Fyrir 26 árum síðan gaf sænska hljómsveitin Aqua út lagið “Barbie Girl” og sungu um stórkostlegt líf í plasti. Síðastliðin ár hefur neysla og framleiðsla á plasti stóraukist og hefur meira en helmingur alls plast í heiminum verið framleitt eftir árið 2005. Ef við fylgjum áframhaldandi þróun verður hlutfall plast í sjónum hærra en hlutfall fiska árið 2050. Í dag 22. Apríl fögnum við Alþjóðlegum degi jarðar en í ár er hann helgaður vitundarvakningu um plast og skaðleg áhrif þess á umhverfið. En er plastlífið virkilega svo frábært?

Frá jarðefnaeldsneyti til plasts
Þegar talað er um plastmengun koma fyrst upp í hugann ljósmyndir af dýrum sem fest hafa í plastrusli eða flöskur í flæðarmáli. En plastmengun teygir anga sína víðar og hún byrjar við sjálfa framleiðslu efnisins. Plast veldur losun gróðurhúsalofttegunda á öllu æviskeiði sínu, frá vinnslu jarðefnaeldsneytis til orku- og losunarfrekrar framleiðslu sjálfs plastsins. Ef framleiðsla og notkun plasts heldur áfram að aukast eins og spáð er mun plastiðnaðurinn nema 20% af alþjóðlegri olíunotkun árið 2050 sem er töluverð aukning frá þeim 7% sem hún er í dag. Skaðleg áhrif plast ná ekki einungis til umhverfisins heldur teygja þau anga sína til allra lífvera, eyðileggur vistkerfi og er skaðlegt heilsu okkar.

Hringrásarhagkerfið
Áskoranir sem fylgja ofnotkun á plasti má að miklu leyti rekja til óvaranlegra framleiðslu- og neyslukerfa okkar. COVID-19 faraldurinn og loftslagsbreytingar hafa beint aukinni athygli almennings að þeim vandamálum sem við blasa vegna plastúrgangs. Aukin tækifæri felast því í innleiðingu hringrásarhagkerfis en í því felst að gera kleift að endurnýta efni og vörur svo þau endist lengur svo ekki þurfi að vinna á hráefni í eins miklu magni. Með frekari lagasetningu um notkun skaðlegra hráefna við framleiðslu mun eftirspurn eftir vörum sem styðjast við hringrásarhagkerfið aukast. Er því mikilvægt að stjórnvöld, almenningur og fyrirtæki vinni saman að því að að innleiða hringrásarhagkerfi með aukinni nýsköpun í framleiðslu, verslun og innan samfélagsins.

60X40 – ákall um 60% samdrátt í framleiðslu

Í tilefni dagsins hefur earthday.org birt ákall sitt um 60% samdrátt í framleiðslu á plasti fyrir árið 2040 svo hægt sé að draga úr óafturkræfum áhrifum plasts á jörðina. Nær það markmið lengra en reglugerð Evrópusambandsins sem stefnir að samdrætti um 15% á sama tímabili. Við þurfum að taka þátt í baráttunni gegn plasti með því að stuðla að hraðari innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi og breyta neyslumynstri okkar í þágu umhverfisins. Lífi Barbie í plasti er kannski stórkostlegt, en er kostnaðurinn raunverulega þess virði?

Unnur Þórdís Kristinsdóttir
Höfundur er Ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðanna á sviði Loftlagsmála