Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Leiðtogaskóla Íslands 2023. Mun skólinn fara fram helgina 14.-15. og miðvikudaginn 18. október. 19. október fer svo fram útskrift leiðtogaskólans samhliða málþingi um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Skólinn er sameiginlegur vettvangur aðildarfélaga LUF til að þjálfa persónulega hæfni, efla tengslanet, deila reynslu, auka getu og valdefla ungt fólk á Íslandi. Er leiðtogaskólinn m.a. leið til að styðja við sjálbærni aðildarfélaga LUF með því að efla meðlimi þeirra í leiðtogafærni og félagsstörfum sínum.

Markmið Leiðtogaskólans er að efla leiðtogahæfni og valdefla ungt fólk í félagasamtökum með því að:

  • Veita ungu fólki nauðsynleg verkfæri og hagnýta fræðslu til að þekkja, æfa, vernda og efla eigin réttindi.
  • Virkja mannauðinn innan aðildarfélögum LUF og veita þeim stuðning í hagsmunastarfi, nýsköpun og láta hugmyndir verða að veruleika.
  • Auka starfshæfni og atvinnumöguleika ungs fólks með því að skapa tækifæri til þess að meta/viðurkenna óformlegt nám og stuðla að því að félagsstarf verði metið að verðleikum í námi og starfi.
  • Hvetja til samstarfs aðildarfélaga, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja virkni smærri félaga sem stríða við auðlindaskort.
  • Vera vettvangur fyrir ungt fólk utan félagasamtaka sem vill kynna sér starf ungmennafélaga og hvetja þá einstaklinga til að taka þátt í sjálfboðastarfi.

Skólinn er hugsaður fyrir ungt fólk á aldrinum 16-35 ára sem sitja í stjórnum félagasamtaka, sjálfboðaliða og aðra áhugasama félagsmenn. Færri komast að en vilja, því verða þátttakendur valdir þannig að þeir endurspegli sem flest aðildarfélög LUF sem og út frá aldri, kynjahlutfalli, áhuga, vilja til að læra og stöðu til að miðla þekkingunni áfram.

Þeir þátttakendur sem komast inn í skólann skuldbinda sig til þess að vinna verkefni í tengslum við innleiðingu Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í ungmennastarfi, sem er þema skólans árið 2023. Litið verður á leiðtogahlutverk og/eða reynslu af ungmenna- og hagsmunastarfi sem kost.

Skólagjöld skólans árið 2023 er 79.000kr
(innifalið eru námsgögn auk matar og drykkja á meðan skólanum stendur)

Skólinn er meðlimum aðildarfélaga LUF að kostnaðarlausu

Skráning fer fram hér.