sérstaka athygli. Auk þess er samfélagshópurinn „ungt fólk“ fjölbreyttur og innan hans eru jaðar- og minnihlutahópar sem standa frammi fyrir margþættri mismunun.

LUF aðhyllist fjölmenningarhyggju, beitir sér í félagslegri samlögun og vinnur að því að vernda réttindi og efla þátttöku jaðar- og minnihlutahópa. LUF fordæmir hatursorðræðu og hvers konar mismunun fólks byggða á kynferði, kynhneigð, kyntjáningu, trúarbrögðum, skoðunum, tungumáls, þjóðernisuppruna, fötlunar, örorku, aldurs, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti. LUF setur það sem skilyrði að allir hópar sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu hafi rödd innan alls starfs sem tengist þeirra málaflokki. Ekkert skal framkvæma eða ákveða án þeirra samráðs.

Stjórn og skrifstofa LUF, ásamt aðildarfélögum LUF munu geta sent ráðinu mál til yfirferða, athugasemda eða álits. Þá getur ráðið komið athugasemdum og ábendingum er varðar starfsemi eða málefnasvið LUF á framfæri við stjórn telji ráðið tilefni til.

Hæfniskröfur:

  • Vera/ hafa verið virkt í aðildarfélagi LUF.
  • Vera á aldrinum 16-35 ára.
  • Hafa þekkingu á inngildingu og málefnum jaðarsetts ungs fólks.
  • Viðeigandi menntun (bæði formleg og óformleg) er kostur.
  • Þekking á starfsemi LUF er kostur.
Sótt er um í gegnum þetta form. Umsóknarfrestur er til og með 11. júní.

Stjórn LUF mun skipa í ráðið með hæfni, reynslu og fjölbreytileika að leiðarljósi.
Fyrir frekari upplýsingar má hafa samband við Viktor Lorange (viktorlorange@youth.is), verkefnastjóra.