Sambandsþing Landssambands ungmennafélaga (LUF) var haldið í Hinu húsinu laugardaginn 12. mars 2021. Á þinginu vora farið yfir hefðbundin aðalfundarstörf. Var þar m.a. kjörin ný stjórn og samþykktar lagabreytingar sem lúta að því að jafna atkvæðavægi aðildarfélaga að teknu tilliti til fjölda félagsmanna þeirra.

Una Hildardóttir stígur til hliðar

Á sambandsþinginu bauð Geir Finnsson, fulltrúi Uppreisnar, sig fram sem forseti félagsins og hlaut hann kjör. Hann tekur því við embætti forseta LUF af Unu Hildardóttur, fulltrúa UVG, sem gengt hafði embættinu undanfarin þrjú starfsár.

Í framboðsræðu sinni lagði Geir áherslu á að mikilvægt væri að valdefla ungt fólk og ungmennafélög landsins enn frekar. „Í stað þess að spyrja hvernig hægt sé að ná til ungs fólks eigum við að veita ungu fólki sæti við sama borð og aðrir hópar. Því ungt fólk á skilið traust frekar en tortryggni og forræðishyggju,“ sagði hann.

Í embætti varaforseta var kjörinn Viktor Ingi Lorange, fulltrúi UNF. Í embætti ritara var kjörinn Huginn Þór Jóhannsson, fulltrúi UP. Í embætti gjaldkera var kjörin Sylvía Martinsdóttir, fulltrúi UE. Í embætti alþjóðafulltrúa var kjörin Jessý Jónsdóttir, fulltrúi SHÍ. Þá voru kjörnir tveir meðstjórnendur og hlutu Pétur Halldórsson, fulltrúi UU, og Sigurþór Maggi Snorrason, fulltrúi SÍF. Einnig voru tveir varamenn kjörnir í stjórn og hlutu Una Hildardóttir, fráfarandi forseti stjórnar, og Steinunn Ása Sigurðardóttir, fráfarandi lýðræðisfulltrúi stjórnar, kjör sem varamenn.

Breytingar á sambandsþingi félagsins

Einnig var á þinginu samþykkt lagabreytingartillaga stjórnar. Breytingartillagan var nokkuð drastísk þar sem hún breytir skipan fulltrúa aðildarfélaga á sambandsþingi LUF og atkvæðavægi milli aðildarfélaganna.

Þannig munu aðildarfélögin ekki skipa þrjá fulltrúa sína á sambandsþing sem hver og einn fer með eitt atkvæði. Þess í stað munu aðildarfélögin eftir lagabreytinguna skipa tvo fulltrúa, aðalfulltrúa og varafulltrúa, sem fara saman með atkvæði aðildarfélagsins. Þá fólst í breytingunni að atkvæðastyrkur hvers aðildarfélags byggist á fjölda félagsmanna að baki aðildarfélagin. Þannig fer atkvæðastyrkurinn hækkandi með fjölda félagsmanna eftir nánar tilgreindum forsendum.