Landssamband ungmennafélaga (LUF) kallar hér með eftir tilnefningum frá aðildarfélögunum til „Félaga ársins 2021“. Þann 5. desember næstkomandi veitir LUF í fjórða sinn félagsmönnum viðurkenningar fyrir óeigingjarnt sjálfboðastarf innan aðildarfélaga LUF. Félagi ársins er hvatningarviðburður þar sem aðildarfélögin fá tækifæri til þess að velja framúrskarandi félaga sem þau vilja umbuna fyrir vel unnin störf. Valnefnd fer yfir tilnefningar og mun sá einstaklingur sem hefur á árinu 2021 tekið óeigingjarna forystu og sýnt alúð í starfi innan ungmennageirans hljóta nafnbótina „Félagi ársins 2021“. Allir sem hljóta tilnefningu taka við viðurkenningu þess efnis og fær Félagi ársins 2021 afhentan farandbikar.

Hvert aðildarfélag getur tilnefnt einn einstakling til Félaga ársins 2021 og hvetur LUF öll aðildarfélög sín til þess að senda inn tilnefningu ásamt rökstuðningi hér. Frestur til þess að tilnefna Félaga ársins er eigi síðar en miðvikudaginn 1. desember 2021

Í valnefnd sitja:

  • Inga Auðbjörg Straumland, fyrrverandi forseti LUF
  • Geir Finnsson, Oddviti Leiðtogaráðs LUF
  • Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri LUF

„Félagi ársins“ fer fram á degi sjálfboðaliðans í Lestrarsal Safnahússins en athöfninni verður einnig streymt á samfélagsmiðlum LUF. Tilgangur viðburðarins er að hvetja ungt fólk í sjálfboðastarfi til dáða, en ekki síður að kynna ungmennastarfsemi fyrir almenningi með því að varpa ljósi á vel unnin störf innan ungmennafélaga á Íslandi. Boðið verður upp á léttar veitingar að lokinni athöfn. 

Þrátt fyrir að viðurkenningin hafi einungis verið veitt þrisvar sinnum hefur skapast mikil virðing fyrir titlinum og áhuginn fyrir viðburðinum reynst umtalsverður. Í ljósi þess ætlar stjórn LUF að gera viðburðinum hærra undir höfði með því að halda hann á degi sjálfboðaliðans. Sé það framlag LUF til þess að vekja athygli á degi sjálfboðaliðans og fyrir hvað hann stendur.