Vettvangur fyrir fólk á aldrinum 18- 35 ára sem er með fötlun, skerðingar, langvinna sjúkdóma eða raskanir. 

Á stjórnarfundi 18. september 2020 samþykkti stjórn LUF umsókn Ungliðahreyfingar Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um áheyrnaraðild að sambandinu. 

Tilgangur Ungliðahreyfingar ÖBÍ er að veita jafningjastuðning, stuðla að sjálfstyrkingu og berjast fyrir réttindum ungs fatlaðs fólks. Félagar ungliðahreyfingarinnar eiga sæti í öllum málefnahópum innan ÖBÍ sem tryggir aðkomu ungs fólks að ákvörðunartöku innan bandalagsins. Ungliðahreyfingin stendur fyrir ýmsum viðburðum fyrir félagsmenn og hægt er að sækja um aðild á Facebook síðu hópsins. 

Mikilvæg í réttindabaráttu ungs fólks

Markmið Ungliðahreyfingar ÖBÍ eflir LUF í hlutverki sínu sem málsvari ungs fólks og samræmast stefnu LUF um félagslega samlögun. Þar segir: „LUF aðhyllist fjölmenningarhyggju, beitir sér í félagslegri samlögun og vinnur að því að vernda réttindi og efla þátttöku jaðar- og minnihlutahópa. LUF fordæmir hatursorðræðu og hvers konar mismunun fólks byggða á kynferði, kynhneigð, kyntjáningu, trúarbrögðum, skoðunum, tungumáls, þjóðernisuppruna, fötlunar, örorku, aldurs, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti. LUF setur það sem skilyrði að allir hópar sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu hafi rödd innan alls starfs sem tengist þeirra málaflokki. Ekkert skal framkvæma eða ákveða án þeirra samráðs.“ 

Aðild Ungliðahreyfingar ÖBÍ er mikill styrkur fyrir LUF, sér í lagi með sérþekkingu sinni á málefnum ungra öryrkja. „Við fögnum því að Ungliðahreyfing ÖBÍ sé komin undir regnhlíf LUF. Aðild þeirra tryggir að mikilvæg sjónarmið komist að sem eru nauðsynleg í allri hagsmunabaráttu ungs fólks á Íslandi,“ segir Una Hildardóttir, forseti LUF.

Áslaug Ýr Hjartardóttir talskona Ungliðahreyfingar ÖBÍ fagnar samstarfinu: „Það gleður okkur í Ungliðahreyfingu ÖBÍ að fá aðild að LUF. Hjá okkur er ungt fatlað fólk á aldrinum 18 – 35 ára en hreyfingin var endurvakin innan Öryrkjabandalags Íslands árið 2015 þegar ljóst var að þörf væri fyrir slíkan vettvang. Við höfum starfað síðan, en markmið okkar er bæði að sameina ungt fatlað fólk og standa saman í réttindabaráttu fatlaðra. Það er því stórt skref að koma inn á vettvang eins og LUF, enda mikilvægt að rödd allra ungmenna, þar á meðal fatlaðra, heyrist. Við vonum að við munum eiga farsælt samstarf við LUF og hlökkum til komandi stunda.“

Með samþykki stjórnar öðlast Ungliðahreyfing ÖBÍ  áheyrnaraðild.

Stjórn LUF býður Ungliðahreyfingu ÖBÍ hjartanlega velkomna undir regnhlífina.

Mynd í haus er frá Ungmennaþingi ÖBÍ 2019