Kosið var í tvær stöður ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á Leiðtogaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga þann 5. Maí síðastliðin. Viktor Pétur Finnsson, tilnefndur af Sambandi ungra Sjálfstæðismanna er nýr ungmennafulltrúi á sviði Loftlagsmála og er Kjartan Ragnarsson, sem tilnefndur var af Q – Félagi hinsegin stúdenta nýr ungmennafulltrúi á sviði Kynjajafnréttis. Eru þeir kjörnir til tveggja ára í samræmi við innleiðingu nýs „junior/senior” kerfis sendinefndar LUF. Óskar stjórn LUF þeim Viktori og Kjartani til hamingju með kjörið.

Sendinefnd LUF

Kjör ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði barna og ungmenna skipar sæti í sendinefnd LUF hjá Sameinuðu þjóðunum (e. UN Youth Delegation Programme). Nefndin er hluti af alþjóðanefnd LUF og er jafnframt starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við. Sendinefndin skipar nú sex fulltrúa; á sviði mannréttinda, loftslagsmála, sjálfbærar þróunar, kynjajafnréttis, barna og ungmenna og mennta, vísinda og menningar. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Félags- og vinnumálaráðuneytið, forsætisráðuneytið, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið og menningar- og viðskiptaráðuneytið.