Í umsögn Landssambands ungmennafélaga (LUF) um frumvarp Alþingis til fjárlaga er gerð grein fyrir hættulegum niðurskurð á fjárútlátum stjórnvalda til ungmennafélaga. LUF telur afleiðingar geta orðið afar slæmar, sérstaklega á tímum sem þessum.
LUF hefur skilað til Alþingis umsögn um fjárlög 2021 og fjármálaætlun 2021-2025. Í umsögn sinni gerir LUF eftirfarandi athugasemd við niðurskurðinn og leggur fram tillögu að úrbótum:
Hættulegur niðurskurður
Ef litið er til málefnasviðs 18 í fjárlögum: Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál má sjá að fjárframlög til málefnasviðsins hækka frá fyrri fjárlögum, eða um 14,7% frá ríkisreikningi 2019 og 8,7% frá fjárlögum 2020. Rennur sú hækkun alfarið til liða 18.1 Safnamál, 18.2 Menningarstofnanir og 18.3 Menningarsjóðir, en aftur á móti lækka framlög til liðar 18.4 íþrótta- og æskulýðsmál um sem nemur 1,6% frá ríkisreikningi 2019 og 1,2% frá fjárlögum 2020. Þessi breyting á sér stað á sama tíma og félagasamtök innan málaflokksins sem sinna ýmiss konar þjónustu fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa bent á að bæta þurfi fjármögnunarumhverfi málaflokksins og jafna fjárúthlutanir til einstakra félaga, svo ráðuneytið geti staðið undir skuldbindingum sínum. Málaflokkurinn má ekki við skerðingum sem þessum, hvað þá á tíma sem þessum. Telur LUF þessa skerðingu ekki standast þær skuldbindingar sem hvíla á stjórnvöldum gagnvart ungu fólki hér á landi.
Í því árferði sem nú gengur yfir heimsbyggðina er enn meiri hætta á að börn og ungt fólk upplifi félagslega einangrun sem kemur jafnframt verst niður á jaðarsettum hópum. LUF telur einsýnt að grípa þurfi til aðgerða til að vernda þennan hóp sérstaklega og ná til hans með öflugu félagsstarfi, að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem samfélagið býr við og stuðla að sem eðlilegustum félagsþroska ungs fólks. Með þessu má sporna við þeim ömurlegu og kostnaðarsömu samfélagslegu afleiðingum sem félagsleg einangrun ungs fólks kemur til með að hafa til frambúðar.
Tillaga LUF til úrbóta
Hverfa frá niðurskurði til 18.4 Íþrótta- og æskulýðsmála. Tryggja málaflokknum nægjanlegt fjármagn í samræmi við þarfir svo stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar gagnvart börnum og ungu fólki.