Project Description

Þegar umfang félags er orðið þess eðlis að fjármagn þarf í rekstur þess, s.s. vegna ráðningu starfsmanna og viðburðarhalds eru nokkrar leiðir til fjáröflunar.

Mikilvægasta auðlind félagasamtaka eru sjálfboðaliðar þess sem er jafnframt forsenda þess að félag haldi úti starfssemi. Æskilegt er að huga að aga í fjármálum félaga frá upphafi, hafa skýr markmið, raunsæjar fjárhagsáætlanir og halda skipulagt bókhald. 

Styrktarmöguleikar fyrir ungt fólk á Íslandi eru þónokkrir. Hafa skal þó í huga að mikil samkeppni ríkir um styrki og margir hafa sérstakar kröfur, t.d. krefjast mótframlags og/eða mikillar þekkingu og getu. Hér að neðan er hægt að finna helstu upplýsingar um styrktarsjóði á Íslandi.

Kveðið skal á í lögum hvort félagar þurfi að greiða félagsgjald og hvernig því sé háttað, t.d. árlega eða mánaðarlega. Félög sem veita einhverskonar þjónustu rukka stundum félagsgjöld, s.s. hagsmunagæslu, ráðgjöf, afsláttakjör o.fl.

Fyrirtæki sem gefa til góðgerðarmála hafa hlekk á heimasíðu sinni fyrir styrki. LUF mælir með því að leita til einkageirans þegar halda á viðburði og ráðstefnur og fá styrk í formi, matar, drykkja, húsnæðis o.s.frv. 

Félagasamtök skulu nýta sér styrki til að efla starfsemi sína og þá hugsjón sem félagið vinnur að. Mikilvægt er að kanna kröfur styrkveitenda, hvort sem það er sjóður eða einkaðili, og meta hvort félagið geti mætt kröfunum. Félag skal alltaf viðhalda sjálfstæði sínu og varast allan pólitískan þrýsting sem stundum fylgir fjármagni.

Gott er að hafa óska eftir afslætti við nauðsynleg vörukaup og í staðin er t.d. hægt að auglýsa fyrirtækið á viðburðinum eða á heimasíðu félagsins ef um stærri styrki er að ræða.

Til dæmis símhringarátak. 

Mörg félög óska eftir rekstrarsamning við ráðnuneyti til að tryggja stöðugan reksturs félagsins. Ef félag stendur fyrir virku starfi sem þjónar samfélagslegum tilgangi og ræktar skyldur ríkisins getur félag óskað eftir rekstrarsamningi. 

Áður en farið er út í slíkt er mikilvægt að vera með raunsæjar áætlanir og skýr markmið. 

LUF veitir aðildarfélögum sínum aðstoð og ráðgjöf í samskiptum við stjórnvöld.
Hafðu samband með því að senda tölvupóst á youth@youth.is

Félög sem sinni lögbundinni þjónustu geta komist inn á fjárlög ríksins, þ.e. félög sem í raun sinna verkefnum „fyrir hönd hins opinbera.” 

Eins og dæmi sýnir úr samningi LUF við Mennta- og menningarmálaráðuneytið sem undirritaður var árið 2018. Þar er markmiðið að: „rækta skyldur ríkisins á sviði æskulýðsmála sbr. 3 gr. æskulýðslaga nr. 70/2007,” og „tryggja framgang stefnu málefnasviðs 18 í málefnaflokki 18.4, sbr. fjármálaáæltun 2018-2022.” 

LUF hefur lengi barist fyrir auknu jafnræði við úthlutanir og þar með auknu fjármagni til ungmennafélaga sem falla undir málefnasvið LUF, félög sem eru rekin af ungu fólki með hagsmuni ungs fólks að leiðarljósi.

Ungmennastarf sem er nú á fjárlögum eru Landssamband Ungmennafélaga, Æskulýðssjóður, Æskulýðs- rannsóknirnar Ungt fólk, KFUM og KFUK, Bandalag íslenskra skáta, UMFÍ og Æskulýðsráð.

LUF mælir með að félög byrji á því að sækjast eftir rekstrarsamning við einstök ráðuneyti.

Styrktarsjóðir á Íslandi

Styrktarstjóðir á Íslandi skiptast í: Nýsköpunarsjóði, Menningarsjóði, Menntasjóði, Alþjóðlega sjóði, Íþróttasjóði, Rannsóknarsjóði.
Eftirfarandi sjóðir geta ungmennafélög sótt um, flestir sjóðirnir styrkja einstök verkefni en ekki almennan rekstur félags.

Hlutverk sjóðsins er að styrkja verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka. Verkefnin skulu unnin fyrir börn og ungmenn og/eða með virkri þátttöku þeirra. Lögð er sérstök áhersla á verkefni sem lúta fjölgun félagsmanna og eflingu innra starfs þeirra, mannréttindafræðslu, samstarfsverkefni félagasamtaka og verkefni sem vinna gegn einelti/einsemd.

Verkefnin skulu falla að markmiðum laga um æskulýðsfélög: með æskulýðsstarfi sé átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum.

 • Eðli verkefna sem styrkt eru:
  • Þjálfun forystufólks;
  • Sjálfboðaliðaverkefni;
  • Nýjungar og þróunarverkefni;
  • Samstarfsverkefni ungmennafélaga

Þeir sem eru í forsvari fyrir ungmennafélög geta sótt um. 

Umsóknarfrestir eru 15. október og 15. febrúar ár hvert.

Nánari upplýsingar hér.

Æskulýðssjóður er styrktarsjóður hjá Rannís. Hlutverk Rannís er að veita stuðning við rannsóknir og nýsköpun, menntun, menningu og listir og æskulýðsstarf og íþróttir. Rannís stuðlar að þróun þekkingarsamfélagsins með rekstri samkeppnissjóða, aðstoð og kynningu á alþjóðlegum sóknarfærum og samstarfsmöguleikum auk þess að greina og kynna áhrif rannsókna, menntunar og menningar á þjóðarhag. Rannís heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og starfar á grundvelli laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.

Evrópski ungmennasjóðurinn

Stofnaður af Evrópuráðinu til þess að styðja fjárhagslega við ungmennastarf. Frjáls félagasamtök ungs fólks frá aðildarríkjum Evrópuráðsins geta sótt um, þ.m.t. Ísland

Verkefnin sem hljóta styrk þurfa að falla undir eftirfarandi þemu:

 • Vinna gegn hatursorðræðu:
  • Verkefni sem tengjast alþjóðlegu herferðinni „Ekkert hatur.“ 
 • Samfélag fyrir alla:
  • Verkefni sem sameina ólíka hópa, styðja fjölmenningu og margbreytileika og vinna þannig gegn samfélagslegri útilokun minnihlutahópa. Sér í lagi verkefni sem styðja samfélagslega aðlögun innflytjenda, hælisleitenda og flóttamanna. 
 • Byggja upp friðsameg samfélög: 
  • Verkefni sem styrkja frjáls félög ungs fólks á átakasvæðum eða fyrrum átakasvæðum. Framlög ungs fólks til að vinna gegn hryðjuverkum.

Umsóknarfrestur: 1. október (enginn frestur er fyrir prufukeyrslur á verkefnum).

Nánari upplýsingar má finna hér.

Norræna barna og ungmennanefndin, í umboði Norrænu ráðherranefndarinnar veitir styrki til ungmennamála

 • Markmiðið er að styrkja norræna sjálfsvitund með því að efla þátttöku, skilning og áhuga hjá ungi fólki á Norðurlöndum er varða:
  • Menningu;
  • Stjórnarhætti;
  • Félagslega þætti.
 • Veittir eru styrkir til ýmissa samstarfsverkefna félagasamtaka ungs fólks, ungmennahópa og einstaklinga.
 • Þátttakendur þurfa að vera undir 30 ára aldri og þrjú Norðurlönd þurfa að taka þátt.

Umsóknarfrestur um styrki til landssamtaka á sviði ungmennamála er 1. október ár hvert. 
Nánari upplýsingar má finna hér.

Styrktaráætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs og íþróttamál 2014-2020. Starf ungmennafélaga fellur undir æskulýðsstarf þar styrkt eru verkefni sem falla undir:

 • Óformlegt nám og þjálfun í æskulýðsstarfi
 • Samstarfsverkefni
 • Stefnumótun í æskulýðsstarfi

Umsóknarfrestir eru þrisvar á ári: í febrúar, maí og október. Nánari upplýsingar má finna hér.

Gott er að hafa markmið sjóðsins til hliðsjónar við gerð umsóknar, en þau eru:

 • auka færni ungs fólks, þar á meðal ungs fólks með færri tækifæri
 • Að hvetja ungt fólk til virkrar þátttöku í samfélaginu (lýðræði og atvinnumarkaður).
 • skapa tækifæri fyrir samræður fólks af ólíkum menningarheimum.
 • Að efla gæði í ungmennastarfi, sérstaklega með auknu samstarfi milli samtaka og stofnanna sem sinna æskulýðsstarfi.
 • Að styðja við stefnumótun í ungs fólks á öllum stigum.
 • Að auka viðurkenningu á óformlegu námi.
 • Að styðja alþjóðlega vídd ungmennastarfs, innan sem utan Evrópu.

Forgangsmál sjóðsins eru:

 • Að skapa tækifæri til jafnrar þátttöku alls ungs fólks í samfélaginu og takast á við atvinnuleysi ungmenna.
 • Að hvetja til heilbrigðrar hegðunar, sérstaklega útivistar og iðkun grasrótaríþrótta.
 • Að auka meðvitund ungs fólks um evrópsk borgararéttindi.
 • Að auka færni ungs fólks, bæði á almennum og sértækum sviðum.
 • Að bæta notkun á upplýsingatækni í ungmennastarfi og óformlegu námi.
 • Að hvetja til aukinnar samlegðar milli ólíkra tækja og aðferða við mat á óformlegu námi á evrópskum og svæðisbundnum vettvangi.

Erasmus+ styrkir á Íslandi eru meira en 750 milljónir á ári!

Umsókn

1. Úr hugmynd í framkvæmd

Fyrsta skrefið í gerð umsóknar er að fá hugmynd að verkefni. Mikilvægast er þó að þróa hugmyndina, breyta henni í takt við aðstæður, þarfir samfélagsins og markmið styrktarsjóðsins. Miklu máli skiptir að festast ekki í upphafs hugmynni og hafa í huga að því fleiri raddir sem koma að sköpuninni því betri getur hugmynd orðið og hentað víðari markhóp. Í þróunarferlinu skal leggjast í rannsóknarvinnu og draga lærdóm af þeim verkefnum hafa hlotið styrk áður, sérstaklega kanna hvort svipað verkefni hafi verið framkvæmt. Auk þess þarf að rökstyðja mikilvægi verkefnisins með handbærum heimildum sem geta gefið verkefninu vigt, s.s. fréttum, skýrslum, fræðigreinum, fyrirmyndum erlendis frá eða bókum.

Æskilegt er að huga að raunhæfri framkvæmdaráætlun og fjárhagsáætlun frá upphafi og kanna hvort umsækjandi geti mætt kröfum styrktarsjóðins, s.s. með mannauð og tíma.

2. Upplýsingar fyrir umsókn

Titill á verkefni: Lýsandi og grípandi.

Eðli verkefnis:  Undir hvaða flokk fellur það í hverjum sjóði.

Umsækjandi: Gera þarf grein fyrir félaginu sem sækir um, stefnu þess og markmiðum. Rökstyðja hvers vegna fjárstuðningur við verkefnið er nauðsynlegur til þess að mæta markmiðum félagsins. Hefur umsækjandi framvæmt svipað verkefni áður? 

Verkefnastjórnun:  Hefur verkefnastjóri reynsluna sem þarf til að framkvæma eða getur sótt sér nauðsynlega kunnáttu? Verður verkefnið unnið af einum einstakling eða í teymi? Þegar velja á teymi er gott að hafa í huga að velja einstaklinga sem geta verið í verkefninu frá upphafi til enda. Stundum eru fámennari teymi skilvirkari þar sem hver og einn gegnir ábyrgð og veit hvað sé ætlast til af honum.

Markmið: Lýsandi og raunhæf. Er hugmyndin sjálfbær?

Bakgrunnur: Rökstyðja hvers vegna verkefnið er þarft og tímabært með áreiðanlegum upplýsingum/heimildum.

Framkvæmd: Lýsa öllum skrefum sem tekin verða í átt að markmiðum innan skilgreinds tímaramma.

Áhöld og tól: Er tæknibúnaður til staðar eða þarf t.d. að leigja?

Staðsetning: Hvar fer verkefnið fram og hvers vegna?

Þátttakendur: Hverjir taka þátt og hvers vegna? Taka fram fjölda, kyn, aldur o.s.frv. Er hægt að efla minnihlutahópa til þáttöku?

Fjárhagsáætlun: Nákvæm áætlun um heildarkostnað með sundurliðun.

Ávinningur: Hver verður útkoman? Er verið að sporna við einhverju eða efla eitthvað?

Einkenni góðrar umsóknar:

 • Vandað málfar

 • Framtíðarsýn

 • Trúverðugleiki

 • Er einhvers virði

 • Skýr verkáætlun

 • Vel uppsett fjárhagsáætlun.

3. Fylgigögn

Fylgigögn auka líkurnar á úthlutun, þau geta verið:

 • Náms- og starfsferilskrár þeirra sem framkvæma verkefnið.
 • Ítarleg greinargerð um félagið sem sækir um.
 • Ársskýrsla með upplýsingum um fjárhagsstöðu félagsins.
 • Ítarleg aðgerðaráætlun (e. Action plan) verkefnis sem sótt er um fjármagn fyrir, með upplýsingum um nákvæmar dagsetningar, allar aðgerðir verkefnisins, upplýsingar um aðföng, dreifing ábyrgðar.

Athugið að hver sjóður er með mismunandi reglur um fylgigögn. Erasmus+ gerir t.d. kröfu um dagskrá, undirskrift ábyrgðaraðila og umboð frá samstarfsaðilum.

3. Áfanga- og lokaskýrsla

Öll verkefni sem hljóta styrki úr öllum sjóðum þurfa að skila af sér lokaskýrslu. Þar þarf að koma fram:

 • Almenn greinargerð um verkefnið
 • Hvernig tókst til:
  • Var markmiðum náð og hvernig?
  • Áskoranir (ef einhverjar) og hvernig brugðist var við?
  • Er verkefnið orðið sjálfbært?
  • Er þörf á öðru verkefni?
  • Hvert er framhaldið?
 • Sundurliðaður raunkostnaður, ath. að endurgreiða þarf það sem eftir stendur.

Deila verkfæri

Meira úr verkfærakistunni