Landssamband ungmennafélaga (LUF), í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og utanríkisráðuneytið, óskar hér með eftir framboðum til Ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda (e. United Nations Youth Delegate of Iceland on Human Rights) sem verður lýðræðislega kjörinn af fulltrúaráði LUF þann 14. ágúst. Ungmennafulltrúinn kemur til með að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í september í umboði ungs fólks á Íslandi.
Hvernig býð ég mig fram?
Öll aðildarfélög LUF (með fulla aðild og áheyrnaraðild) geta boðið fram einn fulltrúa. Áhugasamir félagsmenn aðildarfélaga LUF þurfa því að óska eftir umboði frá stjórn viðkomandi félags. Stjórnin tilkynnir framboð með því að senda fullt nafn frambjóðanda ásamt netfangi á youth@youth.is. Með umboði staðfestir stjórn að frambjóðandinn uppfylli eftirfarandi hæfniskröfur.
Hæfniskröfur:
- Umboð frá aðildarfélagi LUF.
- Vera á aldrinum 18 (þegar allsherjarþingið hefst 17. september) – 25 ára (á fulltrúaráðsfundi LUF 14. ágúst).
- Hafa þekkingu á mannréttindum ungs fólks (e. Youth Rights).
- Hafa reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga
- Búa yfir leiðtogahæfni og frumkvæði
- Hafa vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.
- Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur.
Framboðsfrestur rennur út á fulltrúaráðsfundi LUF 14. ágúst.
Nánari upplýsingar
Ungmennafulltrúinn sem hlýtur kjör í ágúst verður sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. En flest ríki í Evrópu hafa lengi haft slíka, sum frá árinu 1970 og önnur skipa yfir 20 fulltrúa sem sækja flesta viðburði Sameinuðu þjóðanna. LUF hefur lengi barist fyrir slíku fyrirkomulagi hérlendis og hefur það loks tekist með nánu samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og með stuðningi utanríkisráðuneytisins.
Fulltrúinn kemur til með að sitja sem fulltrúi Íslands á 74. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í eina viku um miðjan september. Flugfargjöld og dagpeningar verða greidd af utanríkisráðuneytinu, skipulag dvalar verður ákveðið í samstarfi við fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi veitir fulltrúanum ráðgjöf eftir þörfum. LUF heldur utan um efnislegan undirbúning og samstarf fulltrúans við aðra ungmennafulltrúa innan Norðurlanda- og Eistrasaltsríkjabandalagsins (Nordic Baltic Cooperation – NBC) og Evrópska ungmennavettvangsins (European Youth Forum – YFJ).
Ungmennafulltrúinn kemur til með að vera hluti af sendinefnd LUF hjá Sameinuðu þjóðunum, sem er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá Sameinuðu þjóðunum. Nefndin virkar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við.
Embættið er sjálfboðastarf, að dagpeningum erlendis undanskildum.