Býr leiðtogi í þér?
Leiðtogaskóli Íslands (LSÍ) þjálfar persónulega hæfni, eflir tengslanet, deilir reynslu og eykur leiðtogahæfni. Námskeið skólans veita aukna hagnýta þekkingu, verkfæri sem nýtast almennu starfi ungmennafélaga og nýtast í hagsmuna- og réttindabaráttu ungs fólks.
Leiðtogaskólinn 2021 fer fram helgarnar 9. – 10. & 23. – 24. október í Hinu húsinu.

“Vakin er athygli á að stjórn LSÍ áskilur sér rétt til breytinga”
Fyrir hverja?
Skólinn er sameiginlegur vettvangur aðildarfélaga LUF. Hann er ætlaður fólki á aldrinum 16-35 ára sem situr í stjórnum ungmennafélaga, sjálfboðaliða og almenna félagsmenn aðildarfélaganna sem vilja láta til sín taka í þágu samfélagsins. Þátttaka í skólanum er kostnaðarlaus fyrir félagsmönnum aðildarfélaga LUF.
Þátttakendur verða valdir með fjölbreytni í huga og út frá aldri, kynjahlutfalli, áhuga, vilja til að læra og stöðu til að miðla þekkingunni áfram. Litið verður á leiðtogahlutverk og/eða reynslu af ungmenna- og hagsmunastarfi sem kost.
Lokaverkefni
Þátttakendur skólans sitja og taka þátt í ofangreindum námskeiðum. Unnið verður að verkefnahugmyndum sem falla undir þema skólans: Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í samræmi við lið 2.3. um sjálfbæra þróun í stefnu LUF. Hugmyndirnar verða að lokaverkefni sem getur verið í hvaða formi sem er, á hvaða stigi sem er, svo lengi sem það tengist Heimsmarkmiðunum, beint eða óbeint. Afurð verkefnisins getur jafnframt verið hvað sem er, svo lengi sem hún nýtist a.m.k. einu aðildarfélagi LUF, beint eða óbeint. Valið er um hvort unnið er að einstaklings- eða hópaverkefni.
Lokaverkefni brautskráðra leiðtoga hafa reynst aðildarfélögum LUF vel og eflt innra starf þeirra með ýmsum hætti. Þátttakendur hafa til að mynda nýtt Leiðtogaskólann til þess að fá aðstoð við mótun ýmissa hugmynda, sækja um styrki fyrir verkefnum, vinna að stefnumótun fyrir félagið sitt, hanna námskeið fyrir félagsmenn, skipuleggja viðburði, framkvæma netherferð, stuðla að nýliðun, ýmsa útgáfu o.fl.
Þátttakendur kynna lokaverkefnin á málþinginu „Innleiðing Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í ungmennastarf“ og brautskrást í kjölfarið með skírteini við formlega athöfn þann 24. október 2021.
Vertu með!
Skólinn byggist á jafningjafræðslu, leggur áherslu á tengslamyndun og hvetur aðildarfélögin til samstarfs. Þátttakendur mynda liðsheild með þjálfurum úr Þjálfarateymi LUF (e. Pool of Trainers). Vænst er til þess að allir læri af öllum og að þátttakan verði hvatning til að láta gott af sér leiða.
Teymið samanstendur af reyndum þjálfurum innan aðildarfélaga LUF. Teymið miðlar þekkingu og reynslu á milli félaga, styrkir innviði LUF og aðildarfélaganna. Auk þess byggir teymið upp getu ungmennafélaga og eflir leiðtogahæfni forystufólks innan félagasamtaka ungs fólks. Teymið er gagnagrunnur hæfra þjálfara sem aðildarfélögin geta óskað eftir námskeiðum frá eftir þörfum gegn vægu gjaldi. Þátttakendur sem brautskrást úr skólanum hafa kost á að sækja um í Þjálfarteymi LUF.
Frá stofnun hefur skólinn útskrifað fjölda leiðtoga og meðal annars hlotið viðurkenningu Evrópuráðsins (e. Council of Europe) sem „gott fordæmi“ (e. best practice) í Evrópu.
Umsóknarfrestur er til og með sunnudeginum 3. október.
Allar upplýsingar um skólann veitir Sigurður Helgi Birgisson lögfræðingur LUF í gegnum
sigurdur.helgi@youth.is.