Project Description

Félagasamtök telst hópur fólks (tveir eða fleiri) sem vinnur að sameiginlegum markmiðum og starfar án hagnaðarsjónarmiða og án afskipta stjórnvalda. Lög um frjálsa félagsaðild á Íslandi gerir öllum kleift að stofna félög og jafnframt ganga í og úr þeim félögum sem þeir kjósa. Til að stofna félag skal halda stofnfund þar sem öll helstu markmið félagsins eru kynnt.

Ef félag hyggst stunda einhverskonar fjárhagslega starfsemi, svo sem sækja um styrki, stofna til viðskiptasamnings eða ráða starfsmenn er nauðsynlegt að skrá félagið löglega

Dæmi um félagasamtök:

  • Ungmennafélög

  • Stjórnmálaflokkar

  • Stéttarfélög

  • Íþróttafélög

  • Mannúðarfélög

  • Menningarfélög

Til að skrá félag þarf:

Fyrsta skref við stofnun félags er að halda stofnfund og þeir sem sækja fundinn teljast stofnendur félagsins.

Til að skrá félagið þarf að fylla út: Umsókn um skráningu félagasamtaka

Á stofnfundi skulu stofnendur kjósa stjórn sem starfar í umboði félagsmanna og vinnur fyrir hagsmunum þeirra. Stjórnir geta verið jafnt fámennar sem fjölmennar en skulu a.m.k. skipa formann, gjaldkera og meðstjórnanda. Í frjálsum félagasamtökum er yfirleitt kjörinn ritari, varaformaður, meðstjórnendur, og (ef á við) varamenn. Samkvæmt reglum fyrirtækjaskrár er ekki hægt að skrá stjórnarmenn undir 18 ára. Síðastliðin ár hefur Landssamband ungmennafélaga barist fyrir jafnrétti til stjórnarsetu fyrir ungmenni óháð aldri og er von félagsins sú að reglum verði breytt til að tryggt sé að lögum um frjálsa félagsaðild sé framfylgt fyrir alla aldurshópa.

Hafa ber í huga að hver og einn stjórnarmaður ber löglega ábyrgð á starfsemi félagins, þ.m.t. refsiábyrgð ef lögbrot er framið.

Fylla þarf út: Eyðublað til að tilkynna breytingu á stjórn/prókúru félagasamtaka

Sjá nánar um stjórn í kaflanum: Hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna

Í öllum stjórnum þarf að velja prókúruhafa sem fer með fjárhagslegt vald félagsins, hefur lögaðgang að bankareikningi þess og hefur heimild til að skuldbinda félagið fjárhagslega. Yfirleitt eru prókúruhafar: stjórnarformaður, gjaldkeri og (ef við á) framkvæmdarstjóri. Æskilegt er að hafa fleiri en einn prókúruhafa, jafnt til að dreifa ábyrgð og til að sinna eftirliti. Prókúruhafar þurfa að vera fjárráða, orðnir 18 ára gamlir.

Fylla þarf út: Eyðublað til að tilkynna breytingu á stjórn/prókúru félagasamtaka

Sjá nánar um ábyrgð gjaldkera í kaflanum: Hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna .

Á stofnfundi skal leggja fram tillögu að lögum félagsins sem meirihluti fundagesta þarf að samþykkja. Lögin eru kölluð samþykktir sem nýkjörin stjórn skal skrifa undir og skila samþykktunum inn með umsókn félagsins hjá fyrirtækjaskrá.

Dæmi um samþykktir hjá skattinum: Sýnishorn af samþykktum fyrir félagasamtök

Sjá nánar í kaflanum: Lög félagasamtka

Samkvæmt reglum um skráningu eignarhald félaga þarf að tilkynna „raunverulega eigendur,” allra félaga. Þetta eru lagabreytingar sem tóku í gildi í byrjun árs 2020 eftir að Ísland var sett á gráan lista ríkja vegna peningaþvættis.

Lögin fela í sér að ríkið hafi yfirsýn yfir hverjir fara „raunverulega” með fjárhagslega stjórn félaga og fyrirtækja í landinu. Í tilfelli frjálsra félagasamtaka, þar sem ekki eru eiginlegir eigendur, skal skrá þá sem fara með „raunverulega” fjárhagslega stjórn félags. Það eru þeir aðilar sem eru prókúruhafar eða þeir sem fara með stjórn félagsins, t.d. er hægt að skrá formann, gjaldkera og framkvæmdarstjóra eða stjórnina alla.

Tilkynna þarf „raunverulega eigendur” til ríkisskattstjóra og staðfesta með veflykli.

Sjá nánar á síðu skattsins: Tilkynning um raunverulega eigendur

Til þess að stofna félag þarf að safna saman löglegum gögnum og senda inn á fyrirtækjaskrá.
Skannað eintak af stofngögnum skal senda á netfangið: fyrirtaekjaskra@skatturinn.is. 

Skráningagjald er 5.000 krónur, miðað við verðskrá 2020.

Deila verkfæri

Meira úr verkfærakistunni