Á stjórnarfundi LUF, miðvikudaginn 11. janúar, afgreiddi stjórn umsókn Ungliðahreyfingar Íslandsdeildar Amnesty International um áheyrnaraðild að LUF. Stjórn samþykkti umsókn félagsins samhljóma. Eru aðildarfélög LUF því alls orðin 41 talsins.
Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International
Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International er félagsskapur ungra mannréttindasinna á aldrinum 15-25 ára. Hlutverk ungliðahreyfingarinnar er að vekja athygli á mannréttindum og mannréttindabrotum um heim allan í gegnum aðgerðastarf.
Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International var stofnuð í mars árið 2012. Hreyfingin hefur frá fyrstu dögum haft það að leiðarljósi að vekja athygli á mannréttindamálum í víðu samhengi. Þá er Ungliðahreyfingin er einn helsti kjarni í aðgerðarstarfi Íslandsdeildar Amnesty International víða um land. Stjórnina skipa 7 ungir einstaklingar á aldrinum 16-25 ára og er kosið árlega í stjórn.
Markmið ungliðahreyfingarinnar eru:
- Vekja athygli á mannréttindum í gegnum margvíslega viðburði
- Standa vörð um mannréttindi þeirra sem hafa veika rödd – hérlendis og erlendis
- Skipuleggja viðburði og aðgerðir sem styðja við starf Íslandsdeildarinnar
- Standa fyrir jafningjafræðslu út frá herferðum samtakanna
- Halda úti virku og áhugaverðu aðgerðastarfi fyrir ungmenni
- Taka þátt í alþjóðastarfi Amnesty International með ungu fólki frá öðrum löndum
- Læra af öðrum og þekkingu þeirra
Ungliðahreyfingin er opin öllum áhugasömum ungmennum sem vilja taka þátt í að móta aðgerðastarf, skipuleggja viðburði og hjálpa til við að bera út boðskap mannréttinda. Fundir ungliðahreyfingarinnar eru 1-2 í mánuði og taka þau við öllum nýliðum fagnandi.
Nánari upplýsingar um Ungliðahreyfinguna má nálgast hér: https://www.amnesty.is/starfid-okkar/unglidahreyfing/
Þar má einnig finna skráningarform í hreyfinguna, en það er opið öllum áhugasömum einstaklingum á aldrinum 15-25 ára.
Regnhlíf LUF stækkar
Stjórn LUF fagnar því að fleiri öflug og fjölbreytt félög ungs fólks hafi bæst undir regnhlíf félagsins. Félagið kemur til með að bæta enn frekar fjölbreytta flóru aðildarfélaga sem vinna að bættum lífsgæðum og skilyrðum ungs fólks.
LUF er regnhlífasamtök frjálsra félagasamtaka ungs fólks á Íslandi og þeim tilheyra 41 aðildarfélög. LUF er þverpólitískur samstarfs- og samráðsvettvangur, málsvari ungs fólks gagnvart íslenskum stjórnvöldum og talar fyrir hagsmunum ungra Íslendinga á alþjóðavettvangi.
Nánari upplýsingar um aðildarskilyrði og umsóknir um aðild má nálgast hér: https://luf.is/um-luf/adildarumsokn/