Á sama tíma og mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að ráðast í metnaðarfulla stefnumótun á sviði æskulýðsmála er lagt til í fjárlögum að skera niður úthlutanir til málaflokksins. LUF kallar eftir því að stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar gagnvart ungu fólki á Íslandi með endurskoðun á lögunum.

LUF hefur skilað til Alþingis umsögn um fjárlög 2021 og fjármálaætlun 2021-2025. Í umsögn sinni gerir LUF meðal annars athugasemd við niðurskurð á fjárútlátum stjórnvalda til ungmennafélaga. Þar er bent á að afleiðingar þessa geta orðið afar slæmar, sérstaklega á tímum sem þessum. Þá gerir LUF eftirfarandi athugasemd ósamræmið sem fram kemur í frumvarpinu og leggur fram tillögur að úrbótum:

Ósamræmi milli fjárlaga og markmiða 

Þá skýtur skökku við að skerðingin komi fram á þessum tímapunkti. En mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að ráðast í metnaðarfulla stefnumótun á sviði æskulýðsmála til næstu tíu ára. Þessar áætlanir ganga ekki saman og mætti segja að þær stangist á. Ómögulegt er að leggjast í metnaðarfulla stefnumótun til frambúðar þegar ljóst er að fjárframlög koma til með að lækka töluvert að raungildi. Þar að auki er í fjármálaáætlun 2021-2025 gert ráð fyrir frekari niðurskurði til málefnasviðsins á næstu árum. Það er því döpur framtíðarsýn sem birtist aðilum innan málaflokksins í fjárlagafrumvarpi ársins 2021.

Tillaga LUF til úrbóta: 

Gera ráð fyrir að stefnumótun til næstu 10 ára á sviði æskulýðsmála þurfi að fylgja fjármagn til að framkvæma hana, bregðast við nýjum markmiðum og verkefnum í málaflokknum og til að sinna nauðsynlegri eftirfylgni og eftirliti með framgangi stefnunnar.

Sækja umsögn á PDF formi