LUF og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hafa undirritað samstarfssamning um formlegt samstarf stjórnvalda við ungmenni í vinnu félagsmálaráðuneytisins sem lýtur að málefnum barna og ungmenna.
Samningurinn er tímabundinn, eða til 31. maí, en með honum er gert ráð fyrir samráði ráðherra við LUF í tengslum við yfirstandandi vinnu ráðuneytisins við endurskoðun á þjónustu stjórnvalda við börn og ungmenni. Með samstarfinu er ætlunin að tryggja aðkomu ungs fólks að málum sem þau varða og verður það m.a. gert með reglulegum fundum LUF og félags- og barnamálaráðherra. Þá er gert ráð fyrir að LUF verði ráðherra til ráðgjafar með rýni á lagafrumvörpum og öðrum málum. Þar að auki er LUF falið að móta tillögur til ráðherra um aðferðir til að auka samráð stjórnvalda við ungt fólk til frambúðar.
Una Hildardóttir, formaður LUF, segir stjórn LUF fagna þessum samstarfsvilja mjög: „Við höfum lengi barist fyrir aukinni aðkomu ungs fólks að stefnumótun stjórnvalda með virku og raunverulegu samráði. Formlegt samstarf sem þetta er því mikil viðurkenning fyrir okkur. Við höfum alla umgjörð til staðar með fjölmörgum öflugum aðildarfélögum og liggur því beinast við að nýta þann mikla kraft sem býr í félaginu og félagsmönnum þess. Stjórn LUF hlakkar mikið til samstarfsins og höfum við væntingar til þess að það skili sér í miklum umbótum fyrir samfélagið í heild.“