Framhaldsskólanemendur ganga til kosninga í skuggakosningum þann 9. september næstkomandi. Þetta er í fjórða sinn sem skuggakosningar fara fram hér á landi, en aldrei hafa jafn margir skólar verið skráðir til leiks. Á kjörskrá verða 13.265 nemendur úr 26 framhaldsskólum sem ekki höfðu aldur til að kjósa í síðustu alþingiskosningum. Þeir sem eru að kjósa í fyrsta sinn til Alþingis verða þannig betur undirbúnir til að kjósa fyrir alvöru. Einnig koma þeir sem ekki hafa náð kosningaaldri til með að segja sína skoðun.
Skuggakosningar í framhaldsskólum er liður í lýðræðisherferðinni #ÉgKýs sem Landssamband ungmennafélaga (LUF) stendur fyrir í samstarfi við Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF). Markmið #ÉgKýs er að efla lýðræðisvitund og hvetja ungt fólk til að kjósa eftir upplýstri ákvörðun í von um að kosningaþátttaka aukist.
Merki um aukna kosningaþátttöku
Dræm kosningaþátttaka ungs fólks hefur verið áhyggjuefni undanfarna áratugi og er verkefninu m.a. ætlað að sporna við þeirri þróun. Kosningaþátttaka ungs fólks jókst í öllum aldurshópum í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Kosningaþátttaka jókst einnig í öllum aldurshópum á milli alþingiskosninganna 2016 og 2017, en mest hjá yngstu kjósendunum eða um 9,5%. Þetta eru góðar vísbendingar um árangur #ÉgKýs og nú vitum við að þrátt fyrir að kosningaþátttaka sé enn almennt minni hjá yngri aldurshópum er þátttaka ungs fólks þó að aukast.
#ÉgKýs ýtt úr vör í dag
Til að hefja umræðuna og ýta verkefninu úr vör verður staðið fyrir lýðræðishátíð á Fundi fólksins í Norræna húsinu síðar í dag, þann 3. september. Þar verður staðið fyrir Pólitísku partýi. Ungum fulltrúum framboðsflokkanna er boðið í pallborð til samtals við ungt fólk í aðdraganda kosninga. Auk þess verður staðið fyrir Samtali kynslóðanna í samstarfi við Landssamband eldri borgara.
Lýðræðisvikan í framhaldsskólum hefst mánudaginn 6. september og endar á skuggakosningum 9. september. Þá eru kennarar hvattir til að leggja fyrir lýðræðistengd verkefni og stuðla að stjórnmálaumræðu í kennslustundum. Vikan er mikilvægur liður í því að nemendur kynni sér stefnumál flokkanna og verði sem best í stakk búnir til að taka upplýsta ákvörðun í kjörklefanum. Nemendur eru hvattir til að skipuleggja viðburði og bjóða framboðsflokkunum í heimsókn. Gert er ráð fyrir að hver þátttökuskóli skipuleggi og útfæri sína lýðræðisviku eftir aðstæðum, getu og nemendafjölda.
Hverja kýs unga kynslóðin á þing?
Netherferðin #ÉgKýs mun stigmagnast eftir því sem nær dregur kjördag, hvatt er til upplýstrar umræðu og er almenningur hvattur til að nota myllumerkið #ÉgKýs á samfélagsmiðlum. Niðurstöður skuggakosninga í framhaldsskólum verða ekki gerðar opinberar fyrr en öllum kjörstöðum hefur verið lokað á kjördag þann 25. september.
Tinna Isebarn framkvæmdastjóri LUF fer fyrir stýrihópi #ÉgKýs sem stýrir framkvæmd verkefnisins. Verkefnið er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg og Eimskip flytjanda. Verkefnið er samstarf margra hagsmunaaðila sem koma að því með einum eða öðrum hætti: Til að mynda Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Hitt húsið – Miðstöð ungs fólks, aðildarfélög LUF og SÍF, stjórnmálaflokkarnir og ungliðahreyfingar þeirra.