Frá 4. leiðtogaráðsfundi LUF.

Isabel Alejandra Díaz, fulltrúi SHÍ, var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) á sviði mennta, vísinda og menningar á 4. fundi Leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF). Fundurinn fór fram í Hinu húsinu 24. janúar og voru 7 í framboði. Benedikt Bjarnason, fulltrúi Ung norræn, hlaut næst flest atkvæði og mun hann því starfa sem varafulltrúi. Er þetta í fyrsta skipti sem lýðræðislega er kjörið er í stöðu ungmennafulltrúa á sviði mennta, vísinda og menningar.

„Órjúfanlegur þáttur sjálfbærrar þróunnar“

Isabel býr yfir reynslu af réttindabaráttu ungs fólks en hún hefur setið fyrir hönd Röskvu í háskólaráði Háskóla Íslands auk þess að vera kjörin forseti Stúdentaráðs HÍ. Þá hefur hún starfað sem verkefnastjóri Tungumálatöfra, námskeiðs fyrir börn með ólíkan menningarbakgrunn til að styrkja sjálfsmynd sína í málörvandi umhverfi í gegnum listkennslu. Isabel hefur einnig setið í ýmsum hópum á sviði mennta, menningar- og félagsmála t.a.m. samhæfingarhópi stjórnvalda um atvinnu- og menntaúrræði og samráðsvettvangi um jafnrétti kynjanna á vegum Jafnréttisráðs.

Í framboðsræðu lagði Isabel áherslu á mikilvægi málefnasviða UNESCO fyrir ungt fólk: „Ég er sannfærð um að hlutverk rannsókna, lista og nýsköpunarstarfs sé að skila þekkingu inn í samfélagið í takt við það sem það þarfnast hverju sinni, og að það sé órjúfanlegur þáttur þeirrar sjálfbærrar þróunar sem við viljum sjá í umhverfinu okkar. Það tengist óhjákvæmilega heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og nauðsyn þess að innleiðing þeirra sé skýr og markviss. Þessi tiltekna staða ungmennafulltrúa getur sannarlega verið liður í því að m.a. miðla starfsemi UNESCO til ungs fólks, skapa heildstæðari sýn á aðkomu þeirra og í senn verið rödd þess gagnvart stjórnvöldum þegar kemur að mennta, vísinda og menningarmálum.“

Geir Finnsson, forseti LUF afhendir Isabel Díaz friðarlilju til tákns um kjör hennar til ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði mennta, vísinda og menningar.

Ungmennafulltrúi á sviði mennta, vísinda og menningar

Isabel kemur til með að sækja aðalráðstefnu UNESCO, sitja í Íslensku UNESCO nefndinni auk þess að sækja norræna samráðsfundi og sækja ungmennaþing UNESCO, í umboði ungs fólks á Íslandi.

Skipun ungmennafulltrúans og þátttaka hans er samstarf Landssambands ungmennafélaga, félags SÞ á Íslandi og menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

Sendinefnd og Alþjóðaráð LUF

Kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði barna og ungmenna skipar sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ. Hún starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við. Þá sitja ungmennafulltrúar einnig í alþjóðaráði LUF sem er samráðsvettvangur aðildarfélaga er varðar alþjóðlegt starf.

Sendinefndin skipar nú sex fulltrúa; á sviði mannréttinda, loftslagsmála, sjálfbærar þróunar, barna og ungmenna, sviði kynjajafnréttis og á sviði mennta, vísinda og menningar.

Stjórn LUF óskar Isabel til hamingju með kjörið og hlakkar til að vinna með henni á komandi misserum.