Landssamband ungmennafélaga (LUF) hlaut í dag viðurkenningu Landssamtaka Þroskahjálpar, Múrbrjótinn. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks. Viðurkenning var afhentur við hátíðlega athöfn, í beinu streymi á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks þann 3. desember.

Í umsögn Þroskahjálpar segir að LUF hljóti Múrbrjótinn í ár fyrir mikilvægt samstarf við ungmennaráð Þroskahjálpar og framlag í þágu margbreytileika og jafnra tækifæra fyrir ungt fólk. „Í vikunni eftir að ungmennaráð Þroskahjálpar var stofnað hafði LUF samband og buðu ráðinu að sækja um aðild að sambandinu, enda töldu þau mikilvægt að sá hópur sem heldur uppi starfsemi ungmennaráðsins ætti fulltrúa í LUF sem mundi þannig endurspegla fjölbreytileika mannlífsins betur,“ segir í umsögninni. 

Á sambandsþingi LUF í febrúar fyrr á þessu ári hlaut Ungmennaráð Þroskahjálpar áheyrnaraðild að sambandinu og þar með sæti í Leiðtogaráði LUF. Aðild þeirra hefur tvímælalaust styrkt málstað LUF með mikilvægri sérþekkingu á réttindum, hagsmunum og baráttumálum fatlaðra. Á sambandsþingi LUF benti Sunna Dögg Ágústsdóttir, fulltrúi ungmennaráðsins, til að mynda á hvernig vinna skal að jafnrétti með því að taka tillit til ólíkra þarfa: „jafnrétti snýst ekki um að allir fái það sama heldur að um að mæta mismunandi þörfum til að allir geta notið sömu tækifæra.” 

Múrbrjótur að hlustað sé á ungt fólk

Í umsögn Þroskahjálpar segir jafnframt að ungmenni ráðsins hafi hlotið góðar viðtökur hjá LUF og að samstarfið við leiðtogaráðið hafi verið afar gott. „Fulltrúar ungmennaráðsins hafa verið sérstaklega ánæðir með samstarfið og hversu opnir aðrir fulltrúar LUF hafa verið fyrir hugmyndum og ábendingum um hvernig tryggja eigi að fjölbreyttastar raddir fái að heyrast, tillit sé tekið til ólíkra þarfa, þar sem allir njóti verðleika og réttinda sinna.“

Geir Finnsson, varaforseti LUF, og Tinna Isebarn, framkvæmdarstjóri LUF tóku við verðlaununum. „ Við erum djúpt snortin fyrir þessa afskaplega fallegu og góðu viðurkenningu á starfi okkar í LUF. Samstarfið með ungmennaráði Þroskahjálpar er búið að vera afar farsælt og við erum búin að læra mjög mikið. En að sama skapi vil ég benda á að þegar við fengum þær fregnir að við hlytum þess viðurkenningu, Múrbrjót, veltum við fyrir okkur hvaða merkingu það hefði: Að það eitt að bjóða ungu fólki að sitja við sama borð og aðrir og að á þau sé hlustað sé múrbrjótur. Það segir okkur margt,“ segir Geir. 

„,Þetta sýnir hvað það er afskaplega mikilvægt að hlusta hvort á annað. Ég held að við getum áorkað heilmiklu með því,“ sagði hann að lokum. 

Tinna Isebarn, sendi sérstakar þakkir til Sunnu Daggar Ágústsdóttur sem situr í leiðtogaráði LUF. „Sunna Dögg á mikið í þessari viðurkenningu og við viljum þakka henni fyrir ótrúlega gott samstarf. Viðurkenningin er rosalega mikill heiður fyrir félag eins og okkur sem hvetur LUF til að gera enn betur.“

Sjónarhorn fatlaðra nauðsynleg innan LUF

Ungmennaráð Þroskahjálpar ásamt Sigurði Helga, lögfræðing LUF á sambandsþingi LUF 2020.

Viðurkenningin er mikill styrkur fyrir LUF sem samráðs- og samstarfsvettvangur ungmennafélaga og málsvari ungs fólks gagnvart íslenskum stjórnvöldum. LUF berst fyrir jafnrétti og raunverulegri þátttöku ungs fólks í samfélaginu, m.a. með því að vinna markvisst að auknu samráði stjórnvalda við ungt fólk. Þá leggur LUF áhreslu á að ólík sjónarmið komist að innan vettvangsins en aðildarfélög LUF eru 36 talsins með yfir 50 þúsund félagsmenn. Innan raða félaganna er fjölbreytt flóra ungra sérfræðinga, þar má nefna fulltrúa hagsmunasamtaka nema, geðfræðislufélög, ungra innflytjenda og ungs fatlað fólk.

Þá eru verðlaunin ekki síst staðfesting á árangri sem LUF hefur náð þegar kemur að réttindum ungs fólks, en í stefnu LUF segir um félagslega samlögun: „LUF aðhyllist fjölmenningarhyggju, beitir sér í félagslegri samlögun og vinnur að því að vernda réttindi og efla þátttöku jaðar- og minnihlutahópa. LUF fordæmir hatursorðræðu og hvers konar mismunun fólks byggða á kynferði, kynhneigð, kyntjáningu, trúarbrögðum, skoðunum, tungumáls, þjóðernisuppruna, fötlunar, örorku, aldurs, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti. LUF setur það sem skilyrði að allir hópar sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu hafi rödd innan alls starfs sem tengist þeirra málaflokki. Ekkert skal framkvæma eða ákveða án þeirra samráðs.“ 

Verðlaunin voru nú afhent í 22. skiptið. Verðlaunagripurinn er smíðaður á handverkstæðinu Ásgarði og er táknrænn fyrir Múrbrjótinn: „múrar eru brotnir eða í þá eru gerð skörð og búin til leið til að halda áfram vegferð.“

Stjórn LUF þakkar Landssamtökum Þroskahjálpar fyrir mikilvæga viðurkenninguna og hlakkar til áframhaldandi samstarfs.