Geir endurkjörinn forseti LUF

Sambandsþing Landssambands Ungmennafélaga (LUF) fór fram laugardaginn 25. febrúar síðastliðinn á Háskólatorgi þar sem fulltrúar aðaildarfélaga LUF kusu nýja stjórn. Geir Finnsson, fulltrúi Uppreisnar – Ungliðahreyfingar Viðreisnar var endurkjörinn forseti en hafði hann betur í kosningu gegn S. Magga Snorrasyni, fulltrúa Sambands íslenskra framhaldsskólanema.

Geir Finnsson, endurkjörinn forseti LUF.

Í framboðsræðu sinni lagði Geir áherslu á mikilvægi þess að stækka LUF og að félagið beiti sér af krafti fyrir endurskoðun á æskulýðslögum. „LUF stendur í raun á tímamótum, það er að slíta barnsskónum og stefnir á hraðleið í þá átt að vera það hagsmunafélag sem við viljum að það sé. Félag sem hefur burðina til að heyja sterkari hagsmunabaráttu ungs fólks og veita aðildarfélögum sínum öflugri og fjölbreyttari þjónustu, félag sem er lyftistöng fyrir aðildarfélög sín.“

Á þinginu fóru fram kröftugar umræður, lagabreytingar og kjör ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) á sviði mannréttinda. Þá hlutu tvö félög fullnaðaraðild að LUF, annars vegar Q – Félag hinsegin stúdenta og Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS).

Ný stjórn LUF

 

Auk Geirs voru kjörin í stjórn Eva Brá Önnudóttir, fulltrúi Ung norræn, varaforseti, Sylvía Martinsdóttir, fulltrúi Ungra evrópusinna, gjaldkeri, Birta Karen Tryggvadóttir, fulltrúi Sambands ungra sjálfstæðismanna ritari og Jessý Jónsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra nema erlendis, alþjóðafulltrúi. Auk þeirra voru tveir meðstjórnendur kjörnir, Geir Zoëga, frá Samfés og Gunnar Ásgrímsson frá Sambandi ungra framsóknarmanna. Laufey María Jóhannsdóttir, fulltrúi Ungra fjárfesta og Marinó Örn Ólafsson, fulltrúi Ungs jafnaðarfólks eru varamenn í stjórn.

Nýkjörin stjórn LUF ásamt starfsmönnum.



Sólveig Ástudóttir Daðadóttir og Anna María Kjeld, forseti og varaforseti Q – félags hinsegin stúdenta taka við viðurkenningu um fulla aðild.

Umsóknir Q – félags hinsegin stúdenta og SUS um fulla aðild samþykktar


Tveimur félögum ungs fólks voru veitt full aðild að LUF á Sambandsþinginu: Q – félag hinsegin stúdenta og Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS). Voru umsóknir þeirra samþykktar með einróma lófataki allra þingfulltrúa og eiga nú 41 félög aðild að landssambandinu. 

Tilgangur Q – félags hinsegin stúdenta er að þjóna hagsmunum hinsegin stúdenta á Íslandi. Þau gefa hinsegin (LGBTQIA+) stúdentum tækifæri til að hittast, veita þeim stuðning og auka samheldni þeirra. Jafnframt eru samtökin sýnilegt afl innan háskóla og í forsvari þegar málefni hinsegin einstaklinga ber á góma, þau beita sér í réttindabaráttu hinsegin fólks innan og utan háskóla og stuðla að auki að aukinni fræðslu, kennslu, umræðu og rannsóknum um málefnið innan sem flestra deilda háskóla. Sólveig Ástudóttir Daðadóttir, forseti félagsins sagðist full tilhlökkunar yfir samstarfinu við samþykkt aðildarumsóknar og að hún markaði viss tímamót fyrir bæði félög.

Lísbet Sigurðardóttir og Birta Karen Tryggvadóttir, formaður og stjórnarmaður SUS taka við viðurkenningu um fulla aðild.

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) var stofnað 27. júní 1930 og er stærsta ungliðahreyfing landsins. SUS er bandalag allra 32 svæðisbundinna félaga ungra sjálfstæðismanna um allt land. Tilgangur sambandsins er að vinna að varðveislu hins íslenska lýðveldis, sjálfstæðis og fullveldis og hagnýtingu gæða landsins í þágu íslenskra þegna auk þess að efla í landinu þjóðlega, víðsýna og frjálslyndrar framfarastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis, atvinnufrelsis og séreignar, með hagsmuni allra stétta fyrir augum. Við samþykkt aðildarumsóknar SUS sagðist Lísbet Sigurðardóttir, formaður SUS, að hún vonaðist til að aðild SUS að Landssambandi ungmennafélaga myndi leiða til styrkingar beggja félaga til framtíðar.

Með inngöngu SUS eru nú allar starfandi ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka á Íslandi innan vébanda Landssambands ungmennafélaga.

Fulltrúar fráfarandi og nýrrar stjórna vilja þakka öllum þeim sem mættu á þingið og sömuleiðis öllum aðildarfélögum LUF fyrir gott samstarf á liðnu starfsári. LUF fagnar því að við bættust fimm efnilegir einstaklingar við í stjórn sem mun halda áfram að leiða starfið af krafti, sem tryggir samfellu í starfi og komandi verkefnum.