Landssamband ungmennafélaga (LUF) í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi auglýsir eftir framboðum ungs fólks á aldrinum 18-25 ára til að gegna stöðu ungmennafulltrúa Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Kjörið verður í stöður tveggja ungmennafulltrúa, annars vegar á sviði sjálfbærrar þróunar og hins vegar á sviði barna og ungmenna. Fer kjörið fram á Farsældarþingi ungs fólks – 2. leiðtogaráðsfundi LUF 2023, þann 24. nóvember, á Center Hotels Plaza.

Svið sjálfbærrar þróunar
Ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar (e. United Nations Youth Delegate of Iceland on Sustainable Development) kemur með til að sækja og taka þátt í störfum ráðherrafundar Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF 2024)) sem fer fram dagana 15. – 17. júlí í New York. Kemur fulltrúinn með að tilheyra sendinefnd íslenskra stjórnvalda á viðburðinum, í umboði ungs fólks á Íslandi og tekur þátt í undirbúningsvinnu við viðburðinn auk þess að sitja í nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda. Samstarfsráðuneyti sviðsins er forsætisráðuneytið.

Svið barna og ungmenna
Kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði barna og ungmenna (e. United Nations Youth Delegate of Iceland for Children and Youth) kemur með að sækja og taka þátt í störfum og sækja fund ungmennavettvangs efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (e. The Economic and Social Council (ECOSOC) Youth Forum)) 16.-18. apríl í New York. Samstarfsráðuneyti sviðsins er mennta- og barnamálaráðuneytið.

Ungmennafulltrúar Sameinuðu þjóðanna
Ungmennafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF, starfa í umboði þeirra og allra þeirra meðlima og vinna út frá þeirri stefnu sem þau móta á vettvangi LUF. Fulltrúar gegna embættinu í tvö ár, fyrra árið sem “junior” fulltrúi og seinna árið sem “senior” fulltrúi. Allir ungmennafulltrúar sitja í Sendinefnd LUF til Sameinuðu þjóðanna. Sendinefndin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme). Verkefnið er unnið í samstarfi við Félags- og vinnumálaráðuneytið, forsætisráðuneytið, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið og menningar- og viðskiptaráðuneytið.

Hæfniskröfur:

  1. Umboð frá aðildarfélagi LUF.
  2. Vera á aldrinum 18 – 25 ára.
  3. Hafa þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  4. Hafa reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga.
  5. Búa yfir leiðtogahæfni og frumkvæði.
  6. Hafa vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.
  7. Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur.
  8. Hafa tök á að skuldbinda sig hlutverkinu til tveggja ára með virkri þátttöku í starfi LUF.

Tilnefningarfrestur aðildarfélaga er til og með 17. nóvember (viku fyrir 2. leiðtogaráðsfund LUF 2023, sem haldinn verður á Center Hotels Plaza, 24. apríl kl. 16:30.)

Hvernig býð ég mig fram?
Öll aðildarfélög LUF (með fulla aðild og áheyrnaraðild) geta boðið fram einn fulltrúa. Áhugasamir félagsmenn aðildarfélaga LUF þurfa því að óska eftir umboði frá stjórn viðkomandi félags. Stjórnin tilkynnir framboð með því að fylla út skráningarform, sem öll aðildarfélög koma til með að fá sent í fundarboði. Með umboði staðfestir stjórn að frambjóðandinn uppfylli ofantaldar hæfniskröfur.

Embættin er sjálfboðastarf, að dagpeningum erlendis undanskildum.