Landssamband ungmennafélaga (LUF) í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og utanríkisráðuneytið óskar hér með eftir framboðum til ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda. Ungmennafulltrúinn er skipaður til eins árs og kemur til með að m.a. sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í umboði ungs fólks á Íslandi.
Hvernig býð ég mig fram?
Öll aðildarfélög LUF (með fulla aðild og áheyrnaraðild) geta boðið fram einn fulltrúa. Áhugasamir félagsmenn aðildarfélaga LUF þurfa því að óska eftir umboði frá stjórn viðkomandi félags. Stjórnin tilkynnir framboð með því að fylla út skráningarform, sem öll aðildarfélög fá sent í fundarboði. Með umboði staðfestir stjórn að frambjóðandinn uppfylli eftirfarandi hæfniskröfur:
Hæfniskröfur:
- Umboð frá aðildarfélagi LUF.
- Vera á aldrinum 18 – 25 ára.
- Hafa þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
- Hafa reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga.
- Búa yfir leiðtogahæfni og frumkvæði.
- Hafa vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.
- Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur.
Ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda er skipaður til eins árs og mun þurfa sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Sömuleiðis situr ungmennafulltrúinn í sendinefnd LUF hjá SÞ auk þess að sitja í alþjóðaráði LUF. Umsækjendur verða að geta skulbundið sig stöðunni í eitt ár auk þess að sækja alla viðburði sem af þeim er krafist. Þá er búist við að ungmennafulltrúar á vegum LUF sæki Leiðtogaskóla Íslands.
Frestur til tilnefningar rennur út á miðnætti 18. febrúar 2023. Kjör fulltrúans mun fara fram á sambandsþingi LUF 25. febrúar 2023.
Sendinefnd LUF
Kjör ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda skipar sæti í sendinefnd LUF hjá Sameinuðu þjóðunum. Nefndin er hluti af alþjóðaráði LUF og er jafnframt starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við. Sendinefndin skipar nú fimm fulltrúa; á sviði mannréttinda, loftslagsmála, sjálfbærar þróunar, kynjajafnréttis, og barna og ungmenna.
Embættið er sjálfboðastarf, að dagpeningum erlendis undanskildum.
Frekari upplýsingar veitir Viktor Lorange, verkefnastjóri LUF, viktorlorange@youth.is
