Ungmennaráðstefnan Hafið fór fram föstudaginn síðastliðin þar sem ungmenni frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Noregi komu saman í Norræna húsinu í Reykjavík. Rúmlega 30 ungmenni tóku þátt í vinnustofu þar sem þau ræddu kröfur sínar og hugmyndir um varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa heimsins. Markmiðið er að koma röddum þeirra á framfæri í setningu nýrra alþjóðamarkmiða innan Sameinu Þjóðanna sem samþykkt verða í október árið 2020. 

NORA samstarfið stykti ráðstefnuna.

Ferðavenjur eyjaskeggja

Ólík sjónarhorn komu af stað áhugaverðum umræðum. Við heyrðum meðal annars um sjaldgæfar fuglategundir í Færeyjum í útrýmingarhættu og um útrýmingu mannsins á kaldkóralrif sem eitt sinn voru algeng í vistkerfi hafsins á Norðurslóðum. Rætt var um ferðakosti ungs fólks við Norður-Atlantshafið og kom í ljós að í Noregi er oftast dýrara að ferðast með umhverfisvænum kostum. Í Grænlandi er hins vegar valið minna og oft eina leiðin til að ferðast milli bæja með skipi eða flugvél. Hugmyndir kviknuðu um að á næstu ráðstefnu myndu vestnorrænu ungmennin ferðast til og frá ráðstefnustað með skipi.

Allt líf hluti af hringrásinni

Á vinnustofunni unni ungmennin með sérstaka verkfærakistu sem þróuð var af Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði í samstarfi við ungt fólk á svæðinu. Elva Hrönn Hjartardóttir, einn skipuleggjandi ráðstefnunnar, opnaði vinnustofuna. „Allt lifandi, hvort sem það eru manneskjur, plöntur, tré, kórallarnir í sjónum eða bakteríur, skapa líffræðilegan fjölbreytileika. Hvert líf gegnir sínu hlutverki í hringrás lífsins og er framtíð okkar, mannkynsins, meðal þess sem er í húfi ef við höldum áfram að tapa hlutum úr hringrásinni.” sagði hún meðal annars.

Á vinnustofunni ræddu ungmennikröfur og hugmyndir sínar um ný alþjóðamarkmið fyrir náttúru og fólk og hvernig væri unnt að gera samninga sem ólík lönd geta framfylgt. Þátttakendur fræddust um lífið sem er í húfi og ræddu hver ábyrgð ungs fólks væri. Rætt var um samspil tap líffræðilegs fjölbreytileika og hamfarahlýnunar sem ógnar öllu lífi á jörðinni og ungmennin settu fram kröfur um heimsmarkmiðin til stjórnmálamanna.

Meiri menntun og óvissa hafsins

Eftir vinnustofuna opnaði sveitin Vísur og Skvísur húsið með sameiginlegum menningararfi okkar, vísnasöng. Þær léku sér með ólík tungumál Norðursins og lýstu yfir sorg sinni yfir því að nágrannaþjóðirnar gætu ekki átt í samskipum á samnorrænum málum, sem að þeirra sögn sé án nokkurs vafa unglingshormónum Íslendinga að kenna.

 

Að lokum voru pallborðsumræður þar sem unga fólkið fékk tækifæri til að ræða við sérfræðinga, aðgerðarsinna og stjórnmálamenn. Þar var meðal annars spurt um aðgerðir til verndunar þess hluta hafsins sem ekki er innan landhelgi þess svæðis sem lönd eiga að vernda. Rætt var um mikilvægi menntunar í málefninu, og kom í ljós að Hafdís Hanna, þátttakandi í pallborði var nýbúin að halda fræðslu fyrir líffræðikennara um innleiðingu líffræðilegs fjölbreytileika í námsefni og Pétur Hallgrímsson, benti á átak Ungra umhverfissinna sem fara í grunnskóla landsins og kynna málefnið. Ljóst var þó að vitundarvakning skildi eftir sig fleiri spurningar en svör.

Í pallborði voru Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Umhverfis- og auðlindaráðherra en síðan tók Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður og fulltrúi í Norðurlandaráði við, Hafdís Hanna Ægisdóttir, plöntuvistfræðingur og forstöðumaður Landgræðsluskólans, Elva Hrönn Hjartardóttir, ungmennafulltrúi Norðurlanda á sviði líffræðilegrar fjölbreytni,Pétur Halldórsson, formaður Ungra umhverfissinna og Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum og Náttúruminjasafns Íslands.

Mikilvæg tengsl nágranna

Sérstakar þakkir til NORA, Norður-Atlantssamstarfsins, sem gerði ungmennunum kleift að koma saman, fræðast um mikilvæg málefni og umfram allt mynda tengsl við nágranna sína í Norður-Atlandshafi.

Við þökkum öllum þátttakendum, hópstjórum og aðstandednum sem komu að vinnustofunni eða fylgdust með beinu streymi. Að lokum þökkum við Norræna húsinu fyrir mikilvægan stuðning í efla tengslanet vestnorrænna ungmenna.